Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 382  —  71. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um orkukostnað heimilanna.


     1.      Hver er meðalárskostnaður vegna raforkunotkunar og húshitunar á 140 fermetra og 350 rúmmetra einbýlishúsi samkvæmt gjaldskrá 1. september 2016 á eftirgreindum stöðum miðað við lægsta fáanlega gjald fyrir orku frá rafveitu og hitaveitu: RARIK – dreifbýli, Orkubúi Vestfjarða – dreifbýli, Orkuveitu Reykjavíkur – dreifbýli, Akranesi, Borgarnesi, Stykkishólmi, Patreksfirði, Ísafirði, Bolungarvík, Hólmavík, Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri, Grenivík, Húsavík, Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafirði, Seyðisfirði, Reyðarfirði, Egilsstöðum, Höfn, Vestmannaeyjum, Hvolsvelli, Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík, Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík?
    Eftirfarandi tafla sýnir meðalárskostnað vegna raforkunotkunar og húshitunar á 140 fermetra einbýlishúsi samkvæmt gjaldskrá 1. september 2016 á landsvísu, miðað við lægsta fáanlega gjald fyrir orku frá rafveitu og hitaveitu (tölur námundaðar að þúsund krónum).

Almenn raforkunotkun Hitaveita Kynt hitaveita Rafhitun Samtals
Grindavík 76.000 72.000 0 0 148.000
Reykjanesbær 76.000 73.000 0 0 149.000
Akureyri 71.000 80.000 0 0 151.000
Ólafsfjörður 83.000 73.000 0 0 156.000.
Hveragerði 83.000 75.000 0 0 158.000
Sauðárkrókur 83.000 75.000 0 0 158.000
Þorlákshöfn 83.000 76.000 0 0 159.000
Húsavík 83.000 78.000 0 0 162.000
Dalvík 83.000 81.000 0 0 164.000
Hafnarfjörður 81.000 84.000 165.000
Akranes 81.000 84.000 0 0 165.000
Kópavogur, meðaltal 81.000 84.000 0 0 165.000
Reykjavík, meðaltal 81.000 84.000 0 0 165.000
Borgarnes 83.000 82.000 0 0 165.000
Egilsstaðir 83.000 84.000 0 0 167.000
Selfoss 83.000 85.000 0 0 168.000
Stykkishólmur 83.000 85.000 0 0 169.000
Grenivík 83.000 95.000 0 0 178.000
Hvolsvöllur 83.000 97.000 0 0 180.000
Vestmannaeyjar 76.000 0 120.000 0 196.000
Siglufjörður 83.000 134.000 0 0 218.000
Blönduós 83.000 134.000 0 0 218.000
Skagaströnd 83.000 134.000 0 0 218.000
Bolungarvík 84.000 0 140.000 0 224.000
Ísafjörður 84.000 0 140.000 0 224.000
Patreksfjörður 84.000 0 140.000 0 224.000
Veitur dreifbýli 110.000 125.000 0 0 235.000
Höfn 83.000 0 152.000 0 235.000
Seyðisfjörður 83.000 0 152.000 0 235.000
Hólmavík 84.000 0 0 164.000 247.000
Reyðarfjörður 84.000 0 0 169.000 253.000
Vopnafjarðarhreppur 83.000 0 0 171.000 254.000
Þórshöfn 83.000 0 0 171.000 254.000
Raufarhöfn 83.000 0 0 171.000 254.000
Dreifbýli Orkubú Vestfjarða 108.000 0 0 164.000 272.000
Dreifbýli RARIK 110.000 0 0 171.000 281.000


