Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 426  —  60. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um fasteignir Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco.

     1.      Hvaða fasteignir úr eigu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli gengu til íslenska ríkisins eftir að starfsemi varnarliðsins var lögð niður árið 2006?
    Við brottför varnarliðsins gengu allar fasteignir þess til íslenska ríkisins vegna samninga þar um á milli ríkjanna. Eignir á varnarsvæðinu sem voru á mannvirkjalista Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO) voru og eru áfram til reiðu vegna varnarhagsmuna í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.
    Við yfirtöku íslenska ríkisins á fyrrum varnarsvæðinu var því skipt í þrjú skilgreind svæði: Flugvallarsvæði (svæði A) er stærsti hluti flugverndarsvæðisins og landsvæði og byggingar sem nýttar eru til flugrekstrar. Svæðið er í umsjá Isavia. Öryggissvæði (svæði B) er sá hluti flugverndarsvæðisins sem nýttur er til varnarþarfa, svo sem reksturs ratsjárkerfa og loftrýmisgæslu. Starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (svæði C) er í grófum dráttum sá hluti fyrrum varnarsvæðisins sem er utan flugverndargirðingar.
    Á svæði C, sem er 59,7 km2 lands sem umlykur flugvöllinn, voru um 320 þús. m2 af húsnæði miðað við brúttóflatarmál, þar af um 210 þús. m2 af íbúðarhúsnæði og um 110 þús.  m2 af iðnaðar- og þjónustuhúsnæði. Þegar búið var að færa fasteignirnar til skráningar hjá Þjóðskrá Íslands voru birtir fermetrar um 280 þús. m2, þar af 160 þús. m2 af íbúðarhúsnæði en 120 þús. m2 af iðnaðar- og þjónustuhúsnæði. Heildarfjöldi íbúða var 2.000, þar af 950 hefðbundnar fjölskylduíbúðir og 1.050 einstaklingsíbúðir.

     2.      Hverjar þessara fasteigna hafa verið seldar og hvenær, hverjir voru kaupendur eignanna og hvert var söluverðið?
    Samkvæmt þjónustusamningi Þróunarfélagsins við fjármála- og efnahagsráðuneytið var það hlutverk félagsins að koma eignunum sem fyrst í borgaraleg not með sölu eða leigu þannig að jákvæð samfélagsleg áhrif yrðu sem mest og neikvæðum áhrifum á nærsamfélagið yrði haldið í lágmarki.
    Talsverð vinna lá til grundvallar því að koma eignunum á markað í upphafi. Þannig voru eignirnar t.d. ekki til í íslenskum fasteignaskrám og þær uppfylltu ekki að öllu leyti íslenska byggingastaðla auk ýmissa annarra atriða sem voru forsenda fyrir sölu á íslenskum fasteignamarkaði.
    Þótt markmið félagsins hafi verið að koma eignunum sem fyrst í borgaraleg not var ljóst að ef ekki væri rétt að málum staðið gæti sala svo mikils fjölda eigna haft í för með sér veruleg neikvæð áhrif á fasteignamarkað í nærumhverfi svæðisins.
    Fyrstu skref félagsins í sölumálum voru stigin þegar mikil eftirspurn var á fasteignamarkaði hér á landi. Á grundvelli auglýsinga þar sem sérstaklega var óskað eftir áhugasömum aðilum um þátttöku í uppbyggingu svæðisins voru fyrstu sölusamningarnir undirritaðir haustið 2007. Samningar um íbúðareignir sem seldar voru á árinu 2007 kváðu á um nýtingu fyrstu þrjú árin eftir sölu. Þannig var útleiga þeirra til að mynda skilyrt við útleigu til námsmanna.
    Í kjölfar fjármálaáfallsins dró hins vegar mjög úr sölu eigna á svæðinu. Markaður með eignir fór síðan hægt og rólega að taka við sér varðandi ákveðnar eignir á árinu 2013 og segja má að hann hafi ekki farið að fullu af stað á Suðurnesjum fyrr en seint á árinu 2015.
    Samkvæmt upplýsingum frá félaginu hafa um þessar mundir verið seldir um 264.000 m2 til 40 mismunandi aðila, þar af 44.500 m2 iðnaðarhúsnæðis, 61.386 m2 þjónustuhúsnæðis og 158.000 m2 íbúðarhúsnæðis sem skiptast í 934 fjölskylduíbúðir og 1.053 einstaklingsíbúðir. Jafnframt var veitukerfi svæðisins selt til Hitaveitu Suðurnesja fyrir 84 millj. kr. Þá tók Reykjanesbær við viðhaldi gatnakerfis svæðisins.
    Þær fasteignir sem voru í bestu ásigkomulagi og með bestan nýtingargrundvöll seldust fyrstar. Nú stefnir í að þegar allar eignir í umsýslu félagsins verða seldar muni heildarsöluverð nema um 18 milljörðum kr. á verðlagi hvers árs. Gera má ráð fyrir að kaupendur eignanna hafi til viðbótar þessari fjárhæð lagt enn hærri fjárhæð í endurbætur eigna til að gera þær nothæfar.
    Í fylgiskjali er listi yfir kaupendur einstakra eigna, söluverð og kaupdag.

