Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 443  —  324. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2016.

1. Inngangur.
    Aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa að málefnum norðurslóða var efst á baugi á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2016. Þemaráðstefna ráðsins var haldin í janúarlok í Grindavík og bar titilinn „Lýðræði á norðurslóðum“. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar voru möguleikar þingmanna til að hafa aukin áhrif á málefni norðurslóða, bæði innan þjóðþinga, gagnvart framkvæmdarvaldinu og á alþjóðlegum vettvangi. Samhliða þemaráðstefnu hélt Vestnorræna ráðið aukaársfund og þingmannanefnd um Hoyvíkursamninginn, fríverslunarsamning Íslands og Færeyja, fundaði. Á aukaársfundi samþykkti ráðið að taka boði Hringborðs norðurslóða um formlegt samstarf við Vestnorræna ráðið. Samkomulagið felur í sér að Vestnorræna ráðið taki þátt í ársþingi Hringborðs norðurslóða auk annarra funda, ráðstefna og þinga sem haldin verða á Íslandi og í öðrum löndum. Ráðið getur jafnframt lagt fram hugmyndir og tillögur um málstofur og skipulagt verkefni milli ársþinga, t.d. samstarfsráð og nefndir. Aukaársfundur samþykkti jafnframt ályktun um að óska eftir stuðningi ríkisstjórnar Íslands, landsstjórnar Færeyja og landsstjórnar Grænlands við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Umsóknin var tekin fyrir á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins 24. apríl 2015 en þar var ákveðið að fresta ákvörðun um allar umsóknir um áheyrnaraðild til næsta ráðherrafundar í Bandaríkjunum vorið 2017. Umsókn Vestnorræna ráðsins er því enn í ferli og þýðingarmikið að fylgja henni eftir fram til næsta ráðherrafundar. Mikilvægur liður í því er að þjóðþingin þrjú og stjórnvöld landanna vinni á áhrifaríkan hátt að því að umsóknin verði samþykkt. Umsóknin byggist ekki síst á mikilvægi þess að þjóðkjörnir þingmenn norðurslóða hafi möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanatöku sem snertir réttindi og hagsmuni íbúa vestnorræna svæðisins. Áheyrnaraðildin væri liður í að styrkja samstarf landanna um málefni norðurslóða og treysta stöðu Vestnorræna ráðsins gagnvart alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins. Á fundi þingmannanefndar um Hoyvíkursamninginn óskaði nefndin eftir því við utanríkisráðuneyti Íslands og Færeyja að þau ynnu sameiginlega skriflegt mat á 10 ára samstarfi landanna undir Hoyvíkursamningnum fyrir árslok 2016. Einnig óskaði nefndin eftir því við ráðuneytin að þau skilgreindu betur hlutverk þingmannanefndarinnar.
    Á ársfundi ráðsins í Qaqortoq í ágúst voru samþykktar tvær ályktanir sem verða lagðar fram á þjóðþingum landanna þriggja til umfjöllunar og samþykktar á árinu 2017. Sú fyrri beinir því til stjórnvalda landanna að vinna að greiningu á fýsileika þess að setja á fót vestnorræna eftirskóla (d. efterskole). Skólarnir væru ætlaðir fyrir 14–17 ára ungmenni frá vestnorrænu löndunum þremur og hefðu það markmið að skapa tengsl á milli ungmennanna og auka þekkingu þeirra á menningu og tungu hverra annarra. Síðari ályktunin beinir því til stjórnvalda að standa fyrir sameiginlegri ráðstefnu um stöðu vestnorrænu landanna í nýjum landfræðipólitískum veruleika. Ársfundur sendi einnig frá sér yfirlýsingu sem hvetur stjórnvöld á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi til að vinna sameiginlega að rannsókn á umfangi plasts í Norður-Atlantshafi og ekki síst áhrif þess á lífríki hafsins. Stjórnvöld landanna þriggja eru einnig hvött til þess að vinna saman að því að draga úr notkun á plasti og örplasti á vestnorræna svæðinu og stefna að allsherjarbanni á notkun örplasts. Á ársfundinum ákvað ráðið jafnframt að stofna sérstaka nefnd um málefni norðurslóða, skipaða einum þingmanni úr hverri landsdeild til setu í tvö ár í senn. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast náið með málefnum norðurslóða, taka þátt í alþjóðlegum viðburðum, vera forsætisnefnd til halds og trausts í málaflokknum, tryggja sýnileika hans í þjóðþingum landanna og styrkja stöðu Vestnorræna ráðsins á svæðinu. Gert er ráð fyrir að nefndin taki þátt í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða árlega ásamt því að funda samhliða þemaráðstefnu og ársfundi ráðsins.
