Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 450  —  331. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.


Flm.: Einar Brynjólfsson, Oktavía Hrund Jónsdóttir, Halldóra Mogensen, Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar I. Guðmundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson.


    Alþingi ályktar, í samræmi við ákvæði laga um rannsóknarnefndir, að gerð verði rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.
    Rannsóknin verði falin þriggja manna nefnd sem forseti Alþingis skipar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um rannsóknarnefndir. Rannsóknarnefndin leggi mat á hvernig til hafi tekist þegar fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var komið á fót, m.a. framkvæmd hennar og efnahagsleg áhrif. Í þessu skyni geri nefndin grein fyrir:
     a.      fjármagninu sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni,
     b.      hvaðan fjármagnið kom,
     c.      hvaða einstaklingar voru skráðir fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins eða hvaða félög og eignarhaldi þeirra,
     d.      hvernig fénu sem fært var inn til landsins var varið, þ.e. til hvaða fjárfestinga það var notað og hvaða áhrif þær fjárfestingar hafa haft á íslenskt efnahagslíf,
     e.      hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna þessa og þá hversu stórt umfang slíks taps hafi verið.
    Nefndin skili niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 31. janúar 2018.

Greinargerð.

    Þessi tillaga til þingsályktunar er lögð fram á grundvelli 1. gr. laga um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, en þar segir: „Forseti Alþingis skipar rannsóknarnefnd ef Alþingi samþykkir ályktun þar um til þess að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða.“ Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að varpa skýru ljósi á allar þær fjármagnstilfærslur sem voru gerðar fyrir tilstilli fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands.

Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.
    Í kynningu Seðlabanka Íslands á fjárfestingarleiðinni, frá 18. nóvember 2011, segir m.a.:
    „Á komandi mánuðum mun Seðlabanki Íslands standa fyrir gjaldeyrisútboðum þar sem bankinn mun kaupa erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur til innlendrar fjárfestingar, enda sé fjárfestingin bundin til langs tíma hér á landi. Viðskiptin eru liður í losun hafta á fjármagnshreyfingar með gjaldeyri, sbr. áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011. Markmið Seðlabanka Íslands með viðskiptunum er að auðvelda losun gjaldeyrishafta, án þess að það valdi verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í tvísýnu.
    Fjárfestingarleiðin felur í sér að fjárfestar sem hyggjast fjárfesta á Íslandi fyrir erlendan gjaldeyri geta keypt íslenskar krónur fyrir hluta gjaldeyrisins í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands. Skilyrt er að viðkomandi fjárfestir kaupi að minnsta kosti sömu fjárhæð króna í venjulegum viðskiptum við fjármálastofnanir. Einnig er það skilyrði að öllum fjármunum verði varið til fjárfestingar innanlands, samkvæmt nánari ákvæðum í auglýsingum um fjárfestingarleiðina.
    Einnig verður fjárfestum sem þegar eiga svonefndar aflandskrónur sem verið hafa í samfelldu eignarhaldi viðkomandi fjárfestis frá 28. nóvember 2008 gert kleift að fjárfesta með sama hætti og auglýsingin greinir. Þeir munu með sama hætti selja erlendan gjaldeyri hjá innlendri fjármálastofnun og er þá gert kleift að flytja til landsins aflandskrónur sínar. Fjárhæð aflandskróna sem heimilað yrði að flytja inn með þeim hætti samsvarar jafnvirði þess erlenda gjaldeyri sem fjárfestir seldi innlendri fjármálastofnun, reiknuðu á genginu sem myndast í útboðum Seðlabankans.“
    Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra, Framgangur áætlunar um losun fjármagnshafta, frá 18. mars 2015 kemur fram að 1.099,2 millj. evra eða 206 milljarðar kr. hafi verið færðir til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina. Þar kemur einnig fram að 47,2% fjármagnsins hafi verið notuð til að fjárfesta í skuldabréfum, 40,0% í hlutabréfum, 12,2% í fasteignum og 0,6% í verðbréfasjóðum. Það er alveg ljóst að innstreymi þessa fjármagns hefur haft veruleg áhrif á íslenskt hagkerfi, ekki hvað sís t íslenskan fasteignamarkað.

Aflandseignir Íslendinga og fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.
    Undanfarin ár hefur gagnrýni á fjárfestingarleiðina verið hávær, en mismiklum rökum studd. Segja má að þessi gagnrýni hafi fengið byr undir báða vængi þegar skýrsla fjármála- og efnahagsráðuneytis, Eignir Íslendinga á aflandssvæðum, var birt í byrjun janúar. Í skýrslunni segir m.a.: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattayfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða.“ (Viðauki 4: Vangaveltur um mögulegar úrbætur, bls. 47.)
    Segja má að sú rannsókn sem hér er stefnt að sé að einhverju leyti svar við ofangreindri skýrslu og að hún muni, síðast en ekki síst, varpa ljósi á hulinn hluta íslensks fjármálalífs undanfarinna ára og áratuga.

Mikilvægt mál sem varðar almenning.
    Lög um rannsóknarnefndir gera ráð fyrir því að Alþingi geti látið fara fram rannsókn á mikilvægu máli sem varðar almenning. Mikilvægi máls þessa felst í því að upplýsa um framkvæmd fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands, sem var liður í losun gjaldeyrishafta hérlendis. Fjárfestingarleiðin hefur verið gagnrýnd af ýmsum ástæðum, en telja verður sérstaklega mikilvægt í ljósi umræðu um aflandseignir og skattaundanskot á síðustu misserum að leitast verði við að rannsaka og fjalla um hvort fjárfestingarleiðin hafi stuðlað að því að fjármagn vegna skattaundanskota, sem geymt var í skjóli á aflandseyjum, hafi verið fært til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina með afslætti.

Markmið rannsóknarinnar.
    Leggja ber áherslu á að rannsóknin leiði í ljós hvaða fjármagn var flutt til landsins með fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, þ.e. umfang gjaldeyrisútboða Seðlabanka Íslands, hverjir voru þátttakendur í fjárfestingarleiðinni, m.a. fjölda þeirra og hvort um var að ræða innlenda eða erlenda aðila, hvaða einstaklingar eða félög tóku þátt og hvernig var háttað um eignarhald félaganna, hvaðan hinn erlendi gjaldeyrir kom, hvaða fjárhæðir um ræddi og hvaða fjárfestingar var ráðist í vegna þátttöku í fjárfestingarleiðinni. Jafnframt verði rannsóknarnefndinni falið að meta þau áhrif sem fjárfestingar fyrir tilstilli fjárfestingarleiðarinnar hafi haft á íslenskt efnahagslíf.