Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 405  —  293. mál.
Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu.

Frá Hildi Knútsdóttur.


     1.      Hver er stefna ráðherra varðandi olíuleit á Drekasvæðinu og mögulega olíuvinnslu þar?
     2.      Telur ráðherra að olíuvinnsla í íslenskri lögsögu geti samræmst þeirri stefnu að Íslendingar verði forystuþjóð í loftslagsmálum og hvernig félli slík starfsemi að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lýst yfir að verði gerð?
     3.      Hafa áhrif stórfellds olíuleka frá borholu á Drekasvæðinu á lífríki hafs og stranda verið metin?
     4.      Hafa áhrif stórfellds olíuleka á Drekasvæðinu á afkomu og stöðu íslensks sjávarútvegs verið metin?
     5.      Hefur verið lagt mat á kostnað við að hefta olíuleka frá borholu á Drekasvæðinu og hreinsa olíu úr sjó og hver er þá kostnaðurinn?
     6.      Hafa þeir aðilar sem nú hafa sérleyfi til olíuleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu sýnt fram á að þeir hafi bolmagn til að standa straum af kostnaði við hreinsun eftir olíumengunarslys af þeirra völdum og hver væri staða þeirra mála við gjaldþrot umræddra fyrirtækja?
     7.      Hafa íslensk stjórnvöld gert áætlanir varðandi mögulega hættu á stórfelldri umhverfismengun frá starfsemi þeirra aðila sem hafa hlotið sérleyfi til olíuleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu og ef svo er, hvað fela þær í sér með tilliti til umfangs og kostnaðar?
     8.      Telur ráðherra að íslenska ríkinu sé skylt að framlengja sérleyfi nr. 2014/01 þegar það rennur út árið 2026?


Skriflegt svar óskast.