Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 423  —  310. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (skattfrádráttur vegna gjafa og framlaga).

Flm.: Teitur Björn Einarsson, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Óli Björn Kárason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.


1. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, enda sé hver gjöf ekki undir 50.000 kr. Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „0,75%“ í 2. tölul. 31. gr. laganna kemur: 1%.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að heimildir til skattfrádráttar vegna framlaga einstaklinga og fyrirtækja til almannaheillasamtaka verði rýmkaðar. Markmið þess er að efla starfsemi frjálsra félagasamtaka í landinu sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki, svo sem á sviði líknar- og hjálparmála, menningar, vísinda, slysavarna og íþrótta.
    Hvarvetna þykir ástæða til þess að styðja óeigingjarnt starf slíkra samtaka og í flestum samanburðarríkjum hvetja stjórnvöld bæði einstaklinga og fyrirtæki til þess að styrkja þau með margs konar skattaívilnunum. Viðurkennt er að frjáls félagasamtök, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, hafa mikilvægu hlutverki að gegna og að opinberir aðilar þyrftu sjálfir að sinna fleiri verkefnum ef frjáls félagasamtök væru ekki fær um að sinna þeim.
    Frjáls félagasamtök sem vinna að almannaheillum hafa lengi notið undanþága frá skattgreiðslum. Í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er mælt fyrir um að góðgerðarstarfsemi sé undanþegin skattskyldu, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til líknarmála. Í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að lögaðilar greiði ekki tekjuskatt ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, segir að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum.
    Skattundanþágur í þágu frjálsra félagasamtaka hér á landi virðast eigi að síður ganga styttra en í nágrannaríkjum. Samkvæmt íslenskum skattareglum hafa einstaklingar ekki heimild til að draga gjafir til félaga sem vinna að almannaheill frá skattskyldum tekjum sínum. Heimild til skattfrádráttar var þó eitt sinn mun rýmri hér á landi. Allt til ársins 1979 gátu gjafir bæði einstaklinga og fyrirtækja að ákveðnu marki komið til lækkunar á tekjuskatti þeirra. Gefendurnir gátu dregið þessar gjafir frá skattskyldum tekjum sínum og lækkað þannig skattstofn sinn. Í e-lið 12. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, var ákvæði um frádrátt frá skattskyldum tekjum þannig: „Einstakar gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknastofnana, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga, þó ekki yfir 10% af skattskyldum tekjum gefenda, enda sé hver gjöf ekki undir 300 kr. Fjármálaráðherra ákveður í reglugerð, hvaða málaflokkar og stofnanir komi til greina samkvæmt þessum staflið.“
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einstaklingum verði á ný heimilt að draga gjafir og framlög til almannaheillasamtaka frá skattskyldum tekjum sínum. Miðað er við sömu aðila og taldir eru upp í 2. tölul. 31. gr. laganna. Sem dæmi um aðila sem falla undir frumvarpsákvæðið má nefna björgunarsveitir og íþrótta- og æskulýðsfélög.
    Í lögum um tekjuskatt segir að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi megi draga einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,75% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent. Frádráttarákvæðið er afar mikilvægt til öflunar tekna þar sem það hvetur til gjafa. Til að auka við þann hvata er lagt til að hlutfallið 0,75% verði hækkað í 1%.
    Hlutfallið var hækkað úr 0,5% í 0,75% í ársbyrjun 2016 með lögum nr. 124/2015 að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra. Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála um frumvarp til þeirra laga (373. mál) kom fram að lækkun á tekjum ríkissjóðs vegna breytingarinnar yrði að öllum líkindum innan við 100 millj. kr. Með sama hætti má gera ráð fyrir að sú breyting sem ráðgerð er í 2. gr. frumvarpsins hefði óveruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs.
    Við skýringu á ákvæðum frumvarpsins er rétt að hafa til hliðsjónar reglugerð fjármálaráðherra nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 15.–18. gr. reglugerðarinnar og 2. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga.