Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 457  —  181. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um fjarskiptasjóð, stöðu ljósleiðaravæðingar o.fl.


          1.      Hyggst ráðherra gera ráðstafanir til þess að framlengja starfstíma fjarskiptasjóðs þegar starfstíma sjóðsins lýkur í lok þessa árs og hvernig sér hann framtíðarhlutverk sjóðsins fyrir sér?
    Stefnt er að framlagningu frumvarps til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, lögum um Póst- og fjarskiptstofnun og lögum um fjarskiptasjóð á næsta haustþingi. Breytingunum er bæði ætlað að stuðla að sanngjarnari gjaldtöku fyrir tíðniheimildir og að framlengja gildistíma laga um fjarskiptasjóð til ársloka 2022.
    Hlutverk fjarskiptasjóðs er að úthluta fjármagni til verkefna við uppbyggingu fjarskipta sem ekki verður ráðist í á markaðsforsendum í samræmi við fjarskiptaáætlun. Meðal verkefna fjarskiptasjóðs er landsátakið Ísland ljóstengt. Framlenging sólarlagsákvæðis laga um sjóðinn til ársloka 2022 er gerð með það fyrir augum að stuðla að því að markmið landsátaksins Ísland ljóstengt og tengdra verkefna náist, svo sem ljósleiðaratenging byggðakjarna, tvöföld tenging Eskifjarðar og Neskaupstaðar, uppbygging mikilvægra radíófjarskiptastaða til að bæta farsíma- og farnetsþjónustu, einkum á vegum og fjölförnum ferðamannastöðum með hliðsjón af öryggissjónarmiðum. Sjóðurinn hefur gegnum árin stuðlað að sambærilegri uppbyggingu, ýmist með beinum samkeppnisútboðum eða fjárstuðningi við aðila á borð við Neyðarlínuna.
    Fjarskiptasjóður hefur verið eitt helsta verkfæri stjórnvalda í baráttu við markaðsbresti í fjarskiptum í bráðum 12 ár. Á þeim tíma hefur sjóðurinn m.a. stuðlað að stórauknu farsímasambandi á stofnvegum landsins, tryggt öllum heimilum landsins utan markaðssvæða sítengt netsamband og stutt við uppbyggingu innviða sem nýtast bæði rekstraraðilum neyðarfjarskipta og farsímaþjónustu til að auka þjónustu bæði á landi og sjó. Starfsemi sjóðsins síðustu tvö ár hefur einkennst af undirbúningi og framkvæmd átaksverkefnisins Ísland ljóstengt. Ísland ljóstengt auk tengdra verkefna sem talin eru upp hér að framan verða að öllu óbreyttu meginviðfangsefni stjórnar og starfsmanna fjarskiptasjóðs næstu árin.
    Tilvist fjarskiptasjóðs er ekki markmið í sjálfu sér. Starfsemi sjóðsins kemur til af nauðsyn og ræðst af stefnu stjórnvalda og fjárveitingum. Endurskoðun fjarskiptaáætlunar er nú hafin. Stefnt er að því að leggja fram nýja fjarskiptaáætlun á næsta haustþingi. Ekki er því tímabært að fullyrða hvort fjarskiptasjóði verða falin ný verkefni. Hafa ber í huga í því sambandi að boðuð fjárhagsleg aðkoma ríkisins að tiltekinni uppbyggingu getur haft letjandi áhrif á uppbyggingu á markaðslegum forsendum sem og á greiðsluþátttökuvilja annarra hagsmunaaðila.

          2.      Hvernig hefur tekist að uppfylla markmið um aðgengileg og greið fjarskipti sem sett eru fram í 1. tölul. þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022, nr. 4/141?
    Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti sem sett eru fram í 1. tölul. þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022, nr. 4/141, eru víðtæk og ná þannig yfir aðgengi einstaklinga, fyrirtækja, stofnana, fjarskiptastaða og sjófarenda að tengingum yfir fastanet eða farnet. Sum markmið kalla á víðtækar og viðvarandi aðgerðir á meðan framkvæmd afmarkaðra verkefna uppfyllir önnur einfaldari markmið. Eftirfarandi er samantekt um stöðu umræddra markmiða í ársbyrjun 2017:

          a.      Uppbygging og endurnýjun ljósleiðarastofnnetsins innan lands taki mið af markmiðum stjórnvalda og þörfum notenda fyrir gagnaflutninga á hverjum tíma.
    Þetta er eitt af yfirmarkmiðum fjarskiptaáætlunar og er hér ekki fjallað um framvindu þess sérstaklega. Um er að ræða langtímaviðfangsefni sem önnur markmið og verkefni stuðla beint og óbeint að.
    Uppbygging fjarskiptainnviða er að mestu fjármögnuð af markaðsaðilum. Fjármögnun opinberra aðila á uppbyggingu og endurnýjun ljósleiðarastofnnets kemur til þar sem sérstök öryggissjónarmið eru fyrir hendi eða þar sem markaðsaðilar treysta sér ekki til að byggja upp á markaðslegum forsendum. Að frátalinni eigin uppbyggingu og endurnýjun markaðsaðila á ljósleiðarastofnneti skipta hér mestu hringtengiverkefni fjarskiptasjóðs og samstarf sjóðsins við sveitarfélög í tengslum við Ísland ljóstengt. Ljósleiðaravæðing dreifbýlis gefur víðast færi á endurnýjun stofnleiða ljóðsleiðara samhliða lagningu heimtauga. Fyrirliggjandi og fyrirhugað ljósleiðarastofnnet í tengslum við Ísland ljóstengt tekur þannig mið af markmiðum stjórnvalda og þörfum notenda fyrir gagnaflutninga.

          b.      Ljósleiðarahringtenging/tvítenging nái að lágmarki til landsvæða/byggðakjarna með yfir 5.000/1.000 íbúa.
    Markmið um hringtengingu átti á sínum tíma við um Vestfirði og Snæfellsnes. Ljósleiðarahringtenging þessara landsvæða var leyst með útboðsverkefnum fjarskiptasjóðs í samvinnu við markaðsaðila og Öryggisfjarskipti ehf. Lauk þeim verkefnum báðum farsællega fyrir síðustu áramót.
    Eftir er að ljúka við tvöföldun ljósleiðaratengingar Neskaupsstaðar og Eskifjarðar sem eru síðustu eintengdu byggðakjarnarnir með yfir 1.000 íbúa. Þar verður horft til samlegðar með endurnýjun Rarik á raforkuinnviðum á hluta leiðarinnar milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð, sem og verkefninu Ísland ljóstengt í samstarfi við Fjarðabyggð ef svo ber undir. Aðkoma fjarskiptasjóðs er þó háð auknum fjárveitingum. Horft er í því sambandi til þess að greiðslur fjarskiptafyrirtækja vegna endurnýjunar á fyrirliggjandi tíðniheimildum sem og greiðslur fyrir nýjar tíðniheimildir í tengslum við uppboð Póst- og fjarskiptastofnunar á fjarskiptatíðnum sem nú er í undirbúningi renni til fjarskiptasjóðs líkt og áður hefur verið og kveðið er á um í lögum. Hugsunin sú að greiðslur frá markaðsaðilum fyrir þessi afnot verði látnar renna til fjarskiptasjóðs til uppbyggingar farskiptainnviða utan markaðssvæða sem nýtist öllum markaðsaðilum á jafnræðisgrunni í stað þess að greiðslurnar renni beint í ríkissjóð.

          c.      Byggðakjarnar með yfir 50 íbúa séu tengdir með ljósleiðara.
    Einungis tveir byggðakjarnar með yfir 50 íbúa eru í dag án ljósleiðaratengingar við landsnet fjarskipta, Drangsnes og Kópasker. Engin áform eru uppi um tengingu þessara byggðakjarna með ljósleiðara á þessu ári úr því sem komið er. Miklar líkur eru á því að það náist að tengja þá 2018 í tengslum við Ísland ljóstengt en það er þá háð því að Kaldrananeshreppur og Norðurþing sæki um og hljóti styrk frá fjarskiptasjóði vegna 2018. Að auki er það ákvörðun viðkomandi sveitarfélags að forgangsraða framkvæmdum þannig að byggðakjarninn verði örugglega tengdur 2018 en ekki síðar. Eigi fjarskiptasjóður að veita sérstökum fjármunum til þessara verkefna umfram það sem þegar er áætlað vegna Ísland ljóstengt verður að bæta við fjárheimildir sjóðsins.