    Vestnorræna ráðið stóð fyrir málstofu um stefnumótun á norðurslóðum á Hringborði norðurslóða í Hörpu í október 2016 ásamt því að standa að hádegisfundi þingmannanets um málefni norðurslóða samhliða ráðstefnunni. Forsætisnefnd ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, átti sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Nuuk í september. Bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum, áhrif örplasts á lífríki hafsins og málefni norðurslóða voru helst til umræðu. Þá tók fyrsti varaformaður ráðsins þátt í 68. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í október þar sem hann fundaði með samstarfsráðherrum Vestur-Norðurlanda. Til umræðu á fundunum voru m.a. málefni norðurslóða, menntamál, áhrif örplasts á lífríki hafsins og þróun heimsmálanna.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafni þess breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til ársfundar í ágúst eða byrjun september og til þemaráðstefnu í janúar. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru lögð fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Samþykki þingið ályktanirnar er þeim beint til viðeigandi ráðuneyta sem bera ábyrgð á að hrinda ályktunum í framkvæmd. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, menningar- og menntamál, heilbrigðismál, samgöngur og innviði og málefni norðurslóða.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda og árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Síðarnefndi samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt á fundum hvors annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og sótti um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu árið 2014. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða árið 2016.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Á árinu 2016 voru aðalmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Páll Jóhann Pálsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Páll Valur Björnsson, þingflokki Bjartrar framtíðar, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Þórunn Egilsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Haraldur Einarsson, þingflokki Framsóknarflokks, Svandís Svavarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Óttarr Proppé, þingflokki Bjartrar framtíðar, Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Vilborg Ása Guðjónsdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Unnur Brá Konráðsdóttir, tók þátt í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Nuuk í maí. Í ávarpi sínu lagði Unnur Brá sérstaka áherslu á skyldu þjóðkjörinna fulltrúa norðurslóðaríkja til að vernda réttindi íbúa svæðisins. Alþjóðastofnanir, fyrirtæki og embættismenn ættu ekki ein að leiða veginn, heldur þjóðkjörnir fulltrúar svæðisins. Til viðbótar við að skiptast á skoðunum og vitneskju um málefni svæðisins gætu þingmenn haft beint áhrif á ákvarðanatöku framkvæmdarvaldsins um málefni norðurslóða, eins og starf Vestnorræna ráðsins sannaði. Mikill lýðræðishalli væri við ákvarðanatöku á norðurslóðum. Eitt dæmi um slíkt væri að af 32 áheyrnaraðilum Norðurskautsráðsins væru aðeins ein þingmannasamtök. Vestnorræna ráðið hefði sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu í viðleitni til að draga úr þessum lýðræðishalla. Ráðið hefði enn fremur nýlega stofnað þingmannanet um málefni norðurslóða (e. Arctic Parliamentary Network) í samstarfi við Hringborð norðurslóða til að auka samstarf þjóðkjörinna fulltrúa um málefni norðurslóða og hvetja þá til að beita sér fyrir aukinni umræðu um hið mikilvæga hlutverk þjóðþinga og annarra lýðræðislega kjörinna vettvanga þegar kemur að stefnumótun á svæðinu. Stefnt væri að því að netið hittist tvisvar til þrisvar á ári samhliða ráðstefnum Hringborðs norðurslóða. Ráðið stóð fyrir einum slíkum fundi á ráðstefnunni í Nuuk þar sem saman komu lýðræðislega kjörnir fulltrúar Færeyja, Grænlands, Quebec og Nunavut í Kanada og Samaráðsins (e. Saami Council).
    Unnur Brá tók jafnframt þátt í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Reykjavík í október, ásamt varaformanni Íslandsdeildar, Páli Jóhanni Pálssyni. Á ráðstefnunni stóð Vestnorræna ráðið fyrir málstofu um stefnumótun á norðurslóðum (e. Policy making in the Arctic) ásamt því að standa fyrir hádegisfundi þingmannanets um norðurslóðir. Þá var Unnur Brá fundarstjóri málstofu um andlegt heilbrigði á norðurslóðum. Fyrirlesarar á málstofu Vestnorræna ráðsins um stefnumótun á norðurslóðum voru Unnur Brá Konráðsdóttir, Dr. Dalee Sambo Dorough, lektor við Alaska-háskóla í Bandaríkjunum og Dr. Chandrika Nath, starfandi forstöðumaður rannsóknaþjónustu breska þingsins. Í erindi sínu lagði Unnur Brá sérstaka áherslu á hvernig þingmenn geta haft áhrif á stefnu ríkja sinna á norðurslóðum, bæði utan og innan alþjóðlegra þingmannasamtaka eins og Vestnorræna ráðsins, og eins á alþjóðavettvangi. Hún sagði frá möguleikum þingmanna Vestnorræna ráðsins til áhrifa en benti jafnframt á að einstaka þingmenn utan alþjóðlegra þingmannasamtaka gætu einnig haft áhrif á stefnumótun um málefni svæðisins. Þeir gætu til að mynda vakið athygli á ákveðnum hagsmunamálum í umræðum í þingsal og sent fyrirspurnir til og haft regluleg skoðanaskipti við viðeigandi ráðherra. Þingmenn hefðu einnig tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun á norðurslóðum með virkri þátttöku í alþjóðlegum viðburðum um málaflokkinn, líkt og Hringborði norðurslóða. Það hefði Vestnorræna ráðið gert með góðum árangri frá árinu 2014.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2016.
    Þemaráðstefna ársins var haldin í Grindavík í lok janúar og ársfundurinn í Qaqortoq á Grænlandi í lok ágúst. Forsætisnefnd ráðsins kom fjórum sinnum saman á árinu auk þess sem nefndin átti fund með Evrópuþinginu í Nuuk í september. Þá átti fyrsti varaformaður ráðsins fund með samstarfsráðherrum Vestur-Norðurlanda í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn mánaðamótin október/nóvember og meðlimir forsætisnefndar sóttu jafnframt ráðstefnur Hringborðs norðurslóða í Nuuk í maí og Reykjavík í október.

Þemaráðstefna í Grindavík 30. –31. janúar 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, Páll Jóhann Pálsson, varaformaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Páll Valur Björnsson, Oddný G. Harðardóttir og Haraldur Einarsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Fjöldi sérfræðinga á sviði alþjóðastjórnmála og -laga tók þátt í ráðstefnunni ásamt Doris Jakobsen, ráðherra heilbrigðismála og norræns samstarfs í landsstjórn Grænlands, Henrik Old, samgönguráðherra Færeyja, og Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar voru möguleikar þingmanna til að hafa aukin áhrif á málefni norðurslóða, bæði innan þjóðþinga, gagnvart framkvæmdarvaldinu og alþjóðlega. Samhliða þemaráðstefnu hélt Vestnorræna ráðið aukaársfund og þingmannanefnd um Hoyvíkursamninginn fundaði.
