Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 383  —  91. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um íblöndunarefni í bifreiðaeldsneyti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggst ráðherra tryggja að alkóhól (metanól), framleitt af Carbon Recycling í Grindavík, geti nýst innan lands sem íblöndunarefni í bifreiðaeldsneyti í stað þess að efnið verði áfram flutt úr landi á sama tíma og erlent alkóhól er flutt inn í þessu skyni?

    Carbon Recycling International ehf. (CRI) hóf framleiðslu á metanóli úr endurnýjanlegri raforku og koltvísýringi frá orkuveri HS Orku í Svartsengi undir lok árs 2011. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er nú allt að 4.000 tonn á ári.
    Eldsneytisstaðlar og íslensk lög heimila allt að 3% íblöndun af metanóli í bensíni. Upphaflegar áætlanir CRI gerðu ráð fyrir að framleiðslugeta verksmiðjunnar nægði til þess að verksmiðjan gæti annað slíkri eftirspurn fyrir innanlandsmarkað.
    Evróputilskipun 2009/28/EB, um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, setur markmið um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2020. Liður í því að uppfylla þetta markmið var setning laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, sem lagði þær skyldur á söluaðila eldsneytis að 5% af orkugildi eldsneytis til bifreiða verði af endurnýjanlegum uppruna frá og með 2015. Þessi aðgerð var einnig sett fram í orkuskiptaáætlun sem þáverandi iðnaðarráðherra lagði fram á 140. löggjafarþingi í samræmi við ályktun Alþingis um orkuskipti í samgöngum sem lögð var fram á 139. löggjafarþingi 2010–2011. Við gerð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/2013 var horft til útfærslu söluskyldu eins og hún var framkvæmd í Noregi og öðrum Evrópuríkjum.
    Lögum samkvæmt hafa söluaðilar eldsneytis frjálst val um aðferðir og eldsneytistegundir til að uppfylla sett markmið. Einungis er krafa um að eldsneytið sé af endurnýjanlegum uppruna. Ekki er gerður greinarmunur á innfluttu eða innlendu eldsneyti, enda er eldsneytismarkaður á Íslandi hluti af sameiginlegum innri markaði Evrópu í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í upphafi starfsemi sinnar gerði CRI sölusamninga við tvö innlend olíufélög. Bensíni blönduðu metanóli frá CRI var dreift af dælu Olís til lokaðs hóps viðskiptavina veturinn 2010–2011 og síðar hóf N1 takmarkaða sölu á bensínblöndu með metanóli til almennings. Þessum tilraunum var hins vegar hætt. Innkoma CRI á íslenskan eldsneytismarkað hefur því reynst erfiðari en upphaflega var gert ráð fyrir. Bent hefur verið á að olíufélögin eru með sameiginlegt birgðahald í Örfirisey og eiga viðskipti við einn erlendan birgi.
    Áform um að metanól, framleitt á Íslandi, geti nýst innan lands sem íblöndunarefni í bifreiðaeldsneyti hafa því enn sem komið er ekki gengið sem skyldi.
    Stærstur hluti framleiðslu CRI á metanóli er til útflutnings. Á árunum 2012–2014 fór stærsti hlutinn til Hollands þar sem metanólinu er blandað í bensín, en undanfarið hefur mest öll framleiðsla CRI farið til Svíþjóðar þar sem metanólið er notað sem hráefni til estrunar á lífdísli úr repjuolíu.
    Innlendir notendur metanóls á Íslandi eru fyrst og fremst smærri framleiðendur á lífdísli úr ólíkum hráefnum, svo sem sláturúrgangi og steikingarfeiti, og kaupa þeir það metanól sem þeir þurfa nær eingöngu af CRI.
    Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Þar koma fram tillögur sem tryggja eiga að markmið um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi árið 2020, og 40% hlutdeild árið 2030, nái fram að ganga. Auk þess stendur yfir, á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, vinna við að endurskoða skattumhverfi eldsneytis og bifreiða. Í þessari vinnu allri verður unnið að því að auka hlutdeild innlends endurnýjanlegs eldsneytis, að teknu tilliti til þeirra skuldbindinga sem samningur um Evrópska efnahagssvæðið leggur á herðar stjórnvöldum.