Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 456  —  180. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um Fab Lab smiðjur.


     1.      Hvar á landinu starfrækir Nýsköpunarmiðstöð Íslands og samstarfsaðilar Fab Lab smiðjur?
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er tengiliður Íslands við Fab Foundation og fer með öll samskipti við Massachusetts Institute of Technology (MIT) og Fab Foundation fyrir hönd Fab Lab smiðja á Íslandi. Hér er um fagleg samskipti að ræða og því tengist Nýsköpunarmiðstöð Íslands faglega öllum Fab Lab smiðjum á Íslandi. Önnur aðkoma Nýsköpunarmiðstöðvar að starfsemi Fab Lab smiðja er mismunandi. Nýsköpunarmiðstöð starfrækir nú Fab Lab smiðju í Vestmannaeyjum og hefur til skamms tíma einnig starfrækt Fab Lab smiðju á Sauðárkróki.
    Til viðbótar þessum tveimur smiðjum hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands komið að rekstri Fab Lab smiðja með sveitarfélögum, skólum og stofnunum, í Reykjavík, á Ísafirði, í Eyjafirði, á Höfn í Hornafirði, í Reykjanesbæ og á Neskaupstað. Þá hafa fyrirtæki og félagasamtök komið að stofnun Fab Lab smiðja með stofnframlagi og öðrum stuðningi.

     2.      Hverjir eru samstarfsaðilar Nýsköpunarmiðstöðvar um rekstur Fab Lab smiðja á hverjum stað?
    Breytilegt er eftir Fab Lab smiðjum hverjir samstarfsaðilar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru og hver aðkoma þeirra að stofnun og rekstri er eða hefur verið. Sjá meðfylgjandi töflu.

Starfsstöð Aðkoma að rekstri Aðkoma að stofnfjármögnun
Vestmannaeyjar Nýsköpunarmiðstöð Íslands Iðnaðarráðuneyti fjármagnaði stofnkostnað
Reykjanes Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Keilir, miðstöð vísinda og fræða
Nýsköpunarmiðstöð
Keilir
Fjölbrautaskólinn
í Breiðholti
Reykjavíkurborg
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Reykjavíkurborg
Iðnaðarráðuneyti
Akranes Akraneskaupstaður Fjölbrautaskóli Vesturlands
Ísafjörður Ísafjarðarbær
Bolungarvík
Súðavíkurhreppur
Menntaskólinn á Ísafirði
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Menntaskólinn á Ísafirði
Iðnaðarmannafélag Ísafjarðar
Sauðárkrókur Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
Sveitarfélagið Skagafjörður
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Hátæknisetur Íslands
Samtök fyrirtækja og stofnana á svæðinu
Akureyri Verkmenntaskólinn á Akureyri
Akureyrarbær
Eyjafjarðarsveit
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Norðurorka
KEA
SS Byggir
Höldur
Byggiðn – stéttarfélag
Neskaupstaður Verkmenntaskóli Austurlands
Austurbrú
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Verkmenntaskóli Austurlands í samstarfi við atvinnulífið á svæðinu
Höfn í Hornafirði Sveitarfélagið Hornafjörður Sveitarfélagið Hornafjörður
Nýsköpunarmiðstöð Íslands

     3.      Hve miklu fé hefur Nýsköpunarmiðstöð varið til starfsemi Fab Lab smiðja á hverjum stað frá því að þetta verkefni hófst? Upphæðir óskast færðar til verðlags yfirstandandi árs.

Starfsstöð Stofnár Kostnaður frá upphafi á verðlagi í febrúar 2017 (kr.) Skýringar
Vestmannaeyjar 2008–2017 111.692.872 Í Vestmannaeyjum var fyrsta Fab Lab smiðjan sett upp. Stofnkostnaður var alfarið fjármagnaður með styrk frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Verkefnisstjóri Fab Lab í Vestmannaeyjum hefur haft umsjón með uppbyggingu annarra stöðva og hefur einnig leitt samstarfsvettvang Fab Lab smiðja á Íslandi, þannig að kostnaður sem skráður er í Vestmannaeyjum er að hluta vegna uppbyggingar Fab Lab á öðrum stöðum og miðlun þekkingar til kennara í grunn- og framhaldsskólum víða á landinu.
Reykjanes 2016 1.001.140 Stuðningur við upphaf reksturs Fab Lab á Reykjanesi.
Reykjavík 2013–2016 30.629.808 Stofnkostnaður var fjármagnaður af Reykjavíkurborg og iðnaðarráðuneyti.
Akranes Stafsstöðin á Akranesi hefur ekki fengið beinan fjárstuðning en verkefnisstjóri Fab Lab í Vestmannaeyjum hefur veitt ráðgjöf og leiðsögn.
Ísafjörður 2014–2016 27.266.523 Nýsköpunarmiðstöð greiðir 50% af kostnaði við Fab Lab á Ísafirði í samræmi við tímabundinn samning.
Sauðárkrókur 2010–2016 54.219.895
Akureyri 2017 3.003.421
Neskaupstaður 2014–2016 10.625.482 Nýsköpunarmiðstöð greiddi 50% af launakostnaði starfsmanns til sept. 2016.
Höfn í Hornafirði
2015

6.112.787

Styrkur við upphaf starfseminnar.
Samtals 244.551.928

    Framlag Nýsköpunarmiðstöðvar er einungis hluti af heildarfjármögnun starfsemi Fab Lab smiðja á Íslandi. Nýsköpunarmiðstöð hefur frá upphafi lagt áherslu á að koma aðeins að fjármögnun Fab Lab smiðja þar sem verulegt fjármagn heimamanna hefur komið á móti. Þetta mikilvæga uppbyggingarstarf í menntun og tæknilæsi hefði ekki orðið að raunveruleika nema fyrir samstarf og veruleg framlög heimamanna, fyrirtækja og félagasamtaka í heimabyggð.