    Þemaráðstefnunni var skipt í fjóra meginhluta. Í fyrsta hlutanum var markmiðið að auka skilning þingmanna á mikilvægi þess að þeir beiti sér í auknum mæli á sviði utanríkismála, m.a. þegar kemur að málefnum norðurslóða, ásamt því að auka þekkingu á því hvernig stjórnmál og löggjöf hefur áhrif á mannréttindi fólksins á svæðinu, þar á meðal frumbyggja. Zlatko Sabic, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Ljubljana-háskóla í Slóveníu,fjallaði um hlutverk þjóðþinga við mótun utanríkisstefna út frá sjónarhorni alþjóðlegs þingmannasamstarfs og hagsmuna ríkja. Dalee Sambo Dorough, lektor við Alaska-háskóla í Anchorage og stjórnarmaður í fastaráði Sameinuðu þjóðanna um málefni frumbyggja, fjallaði um meginreglur um góða stjórnunarhætti á norðurslóðum í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja.
    Í öðrum hluta ráðstefnunnar var markmiðið að auka þekkingu þingmanna á málefnum norðurslóða almennt, hvernig ákvarðanir eru teknar á vettvangi alþjóðastofnana og -samtaka á svæðinu og samspil mismunandi þátta í því sambandi. Magnús Jóhannesson, framkvæmdastjóri Norðurskautsráðsins, fjallaði um uppbyggingu, starfsreglur og forgangsröðun Norðurskautsráðsins. Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í málefnum norðurslóða, fjallaði um hlutverk fulltrúa aðildarríkja Norðurskautsráðsins í embættismannanefnd ráðsins, sem hann situr í fyrir hönd Íslands, og möguleika til áhrifa innan ráðsins. Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, ræddi um stjórnunarhætti á norðurslóðum með áherslu á það stigveldi sem er ríkjandi innan Norðurskautsráðsins. Aqqaluk Lynge, stjórnarmaður í Samtökum inúíta á norðurslóðum (ICC), Grænlandsdeild, fjallaði um þátttöku og reynslu ICC af starfi Norðurskautsráðsins.
    Í umræðum voru þingmenn hvattir til að veita almenningi meiri upplýsingar um þátttöku sína í alþjóðastarfi og gildi hennar. Gagnsæi væri lykilatriði í þessu sambandi. Þingmenn væru ekki háðir framkvæmdarvaldinu í utanríkismálum, það væri margt sem þeir gætu gert. Rætt var um mikilvægi og gildi þess að stjórnmálaflokkar og þjóðþing hefðu innan borðs og styddu þingmenn sem legðu sérstaklega mikla áherslu á alþjóðastarf, ekki þyrfti stóran hluta þingmanna til, mikilvægara væri að þingmennirnir sem um ræðir hefðu mikla þekkingu á málaflokknum og nýttu tíma sinn erlendis til hins ýtrasta við að mynda tengsl, auka þekkingu sína og miðla, og taka þátt í umræðum. Komist var að þeirri niðurstöðu að það væri stjórnvöldum mjög í hag að hafa þingmenn sem mest með í ráðum í ákvörðunum sínum og stefnumótun á sviði utanríkismála. Loks var sú hugmynd viðruð að þjóðþing stofnuðu sérstakar nefndir um málefni norðurslóða.
    Í þriðja hluta ráðstefnunnar var markmiðið að auka skilning á mismunandi aðstæðum þingmanna á Íslandi annars vegar og Grænlandi og Færeyjum hins vegar, þegar kemur að möguleikanum á að hafa áhrif á ákvarðanatöku framkvæmdarvaldsins um utanríkismál. Vilborg Ása Guðjónsdóttir, sérfræðingur í alþjóðadeild Alþingis, fjallaði um aðkomu Alþingis að utanríkismálum, Tina Naamansen, ritari Grænlandsdeildar Vestnorræna ráðsins, um aðkomu Grænlandsþings í þessu sambandi, og Jørgen Niclasen, þingmaður landsdeildar Færeyja í Vestnorræna ráðinu, um aðkomu færeyska þingsins.