          d.      Þjóðfélagslega mikilvægir fjarskiptastaðir verði skilgreindir og tengdir raforku- og ljósleiðarastofnneti.
    Þessi flokkun eða skilgreining hefur ekki verið framkvæmd á samræmdan hátt fyrir alla fjarskiptastaði á landinu. Svæðið í nágrenni eldstöðva á Suðurlandi hefur fengið sérstaka athygli stjórnvalda og markaðsaðila á síðustu árum. Þar hafa nýir sendastaðir verið byggðir, fyrirliggjandi sendastaðir færðir, rafvæðing bætt sem og varaafl auk þess að koma á nauðsynlegum varasamböndum.
    Neyðarlínan, í samstarfi við fjarskiptasjóð eftir atvikum, hefur einbeitt sér að því að breyta rafvæðingu mikilvægra fjarskiptastaða úr því að vera með díselrafstöðvar yfir í aðra vistvænni orkugjafa þá einkum veiturafmagn en einnig vindrafstöðvar, sólarsellur og smávirkjanir. Ljósleiðarar hafa auk þess verið lagðir að sérstaklega erfiðum fjarskiptastöðum þar sem vindur og ís kemur í veg fyrir að hægt sé að tryggja þar öruggt fjarskiptasamband allt árið með örbylgjubúnaði.
    Í ljósleiðaravæðingu dreifbýlis er lagt kapp á að ljósleiðaratengja fjarskiptastaði og einkum þá sem gegna mikilvægu öryggishlutverki og eru heppilegir fyrir háhraðafarnetssenda.

          e.      90% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 30 Mb/s árið 2014, 100% árið 2022.
    Um 92% lögheimila og vinnustaða áttu kost á 30 (50) Mb/s árið 2016.

          f.      70% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 100 Mb/s árið 2014, 99% árið 2022.
    Um 80% lögheimila og vinnustaða áttu kost á 100 Mb/s árið 2016.

          g.      98% lögheimila og vinnustaða eigi kost á háhraðafarneti árið 2014, 99,9% árið 2022.
    Um 99,9% lögheimila og vinnustaða áttu kost á háhraðafarneti árið 2016.

          h.      80% af landi og hafsvæði kringum landið eigi kost á háhraðafarneti árið 2018.
    Háhraðafarnet náðist 2016 á um 82% landsvæðis, 98% hafsvæðis að 12 mílum kringum landið (landhelgi) og um 95% hafsvæðis að 40 mílum kringum landið (A1).

          i.      Opinberar stofnanir hafi aðgang að nettengingum við hæfi.
    Þetta er nokkurs konar yfirmarkmið og viðvarandi viðfangsefni. Aðgengi opinberra stofnana að nettengingum er nokkuð örugglega 100%. Stofnanir og þarfir þeirra hvað þetta varðar breytast frá einum tíma til annars. Stofnanir og annar opinber eða hálfopinber rekstur eru í þéttbýli og dreifbýli um land allt. Almenn uppfærsla gagnatenginga hvort heldur er á markaðsforsendum eða með opinberum stuðningi gagnast þannig opinberum stofnunum jafnt sem öðrum. Ljóst er þó að fjárveitingar eða greiðsluvilji stofnana hefur ekki virkað eins hvetjandi á uppbyggingu gagnaflutninga utan helstu markaðssvæða og vonir stóðu til.

          j.      Öllum landsmönnum verði tryggð jöfn aðstaða til að tileinka sér möguleika upplýsingatækninnar.
    Hér er einkum verið að horfa til aðgengis að neti. Fjarskiptasjóður hefur séð til þess frá árinu 2009 að hvert einasta lögheimili utan markaðssvæða hafi aðgang að sítengdu interneti. Þó er ljóst að gæðum aðgengis að netinu er misskipt á landinu og verður svo þar til öllum hefur verið tryggður aðgangur að tengingu sem afkastar að lágmarki 100 Mb/s og helst 1 Gb/s.

