Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 451  —  332. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum (tíðavörur og getnaðarvarnir).

Flm.: Oktavía Hrund Jónsdóttir, Halldóra Mogensen, Jón Steindór Valdimarsson, Björn Leví Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Einar Brynjólfsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Logi Einarsson, Birgitta Jónsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      11. tölul. orðast svo: Getnaðarvarnir, tollskrárnúmer 3006.6000 og 2937.2300.
     b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Tíðavörur, tollskrárnúmer 9619.0012 og 9619. 0090.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að einnota og margnota tíðavörur þar með talin dömubindi, tíðatappar og álfabikarar, ásamt öllum tegundum getnaðarvarna, falli í lægra þrep virðisaukaskatts.
    Markmið frumvarpsins er stuðla að bættri lýðheilsu með því að draga úr kostnaði vegna nauðsynlegra hreinlætisvara, ásamt því að jafna aðstöðumun notanda mismunandi forma getnaðarvarna.
    Með þessum leiðréttingum færist Ísland nær þeirri þróun sem hefur átt sér stað í öðrum ríkjum með tilliti til aðgengis að nauðsynlegum hreinlætisvörum og getnaðarvörnum á undanförnum árum.
    Enginn kostnaður er áætlaður vegna þessara breytinga, en áætlað tekjutap vegna virðisaukaskatts er um 37,90 millj. kr. á ári vegna b-liðar 1. gr. og 4,09 millj. kr. á ári vegna a-liðar 1. gr. frumvarpsins.
    Á móti mun bætt lýðheilsa skila sparnaði í heilbrigðiskerfinu.
    Róbert Marshall og fleiri lögðu fram frumvarp á 145. þingi (405. mál) sem sneri að atriðum b-liðar 1. gr.