    Í fjórða hluta ráðstefnunnar var markmiðið að skoða möguleika vestnorrænna þingmanna til aukinna áhrifa á málefni norðurslóða, með tilliti til mismunandi stöðu landanna þriggja, Íslands sem sjálfstæðs ríkis og sjálfsstjórnarlandanna Færeyja og Grænlands. Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, fjallaði um lagalegan grundvöll Vestur-Norðurlanda fyrir sameiginlegri stefnu um málefni norðurslóða og Anna Sofie Lava, MA í opinberri stjórnsýslu, ræddi um samvinnu um utanríkismál innan Vestnorræna ráðsins og áhrif Færeyja á málefni norðurslóða í gegnum vestnorræna samvinnu.
    Á aukaársfundi Vestnorræna ráðsins var samþykkt að taka boði Arctic Circle um formlegt samstarf við Vestnorræna ráðið. Samkomulagið felur í sér að Vestnorræna ráðið taki þátt í ársþingi Arctic Circle auk annarra funda, ráðstefna og þinga sem haldin verða á Íslandi og í öðrum löndum. Ráðið getur jafnframt lagt fram hugmyndir og tillögur um málstofur og skipulagt verkefni milli ársþinga, t.d. samstarfsráð og nefndir. Lars Emil Johansen, forseti ráðsins, og Sigríður Huld Blöndal, framkvæmdastjóri Arctic Circle, skrifuðu undir samkomulagið á þemaráðstefnunni. Af því tilefni sendi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Vestnorræna ráðinu ávarp sem Sigríður Huld Blöndal flutti fyrir hönd forsetans. Í því bendir Ólafur á mikilvægi þess að styrkja aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa að málefnum norðurslóða. Vestnorræna ráðið geti verið bæði öflugur samstarfsaðili og fyrirmynd við að nýta þá möguleika sem aukin þýðing norðurslóða felur í sér. Loks sagði hann frá þeirri hugmynd Arctic Circle að halda norðurslóðaráðstefnur árlega til skiptis á Grænlandi og í Færeyjum.
         Ársfundur samþykkti jafnframt ályktun um að óska eftir stuðningi ríkisstjórnar Íslands, landsstjórnar Færeyja og landsstjórnar Grænlands við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Umsóknin var tekin fyrir á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins 24. apríl 2015 en þar var ákveðið að fresta ákvörðun um allar umsóknir um áheyrnaraðild til næsta ráðherrafundar í Bandaríkjunum vorið 2017. Umsókn Vestnorræna ráðsins er því enn í ferli og þýðingarmikið að fylgja henni eftir fram til næsta ráðherrafundar. Mikilvægur liður í því er að þjóðþingin þrjú og stjórnvöld landanna vinni á áhrifaríkan hátt að því að umsóknin verði samþykkt. Umsóknin byggist ekki síst á mikilvægi þess að þjóðkjörnir þingmenn norðurslóða geti haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir réttindi og hagsmuni íbúa vestnorræna svæðisins. Áheyrnaraðildin væri liður í að styrkja samstarf landanna um málefni norðurslóða og treysta stöðu Vestnorræna ráðsins gagnvart alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins. Loks samþykkti ársfundur að styðja tillögu Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra um að halda vestnorræna kvennaráðstefnu á Íslandi á árinu 2016.
    Í ávarpi sínu sagði Henrik Old, samgönguráðherra Færeyja, Færeyinga hafa mikinn áhuga á frekari vitneskju um tækifæri á norðurslóðum. Hann sagðist efast um hugmyndir um stórar hafnir í Færeyjum og eins um að bora eftir olíu á norðuslóðum. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði mikla möguleika fólgna í auknu vestnorrænu samstarfi og að Ísland hefði ekki síst áhuga á auknu samstarfi á sviði sjávarútvegs. Doris Jakobsen, ráðherra heilbrigðismála og norræns samstarfs í grænlensku landsstjórninni, sagði frá nýjustu þróun í atvinnulífi Grænlands. Hún sagði ályktanir Vestnorræna ráðsins þjóna vel hagsmunum Grænlands, til að mynda ályktanir um sjávarútveg, innviði og fríverslun frá árinu 2015.