          3.      Hve margir notendur hafa fengið nettengingar á vegum átaksverkefnisins Ísland ljóstengt, í hvaða sveitarfélögum eru þeir og hve margir er áætlað að fái nettengingu áður en verkefninu lýkur? Svarið óskast sundurliðað eftir árum.
    Fjarskiptasjóður fer með undirbúning og úthlutun fjármuna til átaksverkefnisins sem og alla stjórnsýslu þess fyrir hönd ráðuneytisins. Fjarskiptasjóður hefur ekki á reiðum höndum nákvæmar upplýsingar um það sem hér er beðið um. Þannig hefur fjarskiptasjóður ekki upplýsingar um nákvæman fjölda notenda á bak við hvern styrktan stað sem þegar hefur verið tengdur eða mun verða tengdur á vegum átaksverkefnisins. Ekki var farið fram á það við sveitarfélögin sem hlutu styrk 2016 að veita upplýsingar um fjölda íbúa/notenda á bak við hverja tengingu. Rétt er að taka fram að uppbyggingin er mislangt komin hjá þeim sveitarfélögum sem eiga í hlut. Sum hafa lokið uppbyggingu en önnur hafa fengið frest til að ljúka framkvæmdum á þessu ári. Einnig ber að nefna að sum sveitarfélög lögðu eingöngu ljósleiðararör 2016 með það fyrir augum að draga í þau ljósleiðarastreng árið 2017. Umfang umsaminnar uppbyggingar getur einnig breyst hafi t.d. átt sér stað mistök í undirbúningi staðarlista sveitarfélaga þannig að frístundahús hafi óvart verið talin styrkhæf o.s.frv. Slíkt kemur mögulega ekki í ljós fyrr en við lokauppgjör samnings. Heilt yfir má þó ætla að sveitarfélög sem fengu styrk muni klára umsamda uppbyggingu og tengja umsaminn fjölda staða þó að verklokum seinki. Undirliggjandi staðarlistar geta þó breyst af ýmsum ástæðum. Búseta getur breyst, ný lögheimili byggð, íbúar vilja ekki borga tengigjald sem sveitarfélagið setur upp. Sveitarfélögin ráða því hvaða styrkhæfir staðir eða óstyrkhæfir staðir fá tengingu. Allt þetta veldur því að nákvæmur fjöldi tengdra staða liggur ekki fyrir fyrr en að verki loknu.
    Eftirfarandi eru upplýsingar um fjölda styrktra staða, lögheimila með heilsársbúsetu og atvinnuhúsnæðis með starfsemi allt árið, sem fjarskiptasjóður samdi um vegna eigin uppbyggingar sveitarfélaga árið 2016, sundurliðað eftir sveitarfélögum: Blönduósbær 30, Borgarbyggð 17, Eyja- og Miklaholtshreppur 31, Fljótsdalshérað 19, Húnavatnshreppur 175, Húnaþing vestra 130, Kjósarhreppur 48, Norðurþing 22, Rangárþing eystra 77, Rangárþing ytra 297, Súðavíkurhreppur 21, Svalbarðshreppur 41, Sveitarfélagið Skagafjörður 45, Þingeyjarsveit 150. Þessi uppbygging fór fram árið 2016 og mun fara að einhverju leyti inn á yfirstandandi ár.
    Eftirfarandi eru upplýsingar um fjölda styrktra staða, lögheimila með heilsársbúsetu og atvinnuhúsnæðis með starfsemi allt árið, sem fjarskiptasjóður samdi um vegna eigin uppbyggingar sveitarfélaga árið 2017, sundurliðað eftir sveitarfélögum: Akraneskaupstaður 13, Borgarbyggð 12, Breiðdalshreppur 43, Dalabyggð 31, Djúpavogshreppur 21, Fjarðabyggð 14, Fljótsdalshérað 10, Grindavíkurbær 26, Grundarfjarðarbær 48, Hrunamannahreppur 113, Kjósarhreppur 108, Langanesbyggð 6, Rangárþing eystra 251, Rangárþing ytra 334, Reykhólahreppur 76, Skaftárhreppur 33, Skorradalshreppur 35, Snæfellsbær 134, Strandabyggð 42, Sveitarfélagið Hornafjörður 109, Sveitarfélagið Skagafjörður 151, Sveitarfélagið Skagaströnd 5, Vopnafjarðarhreppur 75, Þingeyjarsveit 117. Þessi uppbygging fer fram árið 2017 og mun örugglega fara að einhverju leyti inn á árið 2018.
    Gróflega áætlað verða um 1.600 styrkhæfir staðir ótengdir í verkefninu eftir að ofangreindri uppbyggingu lýkur. Eftirspurn og niðurstaða úthlutunar fjarskiptasjóðs vegna styrktrar uppbyggingar sveitarfélaga árin 2018, 2019 og 2020 liggur ekki fyrir og því er ómögulegt að áætla umfang eftir árum.
    Margt annað getur haft þar áhrif en fjárveitingar fjarskiptasjóðs. Miklar verðhækkanir á verktakamarkaði geta leitt til minni framkvæmda. Eins getur umfangsmikil lagning ljósleiðara að frístundabyggð á markaðsforsendum samhliða eða í kjölfar styrktrar uppbyggingar haft veruleg áhrif á uppbyggingarhraða í einstökum sveitarfélögum. Veður var einkar hagstætt til lagningar ljósleiðara um allt land 2016 og voru jarðvinnuverktakar að störfum alveg fram í desember. Óhagstætt verðurfar getur stytt framkvæmdatíma innan ársins verulega og seinkað þannig framkvæmdum milli ára o.s.frv.

