Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 395  —  285. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um uppbyggingu leiguíbúða.


Flm.: Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson.


    Alþingi ályktar að ríkisstjórnin komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu þrjú ár þar á eftir.

Greinargerð.

    Aðkoma ríkisstjórnarinnar, samkvæmt þingsályktunartillögu þessari, skal vera á grundvelli laga um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Uppbyggingin er nauðsynleg til þess að mæta kröfum stéttarfélaga um aukinn félagslegan stöðugleika og koma ungu fólki og leigjendum í öruggt húsaskjól.
    Þeir sem ekki eiga eigið húsnæði búa við allt of þröngar aðstæður. Ef fólk á annað borð finnur leiguíbúð er verðið oft of mikil fyrirstaða. Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu fer hækkandi og hefur það hækkað um nærri 70% frá árinu 2011. Margir geta því hvorki keypt né leigt húsnæði.
    Ástandið á leigumarkaði hefur alvarlegar afleiðingar. Rannsóknir sýna að leigjendur eru mun líklegri til að eiga í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda eru líklegri en önnur til að búa við fátækt og skort.
    Fyrir tilstuðlan stéttarfélaga náðist mikilvægur árangur við gerð kjarasamninga árið 2015. Þá var samið um stofnstyrki til uppbyggingar á almennum leigumarkaði, að byggðar yrðu 2.300 íbúðir fyrir árið 2019. Það er algjör lágmarkskrafa að stjórnvöld standi við þau loforð en þau er ekki að finna í gildandi fjármálaáætlun áranna 2017–2021.
    Til að mæta eftirspurn eftir húsnæði þarf að byggja 8.000–10.000 íbúðir á landinu öllu fyrir árið 2019, ef marka má tölur frá greiningardeild Arion banka. Frekari hækkun á fasteignaverði er spáð sem mun auka enn á vandræði þeirra sem ekki eiga fasteignir.
    Það er nauðsynlegt að stjórnvöld komi að þeirri uppbyggingu sem er framundan og tryggi að sú uppbygging nýtist til að efla leigumarkaðinn. Stjórnvöld verða að tryggja að byggt verði húsnæði sem hentar barnafjölskyldum, ungu fólki og launafólki sem á ekki mikinn sparnað og hefur ekki notið góðs af hækkun húsnæðisverðs á liðnum árum.

Staðan á vinnumarkaði og aðkoma ríkisins að kjarasamningum.
    Á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar 22. febrúar kom fram hjá fulltrúum Alþýðusambands Íslands að fjármagn væri tryggt til að byggja 300 íbúðir í ár. Þá vantar fjármagn fyrir 300 íbúðir til viðbótar þannig að loforð við gerð kjarasamninga árið 2015 séu efnd. Ríkisstjórnin hefur brugðist við og félags- og jafnréttismálaráðherra hefur tilkynnt um tvöföldun á fjárframlögum fyrir árið 2017.
    600 íbúðir eru þó alls ekki nóg til að mæta erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði sem bitnar verst á þeim sem minnsta fjármuni eiga, þ.e. ungu fólki og leigjendum. Þess vegna er lagt til að þingið álykti að hafin verði bygging 1.000 almennra leiguíbúða á ári næstu fjögur ár, eða samtals 4.000 íbúðir.
    Stéttarfélög halda því fram að hér skorti félagslegan stöðugleika. Þess vegna kalla þau eftir skýrum yfirlýsingum um að staðið verði við loforð um uppbyggingu í húsnæðismálum, lægri greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu og lengra og betra fæðingarorlof. Alþingi verður að bregðast við þessum kröfum til að greiða fyrir sátt á vinnumarkaði og mæta brýnni uppsafnaðri þörf fyrir leiguhúsnæði.