    Á fundi þingmannanefndar um Hoyvíkursamninginn tók Unnur Brá Konráðsdóttir við formennsku nefndarinnar. Á fundinum óskaði þingmannanefndin eftir því við utanríkisráðuneyti landanna tveggja að þau ynnu sameiginlega skriflegt mat á 10 ára samstarfi landanna undir Hoyvíkursamningnum fyrir árslok 2016. Einnig óskaði nefndin eftir því við ráðuneytin að þau skilgreindu betur hlutverk þingmannanefndarinnar. Fulltrúi utanríkisráðuneytis Íslands upplýsti nefndina um starf embættismannanefndar um Hoyvíkursamninginn á árinu 2015 og það sem framundan er á árinu 2016, þar á meðal hvað varðar undirbúning viðskiptaráðstefnu í tilefni af 10 ára afmæli samningsins.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 17. maí 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sótti fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru ársfundur ráðsins í Qaqortoq á Grænlandi í ágúst 2016, sameiginleg ráðstefna með Norðurlandaráði samhliða ársfundi, þátttaka í Hringborði norðurslóða (e. Arctic Circle) í Nuuk samhliða forsætisnefndarfundi og á þingi Hringborðs norðurslóða í Reykjavík í október 2016, ásamt umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
    Farið var yfir drög að dagskrá ársfundar ráðsins og sameiginlegrar ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs á Grænlandi 21. –24. ágúst 2016. Uppfærð umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu var samþykkt. Ráðið sótti um áheyrnaraðild 27. ágúst 2014 og umsóknin var tekin fyrir á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Iqaluit í Kanada 24. apríl 2015. Þar var ákveðið að fresta ákvörðun um allar umsóknir um áheyrnaraðild til næsta ráðherrafundar ráðsins í Fairbanks í Bandaríkjunum vorið 2017. Umsókn Vestnorræna ráðsins er því enn í ferli og þýðingarmikið að fylgja henni eftir fram til næsta ráðherrafundar. Tilkynnt var um stofnun vestnorræns ungmennaráðs í Reykjavík 12. október 2016. Þá var rætt um útgáfu stafræns fréttabréfs Vestnorræna ráðsins sem ráðgert er að komi framvegis út tvisvar á ári, í apríl og nóvember. Markmiðið er að gefa áhugasömum betri innsýn í starf ráðsins.

Ársfundur í Qaqortoq á Grænlandi 21.–24. ágúst 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Páll Jóhann Pálsson, varaformaður, Páll Valur Björnsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Katrín Júlíusdóttir, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Helsta mál á dagskrá var starf ráðsins að málefnum norðurslóða, þar á meðal staða áheyrnarumsóknar ráðsins að Norðurskautsráðinu og þátttaka í ráðstefnum Hringborðs norðurslóða. Því til viðbótar voru heilbrigðismál, sjávarútvegsmál, menntamál og ferðaþjónustumál m.a. til umræðu. Samhliða ársfundi stóðu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð fyrir borgarafundi og ráðstefnu um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum, í samstarfi við norrænu rannsóknarstofnunina Nordregio.