     4.      Hve margir starfsmenn vinna að verkefnum tengdum Fab Lab smiðjunum á hverjum stað og hve margir hafa tekið þátt í starfseminni frá upphafi?

Starfsstöð Starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Ekki starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Fjöldi starfsmanna frá upphafi Skýringar
Vestmannaeyjar 1 0 2 Á starfsstöðinni í Vestmannaeyjum er fyrsta Fab Lab smiðjan og hluti starfa viðkomandi felst í vinnu við Fab Lab Ísland sem er samstarfsvettvangur allra Fab Lab smiðja og auk þess uppbyggingu þekkingar í öðrum Fab Lab smiðjum.
Reykjanes 0 1 1 Starfsstöðin er ekki rekin af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og starfsmaðurinn er ekki starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvarinnar.
Reykjavík 0 1 2 Starfsmaður Fab Lab í Reykjavík var starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar frá 2014–2016, en þá hætti hann störfum. Frá því í september 2016 og það sem af er árinu 2017 hefur Fjölbrautaskólinn í Breiðholti rekið Fab Lab í Breiðholti.
Akranes 0 0 1 Fab Lab á Akranesi hefur aldrei verið rekið af Nýsköpunarmiðstöð. Starfsemin þar hefur verið frekar lítil og engin formleg starfsemi er þar nú.
Ísafjörður 1 0 2 Starfsmaðurinn er starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar, en launakostnaður er fjármagnaður 50% af sveitarfélögum á svæðinu.
Sauðárkrókur 0 0 3 Starfsmaður lét af störfum um áramótin 2016–2017 og ekki hefur verið ráðið í stöðuna.
Akureyri 0 1 1 Starfsmaðurinn er starfsmaður Verkmenntaskólans á Akureyri.
Neskaupstaður 0 1 1 Starfsmaður Fab Lab á Neskaupstað var starfsmaður Austurbrúar. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Austurbrú gerðu tímabundinn samning um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands greiddi 40% af launum viðkomandi starfsmanns. Samningnum lauk árið 2016.
Höfn í Hornafirði
0

1

1
Starfsmaðurinn er ekki starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Samtals 2 5 14

     5.      Til hve langs tíma eru samningar um Fab Lab smiðjur að jafnaði gerðir?
    Breytilegt hefur verið eftir starfsstöðvum Fab Lab smiðja til hversu langs tíma samningar hafa verið gerðir, en þeir hafa verið á bilinu eitt til þrjú ár. Sjá nánar hér að aftan.

Vestmannaeyjar.
    Nýsköpunarmiðstöð rekur Fab Lab smiðjuna í Vestmannaeyjum fyrir eigin reikning og því er enginn sérstakur samningur þar um. Fab Lab smiðjan í Vestmannaeyjum fer með verkefnisstjórn Fab Lab Íslands og samskipti við erlenda samstarfsaðila.

Reykjanes.
    Samningur milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Keilis er til tveggja ára og lýkur 31. desember 2018.

Reykjavík.
    Samningur milli Reykjavíkurborgar, Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Nýsköpunarmiðstöðvar var undirritaður 19. júlí 2013 og gilti í tvö ár. Bráðabirgðasamkomulag er milli Reykjavíkurborgar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti til eins árs og lýkur 2017.

Akranes.
    Samningur á milli Akraneskaupstaðar, Fjölbrautaskóla Vesturlands, SSV – þróunar og ráðgjafar, Norðuráls og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands var gerður árið 2010 og gilti til 1. mars 2012. Samningurinn er með tveggja mánaða uppsagnarfresti og framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn sé honum ekki sagt upp.

Ísafjörður.
    Samningur til þriggja ára á milli Menntaskólans á Ísafirði, Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur, Súðavíkurhrepps og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands var undirritaður 2014 og lýkur 31. desember 2017.

Sauðárkrókur.
    Samningur á milli Hátækniseturs Íslands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Nýsköpunarmiðstöðvar var undirritaður 2010 til eins árs og lauk 1. júní 2011. Rekstri smiðjunnar var haldið áfram til ársloka 2016.

Neskaupstaður.
    Samningur var gerður 1. september 2014 til tveggja ára. Nýr samningur hefur ekki verið gerður.

Hornafjörður.
    Samningur milli Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands var undirritaður 13. febrúar 2014. Um var að ræða stuðning til tækjakaupa.

     6.      Hvaða áform eru um starfrækslu Fab Lab smiðja framvegis og fjármögnun þeirra?
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun koma áfram að rekstri Fab Lab smiðja og vera tengiliður Íslands í Fab Foundation. Mikilvægt er að smiðjurnar byggi á frumkvæði og fjármögnun aðila í nærumhverfi hverrar smiðju. Þannig þjóna smiðjurnar best samfélaginu þar sem þær eru staðsettar.
    Til skoðunar er með hvaða hætti sé hægt að koma á fót Fab Lab smiðjum á fleiri stöðum á landinu, m.a. hvaða farvegur er mögulegur fyrir það að heimamenn komi að slíkum verkefnum.