     2.      Hver hafa verið helstu áhrif laga nr. 20/2015 á þróun raforkuverðs frá gildistöku þeirra? Eru dæmi um gjaldskrárhækkanir eftir gildistöku laganna og hve miklar hafa þær þá orðið og hvar?
     Lög nr. 20/2015, um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, komu til framkvæmda 1. apríl 2015. Með lögunum var lagt á jöfnunargjald á alla dreifingu raforkunotkunar sem fer um dreifikerfið. Var jöfnunargjaldið 0,20 kr./kWh á árinu 2015, á forgangsorku, og 0,30 kr./kWh frá upphafi árs 2016.
    Markmið laganna, og jöfnunargjaldsins, er að standa undir jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda (þ.e. jafna kostnað notenda í dreifbýli til jafns við dýrasta þéttbýlið) en fyrir tilkomu gjaldsins var slík jöfnun fjármögnuð beint úr ríkissjóði á fjárlögum hvers árs. Þessi jöfnun hófst samhliða gildistöku raforkulaga árið 2005 og fór síðan minnkandi að raunvirði allt fram til ársins 2014 er Alþingi samþykkti aukin framlög. Með gildistöku laga nr. 20/2015 var síðan enn aukið við jöfnunina með tilkomu jöfnunargjaldsins.
    Á undanförnum árum hefur kostnaður dreifiveitna raforku í dreifbýli farið vaxandi sem kemur fram í tekjumörkum sem Orkustofnun hefur sett þessari starfsemi. Samhliða hefur orkunotkunin í dreifbýlinu vaxið hægt sem gerir það að verkum að kostnaður á orkueiningu í dreifbýli hefur vaxið verulega. Gjaldskrár dreifiveitnanna á þeim svæðum hafa því hækkað þrátt fyrir að þær hafa ekki fullnýtt tekjumörk sem þær fá fyrir dreifbýlið. Hækkun dreifbýlisframlags og niðurgreiðslna húshitunar í dreifbýli hafa leitt til þess að notandinn hér að framan hefur ekki séð þá hækkun sem orðið hefur á gjaldskrám dreifiveitnanna, eins og nánar kemur fram á eftirfarandi mynd.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Þróun tekna dreifiveitu af heimilsnotanda í dreifbýli á veitusvæði RARIK: Miðað er við að almenn heimilisnotkun sé 4.500 kWh og 25.500 kWh fara til hitunar húsnæðisins sem gæti verið hæfilegt fyrir 140 fermetra einbýlishús (verðlag við lok árs 2016).

    Eftirfarandi tafla sýnir gjaldskrárhækkanir eftir gildistöku laga nr. 20/2015, bæði hjá dreifiveitum og orkusölufyrirtækjum. Jafnframt sýnir taflan aukningu á jöfnun dreifikostnaðar (dreifbýlisframlag) og aukningu á niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar frá 1. janúar 2015.

Dreifiveitur 1. jan. 2015 1. apr. 2015 1. jan. 2016 1. sept. 2016 Hækkun %
HS-veitur 4,92 4,92 5,08 5,08 3,3%
Norðurorka 4,56 4,56 4,56 4,56 0,0%
Orkubú Vestfjarðar þéttbýli 5,02 5,02 5,22 5,22 4,0%
Orkubú Vestfjarðar dreifbýli 8,70 8,70 9,40 9,4 8,0%
Veitur ohf. 5,66 5,66 5,79 5,79 2,3%
RARIK þéttbýli 4,91 4,91 4,91 4,91 0,0%
RARIK dreifbýli 8,58 8,58 9,28 9,28 8,2%
Rafveita Reyðarfjarðar 4,74 4,74 4,99 4,99 5,3%

Orkusalar 1. jan. 2015 1. apr. 2015 1. jan. 2016 1. sept. 2016 Hækkun %
HS-orka 5,23 5,23 5,72 5,72 9,4%
Fallorka 5,10 5,10 5,47 5,67 11,2%
Orkubú Vestfjarðar 4,98 4,98 5,20 5,48 10,0%
Orka Náttúru 5,24 5,33 5,48 5,67 8,2%
Orkusalan 5,35 5,33 5,64 5,73 7,1%
Rafveita Reyðarfjarðar 5,02 5,31 5,40 5,67 12,9%

Jöfnun dreifikostnaðar 1. jan. 2015 1. apr. 2015 1. apr. 2016 1. sept. 2016 Hækkun %
RARIK dreifbýli -1,44 -2,14 -1,73 -1,86 29,2%
Orkubú Vestfjarðar dreifbýli -1,55 -2,17 -2,07 -2,18 40,6%

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar 1. jan. 2015 1. apr. 2015 1. apr. 2016 1. sept. 2016 Hækkun %
HS-veitur -3,57 -3,94 -5,08 -5,08 42,3%
Norðurorka -3,33 -3,65 -4,56 -4,56 36,9%
Orkubú Vestfjarðar þéttbýli -3,61 -4,02 -5,22 -5,22 44,6%
Orkubú Vestfjarðar dreifbýli -4,95 -5,40 -7,33 -7,22 45,9%
Veitur ohf. -4,04 -4,53 -5,79 -5,79 43,3%
RARIK þéttbýli -3,65 -3,93 -4,91 -4,91 34,5%
RARIK dreifbýli -5,24 -5,40 -7,55 -7,42 41,6%
Rafv. Reyðarfjarðar -3,30 -3,62 -4,99 -4,99 51,2%

    Vísitala neysluverð hefur hækkað um 4,7% á tímabilinu 1. janúar 2015 til 1. september 2016 á meðan hækkanir dreifiveitna eru að meðaltali um 3,9% og hækkanir orkusölufyrirtækja 9,8%. Jöfnun dreifikostnaðar (dreifbýlisframlag) hefur hækkað að meðaltali um 35% frá 1. janúar 2015 og niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar hafa hækkað að meðaltali um 42,5%.