    Ársfundur samþykkti tvær ályktanir sem verða sendar áfram til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar og samþykktar. Sú fyrri beinir því til stjórnvalda landanna að vinna að greiningu á fýsileika þess að setja á fót vestnorræna eftirskóla (d. efterskole). Skólarnir væru ætlaðir fyrir 14–17 ára ungmenni frá vestnorrænu löndunum þremur og hefðu það markmið að skapa tengsl á milli ungmennanna og auka þekkingu þeirra á menningu og tungu hverra annarra. Við greininguna mætti líta til reynslu Grænlands og Færeyja af slíkum eftirskólum, bæði í Danmörku og á Grænlandi. Síðari ályktunin beinir því til stjórnvalda landanna að standa fyrir sameiginlegri ráðstefnu um stöðu vestnorrænu landanna í nýjum landfræðipólitískum veruleika. Aukin spenna í samskiptum Rússlands og Vesturlanda, flæði flóttamanna frá Miðausturlöndum og Afríku til Evrópu og aukinn áhugi Kína á vestnorrænu löndunum í tengslum við málefni norðurslóða hafi bein áhrif á stöðu Vestur-Norðurlanda. Löndin þrjú séu öll herlaus aðildarlönd Atlantshafsbandalagsins og t.d. sé vel hugsanlegt að bandalagið vilji auka starfsemi sína á svæðinu á ný í ljósi breyttrar heimsmyndar. Mikilvægt sé að stjórnvöld landanna þriggja ræði áhrif þessara breytinga og vinni saman að því að takast á við þær.
    Í yfirlýsingu ársfundar hvatti ráðið stjórnvöld á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi til að vinna sameiginlega að rannsókn á umfangi plasts í Norður-Atlantshafi og ekki síst áhrifum þess á lífríki hafsins. Stjórnvöld landanna þriggja eru jafnframt hvött til þess að vinna saman að því að draga úr notkun á plasti og örplasti á vestnorræna svæðinu og stefna að allsherjarbanni á notkun örplasts. Jafnframt eru stjórnvöld hvött til að vekja upp umræðu um skaðsemi örplasts alþjóðlega og hvetja önnur lönd til að banna notkun þess. Ráðið fagnaði einnig yfirlýsingu utanríkisráðherra landanna þriggja frá 22. ágúst 2016 um að kannaðir yrðu kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Yfirlýsing ráðherranna er í samræmi við ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2015 og ráðið fagnar því að málið sé loksins komið í réttan farveg hjá stjórnvöldum landanna þriggja. Einnig óskaði ráðið eftir því að áætlaður árlegur fundur utanríkisráðherranna færi fram samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins.
    Á fundinum ákvað ráðið að stofna sérstaka nefnd um málefni norðurslóða, skipuð einum þingmanni úr hverri landsdeild til tveggja ára í senn. Páll Jóhann Pálsson var skipaður fulltrúi Íslandsdeildar, Múte Bourup Egede fulltrúi Grænlandsdeildar og Bjørt Samuelsen fulltrúi landsdeildar Færeyja. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast náið með málefnum norðurslóða, taka þátt í alþjóðlegum viðburðum, vera forsætisnefnd til halds og trausts í málaflokknum, tryggja sýnileika hans í þjóðþingum landanna og styrkja stöðu Vestnorræna ráðsins á svæðinu. Gert er ráð fyrir að nefndin taki þátt í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða árlega ásamt því að funda samhliða þemaráðstefnu og ársfundi ráðsins.
    Fjallað var um þátttöku Vestnorræna ráðsins í Hringborði norðurslóða í október 2016 sem var í fullum undirbúningi. Um svokallað „break-out session“ er að ræða og efni fundarins verður stefnumótun á norðurslóðum (e. Policy-making in the Arctic). Á málstofunni verður rætt um mikilvægi þess að þjóðþing og kjörnir fulltrúar vinni að því að hafa áhrif á stefnumótun um málefni norðurslóða og hvernig alþjóðlegt þingmannasamstarf geti gert slíkt hið sama. Einnig verður fjallað um leiðir fyrir Vestnorræna ráðið til að styrkja umsókn sína um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og um þörfina fyrir samstarfsneti þingmanna á norðurslóðum.
    Samþykkt var að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði í Þórshöfn 24. –26. janúar 2017 og að þemaefnið yrði kynbundnar áskoranir með sérstaka áherslu á málefni karlmanna. Fjallað yrði sérstaklega um aðlögunar- og hegðunarvandamál stráka í skóla og stutta skólagöngu þeirra, réttarstöðu feðra í forsjármálum, sjálfsvígstíðni, áfengisvandamál og lífslíkur karla.
