Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 400  —  177. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneytinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Georgíu sem undirritaður var 27. júní 2016 í Bern í Sviss.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að fríverslunarsamningurinn við Georgíu kveður á um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Georgíu, falla niður frá gildistöku samningsins og sama á við um helstu landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings.
    Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri þriðju kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur ákvæði um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, rétt til stofnsetningar, verndun hugverkaréttar, opinber innkaup, viðskipti og sjálfbæra þróun, vinnuvernd og umhverfisvernd, auk hefðbundinna ákvæða um sameiginlega nefnd samningsaðila og lausn deilumála.
    Þá segir í greinargerð að útflutningur frá Íslandi til Georgíu hafi verið lítill í gegnum tíðina, en hann hafi þó aukist undanfarin ár og numið tæpum 300 millj. kr. á síðasta ári. Er þar nær einungis um að ræða útflutning á heilfrystum makríl. Innflutningur frá Georgíu hefur einnig verið lítill. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum milli landanna.
    Nefndin bendir á að í formálsorðum samningsins er áréttuð skuldbinding samningsríkjanna um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, meðal annars eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
    Þá skal bent á að sérstakur kafli í samningnum fjallar um viðskipti og sjálfbæra þróun eins og tíðkast hefur í nýlegum fríverslunarsamningum EFTA. Samningsaðilar viðurkenna að efnahagsleg þróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd séu sjálfstæðir þættir sem styðja með gagnkvæmum hætti við sjálfbæra þróun. Samningsaðilar árétta einnig skyldur sínar til að virða, efla og framkvæma þær meginreglur um grundvallarréttindi sem er að finna í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og í áréttingu hennar sem Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti árið 1998.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Teitur Björn Einarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. mars 2017.


Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Ásta Guðrún Helgadóttir.
Birgir Ármannsson. Bryndís Haraldsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.