     3.      Hver hefðu áhrifin orðið af því að leggja jöfnunargjald vegna dreifingar raforku einnig á stórnotendur?
    Samkvæmt lögum nr. 20/2015 var markmiðið með jöfnunargjaldi raforku að standa straum af jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, þ.e. jafna kostnaðarmun í þéttbýli og dreifbýli. Samkvæmt lögunum greiða dreifiveitur jöfnunargjaldið af þeirri raforku sem fer um dreifiveitukerfi raforku. Það eru því viðskiptavinir dreifiveitna sem greiða jöfnunargjaldið. Markmið jöfnunargjaldsins var tilfærsla innan dreifiveitukerfisins, þ.e. gjaldið er lagt á notendur í þéttbýli til að niðurgreiða aukinn kostnað við dreifingu á raforku í dreifbýli. Hafði jöfnunargjaldið því í för með sér hækkanir á þéttbýlisgjaldskrám en lækkanir á dreifbýlisgjaldskrám.
    Heildarorkuöflun inn á dreifikerfi dreifiveitna er um 3.600 GWst, að meðtöldu orkutapi og skerðanlegri orku. Er þá átt við þá raforku sem fer inn á dreifikerfið frá Landsneti, ásamt orku frá virkjunum tengdum dreifikerfinu, að frádreginni þeirri raforku sem fer frá dreifikerfinu á Landsnetið. Til samanburðar er heildarraforkuframleiðsla í landinu um 18.000 GWst.
    Raforka til stórnotenda fer ekki um dreifiveitukerfi raforku heldur fær stóriðja raforkuna milliliðalaust beint frá flutningskerfinu. Stórnotendur eru því ekki viðskiptavinir dreifiveitufyrirtækja, heldur viðskiptavinir flutningsfyrirtækisins (Landsnets hf.). Þar af leiðandi var ekki gert ráð fyrir því með setningu laga nr. 20/2015 að jöfnunargjald væri lagt á raforku sem er fyrir utan dreifiveitukerfi raforku, þ.e. lagt á aðra en viðskiptavini dreifiveitna.

     4.      Hversu hátt þyrfti framlag ríkissjóðs til jöfnunar á orkukostnaði heimilanna að vera, miðað við orkunotkun 2016, til þess að fullur jöfnuður næðist meðal allra orkunotenda?
    Ýmis atriði þarf að hafa í huga þegar verið er að skoða jöfnun orkukostnaðar. Markmið með lögum nr. 20/2015 er að jafna kostnað notenda í dreifbýli til jafns við dýrasta þéttbýlið (þar sem gjaldskrár dreifiveitna eru mismunandi). Til þess er lagt á jöfnunargjald á alla orku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna sem er um 3.600 GWst sem skiptist í forgangsorku og skerðanlega orku. Forgangsorkan skiptist síðan á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Við ákvörðun á jöfnunargjaldinu var í upphafi stuðst við raforkuspá 2013–2050 sem gaf jöfnunargjald upp á 0,30 kr/kWst á forgangsorku og 0,10 kr/kWst á skerðanlega orku.
    Rauntölur fyrir árin 2013 til og með 2015 sýna hins vegar að orkudreifingin er minni en spáin sagði til um sem leiðir af sér minni tekjur af jöfnunargjaldinu. Sem stendur er í gangi vinna á vegum ráðuneytisins og Orkustofnunar við að endurreikna jöfnunargjaldið, og leggja mat á hækkunarþörf til að ná markmiðum laganna út frá rauntölum 2015 ásamt nýrri raforkuspá 2016–2050.
    Samhliða svari við fyrirspurn þessari hefur ráðuneytið birt á heimasíðu sinni skýrslu um þróun orkuverðs heimila við raforkuöflun, í dreifbýli og þéttbýli, sem unnin var af verkfræðistofunni EFLU fyrir ráðuneytið. Þar koma fram frekari dæmi og útskýringar á verðþróun síðustu ára að því er varðar orkukostnað heimila.