    Ársfundinn ávörpuðu einnig fulltrúar samstarfsaðila Vestnorræna ráðsins, þ.e. Norðurlandaráðs, norska Stórþingsins, Vestnorræna sjóðsins, Norræna Atlantssamstarfsins og Hringborðs norðurslóða, ásamt samstarfsráðherra Norðurlandanna fyrir Grænlands hönd, Doris Jakobsen. Doris fjallaði um hvernig grænlenskum stjórnvöldum miðar við það að uppfylla ályktanir Vestnorræna ráðsins. Hún sagðist vonast til að Grænland gæti gert svipaðan samning við Landspítalann um meðferð við brjóstakrabbameini og Færeyjar hefðu gert. Tungumálið væri ein áskorun við viðleitni til að auka norrænt samstarf á sviði heilbrigðismála, til að starfa á sjúkrahúsum á Grænlandi þyrfti viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður að tala dönsku eða skandinavísku. Von væri á nýjum samningi á næsta ári sem mundi gera hjúkrunarfræðingum kleift að starfa hvar sem er á Norðurlöndunum. Loks hvatti Doris Vestnorræna ráðið til að nýta meira rétt sinn til að leggja fram tillögur á vettvangi Norðurlandaráðs.
    Loks samþykkti ráðið, að frumkvæði Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, stuðningsyfirlýsingu við regnhlífasamtökin Systur, samnorrænan vettvang fyrir sjálfbæra og umhverfistæka framleiðslu á garni úr ull af upprunalegu norrænu fjárkyni með sérstaka áherslu á norræna stuttrófuféð.
    Í lok ársfundar var Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Íslandsdeildar, kjörin formaður ráðsins fram að næsta ársfundi. Í ræðu sinni lagði Unnur Brá áherslu á mikilvægi þess að Vestnorræna ráðið héldi áfram að vinna að nánara samstarfi vestnorrænu landanna um málefni norðurslóða, þar á meðal á vettvangi Hringborðs norðurslóða og með því að tryggja að umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu yrði samþykkt.
    Í kjölfar ársfundar fór fram sameiginlegur borgarafundur og í framhaldinu ráðstefna Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs um svæðisbundna sjálfbæra þróun í þeim Norðurlöndum sem tilheyra norðurslóðum. Fulltrúar rannsóknastofnunarinnar Nordregio leiddu ráðstefnuna en stofnunin hefur rannsakað málefnið síðastliðin þrjú ár. Rannsókninni var m.a. beint að sjónarmiðum íbúa norðurslóða og tillögum þeirra um framtíðarþróun svæðisins. Helstu áherslur borgaranna voru á samgöngur og innviði, atvinnu- og menntunarmöguleika og félags- og menningarlíf. Einnig var fjallað um hvernig hægt væri að brúa bilið milli grunnskóla og aukinnar menntunar og þátttöku á atvinnumarkaði, áskoranir eldri borgara á norðurslóðum í tengslum við uppbyggingu stóriðju, norðurslóðastefnur Norðurlanda og áhrif þeirra á svæðisbundna þróun, viðskiptaþróun á norðanverðum norðurslóðum og brottflutning fólks frá svæðinu.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem voru samþykktar á aukaársfundi ráðsins í Grindavík 31. janúar 2016 og á ársfundi ráðsins í Qaqortoq á Grænlandi 21.–24. ágúst 2016.
          Ályktun nr. 1/2016 um stuðning við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
          Ályktun nr. 2/2016 um greiningu á fýsileika þess að setja á fót vestnorræna eftirskóla (d. efterskole).
          Ályktun nr. 3/2016 um sameiginlega ráðstefnu um stöðu vestnorrænu landanna í nýjum landfræðipólitískum veruleika.

Alþingi, 17. mars 2017.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
varaform.
Einar Brynjólfsson.
Eygló Harðardóttir. Njáll Trausti Friðbertsson. Pawel Bartoszek.