Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 455  —  186. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á landsbyggðinni.


     1.      Hvað eru starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands margir og hversu hátt hlutfall þeirra starfar á landsbyggðinni?
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Hlutverk stofnunarinnar er bæði á sviði hagnýtra tæknirannsókna og þjónustu og stuðnings við nýsköpun og aðgerða sem stuðla að bættum rekstri og vexti fyrirtækja og frumkvöðla.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands þjónar verkefnum á öllu landinu án beinna tengsla við staðsetningu starfsstöðva. Starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar eru nú 77 í 74,4 stöðugildum, en auk þess starfa þrír starfsmenn í tímavinnu, í u.þ.b. 1,5 stöðugildi. Skipta má starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar í fimm megin svið, þ.e. mannauðs- og markaðsstofu, efnagreiningar, efnis-, líf- og orkudeild, rannsóknastofu byggingariðnaðarins og Impru – frumkvöðla og sprota.
    Á starfsstöðvum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, staðsettum á landsbyggðinni, eru níu starfsmenn eða 11,6% starfsmanna. Þeir starfsmenn sem og starfsmenn á starfsstöð miðstöðvarinnar í Reykjavík veita þjónustu um allt land.

     2.      Hvar á landsbyggðinni eru starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvarinnar og hversu margir eru á hverjum stað?
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands rekur fimm starfsstöðvar á landsbyggðinni. Starfsstöðvarnar eru á eftirfarandi stöðum:
     *      Djúpivogur, einn starfsmaður.
     *      Vestmannaeyjar, einn starfsmaður.
     *      Ísafjörður, þrír starfsmenn.
     *      Sauðárkrókur, einn starfsmaður.
     *      Akureyri, þrír starfsmenn.

     3.      Hve stór hluti þess fjár sem varið er til verkefna Nýsköpunarmiðstöðvar gengur til:
                  a.      verkefna á landsbyggðinni í heild,
                  b.      verkefna í hverjum landsfjórðungi?

    Tekjur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands árið 2016 voru 1.239.521.886 kr. Af þeim fjármunum voru 48,18% framlag ríkisins, en sértekjur, þ.e. sala á þjónustu og styrkir úr erlendum og innlendum rannsóknarsjóðum námu 51,82%. Töluverður munur er á hlutfalli sértekna eftir sviðum Nýsköpunarmiðstöðvar.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands þjónar landinu sem einni heild. Þjónusta starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er því ekki bundin viðkomandi starfsstöð eða landsfjórðungi. Starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hafa mismunandi þekkingu og reynslu. Til þess að geta veitt frumkvöðlum og fyrirtækjum sem besta þjónustu er algengt að starfsmenn komi að verkefnum sem eru á þeirra sérfræðisviði og skiptir þá ekki máli hvar verkefnið er staðsett landfræðilega.
    Sé einungis horft til þess hluta starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar sem snýr að þjónustu og stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki er hægt að sýna sundurliðaðan kostnað á hverri starfsstöð. Engu að síður er skylt að árétta að kostnaður á viðkomandi starfsstöð er ekki alfarið tengdur þjónustu eða starfsemi á viðkomandi svæði.
    Árið 2016 voru heildartekjur þessarar starfsemi 301.439.832 kr. og af þeim tekjum var framlag ríkisins af fjárlögum 185.535.000 kr. eða um 61,55%. Þessi hluti starfseminnar er gerður upp án hagnaðar eða taps og því eru tekjur jafnháar gjöldum. Hér má benda á að skipting fjármuna er hlutfallslega mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og af því má vera ljóst að starfsemi á landsbyggðinni er mjög veigamikil.

Þjónusta við frumkvöðla og fyrirtæki Heildartekjur 2016, fjárlög og sértekjur Hlutfall af heildartekjum Framlag af fjárlögum 2016 Hlutfall af fjárlögum
Reykjavík 95.352.155 31,63% 67.535.000 36,40%
Átak til atvinnusköpunar 5.112.536 1,70% 0,00%
Frumkvöðlasetur 39.174.149 13,00% 21.600.000 11,64%
Evrópumiðstöð 34.505.819 11,45% 12.600.000 6,79%
Akureyri 43.835.162 14,54% 23.600.000 12,72%
Ísafjörður 36.854.793 12,23% 23.600.000 12,72%
Vestmannaeyjar 20.386.440 6,76% 14.000.000 7,55%
Sauðárkrókur 9.761.019 3,24% 12.200.000 6,58%
Djúpivogur 16.457.759 5,46% 10.400.000 5,61%
301.439.832 100,00% 185.535.000 100,00%

     4.      Hvaða atriði eru einkum ráðandi þegar teknar eru ákvarðanir um verkefni á landsbyggðinni og starfsmannafjölda og starfshlutfall þar?
    Á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru ákvarðanir um verkefni á landsbyggðinni helst teknar á grundvelli eftirfarandi þátta:
     *      Ákvarðanir um verkefni á sviði tækniþróunar eru teknar á grundvelli samstarfs við fyrirtæki, frumkvöðla, sveitarfélög og aðra á viðkomandi svæðum. Verkefni geta verið að frumkvæði fyrirtækis eða frumkvöðuls sem leitar nýrra lausna. Verkefni geta líka verið að frumkvæði Nýsköpunarmiðstöðvar í krafti sérfræðiþekkingar á ákveðnum sviðum og tækifæra á sviði hagnýtrar tækniþróunar. Þá geta verkefni verið samstarfsverkefni fleiri aðila innan lands og alþjóðlega.
     *      Ákvarðanir um áherslur í stuðningsverkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar eru teknar á grunni mats á þörfum fyrirtækja og frumkvöðla hverju sinni og því háðar breytingum í samfélagi og atvinnulífi. Ákvarðanir um slíkar áherslur byggja einnig á fjármunum og mannafla sem til reiðu eru til að framkvæma verkefnið. Verkefnisstjórar sem koma að mótun og rekstri stuðningsverkefna hafa þekkingu og reynslu af atvinnulífi á landsbyggðinni og hafa unnið með fyrirtækjum og einstaklingum á landsbyggðinni á flestum sviðum atvinnulífsins.
     *      Stuðningsverkefni á ákveðnum sviðum eru rekin í opnu ferli þar sem fyrirtækjum og einstaklingum alls staðar af landinu er boðið að sækja um þátttöku. Dæmi um slík verkefni eru „Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum“, „Ræsing“, „Orkubóndinn“, „Átak til atvinnusköpunar“ o.fl.
     *      Sá hluti verkefna og þjónustu Nýsköpunarmiðstöðvar sem felst í leiðbeiningarþjónustu og fræðslu er gjaldfrjáls um allt land. Aðgengi að þjónustunni er í gegnum leiðsögn á heimasíðu, síma og netfundi. Auk þess sækja verkefnisstjórar einstaklinga og fyrirtæki heim ef því er að skipta.
     *      Tekið er gjald fyrir lengri námskeið sem haldin eru í þágu ákveðinna markhópa víðs vegar um landið.
     *      Verkefni sem fjármögnuð hafa verið sérstaklega sem aðgerð í þágu landsbyggðarinnar, eða tiltekinna byggðalaga, eru rekin með þarfir þess landsvæðis eða fyrirtækja að leiðarljósi. Dæmi um slík verkefni eru t.d. „Ræsing“ og „Vaxtarsprotar“ og ýmis verkefni á sviði ferðaþjónustu. Ákvarðanir um fjármögnun slíkra verkefna hafa verið teknar af hálfu ráðuneytis eða ráðherra hverju sinni.