Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 441  —  241. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um rannsóknarleyfi Orkubús Vestfjarða.


     1.      Hvers vegna hafa öll rannsóknarleyfi vegna sex hugsanlegra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum verið veitt einkaaðilum en ekki Orkubúi Vestfjarða sem er eina orkufyrirtækið í almannaeigu á Vestfjörðum?
    Rannsóknarleyfi vegna nýtingu vatnsafls eru veitt af Orkustofnun á grundvelli laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Orkubú Vestfjarða starfar eins og önnur orkufyrirtæki á grundvelli raforkulaga, nr. 65/2003, þar sem kveðið er á um að samkeppni skuli gilda á raforkumarkaði, þ.e. að því er varðar framleiðslu og sölu á raforku. Orkubú Vestfjarða nýtur ekki samkvæmt lögum forgangs til rannsóknar- eða virkjunarleyfa á Vestfjörðum. Um slík leyfi gilda almenn lög, sbr. framangreint, auk þess sem 11. gr. stjórnsýslulaga kveður á um að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta jafnræðis í lagalegu tilliti.
    Samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/1998 felur rannsóknarleyfi í sér heimild til þess að leita að viðkomandi auðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum, rannsaka umfang, magn og afkastagetu hennar og fylgja að öðru leyti þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögunum og Orkustofnun telur nauðsynlega. Rannsóknarleyfi felur ekki í sér heimild til virkjunar eða annarrar auðlindanýtingar.

     2.      Hafa Orkubúi Vestfjarða verið veitt einhver rannsóknarleyfi og ef svo er, hvar og hversu stórir eru þeir virkjunarkostir sem leyfin lúta að miðað við uppsett afl virkjunar?
    Orkustofnun hefur veitt Orkubúi Vestfjarða eftirfarandi rannsóknarleyfi undanfarin tvö ár:
     *      Rannsóknarleyfi vegna áætlana um 6,8 MW virkjun í Mjólká (Mjólká VI – virkjun vatna á aðrennslissvæði Skötufjarðar til Mjólkár), dags. 29. ágúst 2016.
     *      Rannsóknarleyfi vegna áætlana um 20 MW Glámuvirkjun á vatnasviði í Kjálkafirði, Vattarfirði og Ísafirði, dags. 29. ágúst 2016.
     *      Rannsóknarleyfi með landeiganda vegna áætlana um virkjun Hafnardalsár á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp í Strandabyggð, dags. 15. ágúst 2015.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til þess að almenningsfyrirtækið Orkubú Vestfjarða hafi orðið svo afskipt, hvað telur ráðherra að skýri þessa stöðu og er áformað að bregðast við henni?
    Með vísan til framangreinds er það mat ráðherra að ekki sé unnt að líta svo á að Orkubú Vestfjarða hafi orðið afskipt að því er veitingu rannsókna- eða virkjunarleyfa varðar. Orkubú Vestfjarða starfar á samkeppnismarkaði raforkuframleiðslu, eins og önnur orkufyrirtæki, og nýtur sama réttar og önnur fyrirtæki á grundvelli raforkulaga, nr. 65/2003, og auðlindalaga, nr. 57/1998. Ekki er kunnugt um að Orkubúi Vestfjarða hafi verið neitað um veitingu rannsóknarleyfis.