     3.      Hvernig hefur verið staðið að verðmati og verðlagningu fasteignanna sem áður tilheyrðu varnarliðinu?
    Í upphafi var nokkuð vandasamt að meta verðmæti eignanna því miklu gat munað á metnu verðmæti þeirra eftir því hvort ætlunin var að selja allar eignir á skömmum tíma eða dreifa sölunni yfir lengri tíma. Sala eignanna á mjög skömmum tíma hefði getað leitt til mun lægra verðs á eignum í umsjá félagsins og að öllum líkindum valdið tímabundnum verðlækkunum á Suðurnesjum og jafnvel á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu var brugðið á það ráð að fá verðmöt frá löggiltum fasteignasölum byggð á verðum sambærilegra eigna í Reykjanesbæ. Samkvæmt sömu upplýsingum hefur félagið ávallt selt eignir í opnu söluferli og hafa allar eignir á svæðinu sætt mati löggiltra fasteignasala.

     4.      Hefur stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, fjallað um sölu fasteignanna?
    Það er stjórn félagsins sem samþykkir og eftir atvikum hafnar tilboðum sem berast í einstakar fasteignir. Allar fundargerðir stjórnar eru aðgengilegar á vefsíðu félagsins.

     5.      Hefur seljandi fengið kaupverð seldra fasteigna greitt að fullu? Ef ekki, hve miklar eru útistandandi skuldir?
    Samkvæmt upplýsingum frá félaginu hefur kaupverð verið greitt að fullu vegna allra seldra fasteigna í umráðum félagins, að undanskilinni einni fasteign. Útistandandi skuldir vegna hennar, um 23 millj. kr., eru ekki komnar á gjalddaga. Jafnframt hefur félagið stofnað til tveggja veðsamninga. Annars vegar er tryggingabréf að upphæð 2,4 milljarðar kr. sem útgefið var af Háskólavöllum ehf. við endurskipulagningu fjármála þess félags. Er það bréf í fullum skilum. Hinn veðsamningurinn er veðskuldabréf að upphæð 2,5 milljarðar kr. sem útgefið var af Ásbrú íbúðum ehf. og Ásbrú fasteignum ehf., við sölu eigna til þeirra félaga í desember síðastliðnum. Fyrsti gjalddagi á því bréfi er í lok nóvember næstkomandi.

     6.      Hvert varð tjón Kadeco vegna gjaldþrots Base ehf. árið 2010 sem keypt hafði fasteignir af félaginu?
    Samkvæmt upplýsingum frá félaginu varð ekkert fjártjón vegna gjaldþrots Base ehf. þar sem tryggingastaða seljanda vegna eftirstöðva söluverðs var góð. Þá hafa þær eignir sem teknar voru til baka við gjaldþrot, og þegar hafa verið seldar, skilað hærra verði en kröfunum nam.

     7.      Hvernig skiptist húsnæði í eigu Kadeco í atvinnuhúsnæði og iðnaðarhúsnæði miðað við fermetrafjölda?
    Vísað er til umfjöllunar í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     8.      Hver er meðalleiga á fermetra annars vegar atvinnuhúsnæðis og hins vegar iðnaðarhúsnæðis Kadeco árin 2012–2016?
    Samkvæmt upplýsingum frá félaginu tók leiguverð eðli máls samkvæmt mið af leigumarkaði á Suðurnesjum. Á þessu tímabili þróaðist leiguverð iðnaðarhúsnæðis á Ásbrú úr um 550 kr./ m2 og í 750 kr./ m2. Leiguverð annars atvinnuhúsnæðis fór úr 1.000 kr./ m2 og í 1.500 kr./ m2.

Fylgiskjal.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.