          4.      Í hvaða sveitarfélögum hefur ljósleiðari verið lagður og hvert hefur framlag fjarskiptasjóðs verið þegar hann hefur komið að málum? Svarið óskast sundurliðað eftir árum og að fjárhæðir settar fram á verðlagi yfirstandandi árs.
    Óhætt er að fullyrða að ljósleiðari hefur verið lagður að einhverju marki í nánast öllum sveitarfélögum landsins. Í eftirfarandi svari er gert ráð fyrir að spurt sé um framlag til Ísland ljóstengt skipt niður á sveitarfélög en ekki framlag sjóðsins til ljósleiðaratenginga fjarskiptasendistaða eða hringtengingar landsvæða á liðnum árum. Í ljósi þess að útborgun á styrk sjóðsins á grundvelli samninga um Ísland ljóstengt er háð framvindu verkefna og einungis eitt ár er síðan að fyrstu greiðslur vegna Ísland ljóstengt 2016 voru greiddar er hér miðað við samningsupphæðir gagnvart samningum 2016 og 2017 til þess að endurspegla skuldbindingu ríkisins. Fjársýslan greiðir út 40% upphafsgreiðslu vegna allra samninga 2017 í lok mars 2017, 40% eru greidd þegar helmingur er kominn með tengingu og 20% lokagreiðsla fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu hefur verið skilað til sjóðsins.
    Samningupphæðir vegna 2016: Blönduósbær 12.960.000 kr., Borgarbyggð 4.560.000 kr, Eyja- og Miklaholtshreppur 12.090.000 kr., Fljótsdalshérað 9.425.000 kr., Húnavatnshreppur 84.000.000 kr., Húnaþing vestra 45.605.300 kr., Kjósarhreppur 8.000.000 kr., Norðurþing 5.500.000 kr., Rangárþing eystra 26.950.000 kr., Rangárþing ytra 118.050.000 kr., Súðavíkurhreppur 8.100.000 kr., Svalbarðshreppur 25.000.000 kr., Sveitarfélagið Skagafjörður 20.685.000 kr., Þingeyjarsveit 73.575.000 kr.
    Samningsupphæðir vegna 2017: Akraneskaupstaður 2.936.250 kr., Borgarbyggð 4.200.000 kr., Breiðdalshreppur 19.350.000 kr., Dalabyggð 8.680.000 kr., Djúpavogshreppur 8.474.661 kr., Fjarðabyggð 9.280.079 kr., Fljótsdalshérað 2.895.260 kr., Grindavíkurbær 10.000.000 kr., Grundarfjarðarbær 15.468.559 kr., Hrunamannahreppur 24.860.000 kr., Kjósarhreppur 25.000.000 kr., Langanesbyggð 6.000.000 kr., Rangárþing eystra 62.750.000 kr., Rangárþing ytra 16.920.000 kr., Reykhólahreppur 19.000.000 kr., Skaftárhreppur 9.075.000 kr., Skorradalshreppur 12.225.000 kr., Snæfellsbær 46.498.000 kr., Strandabyggð 11.550.000 kr., Sveitarfélagið Hornafjörður 26.395.000 kr., Sveitarfélagið Skagafjörður 53.838.800 kr., Sveitarfélagið Skagaströnd 1.489.020 kr., Vopnafjarðarhreppur 25.000.000 kr., Þingeyjarsveit 29.000.000 kr.

          5.      Hver hefur kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna verið í hverju tilviki fyrir sig, sundurliðað í kostnað á hverja tengingu og heildarkostnað á verðlagi yfirstandandi árs?
    Fjarskiptasjóður óskaði eftir almennum upplýsingum um áætlaða fjármögnun verkefna sveitarfélaganna á grundvelli Ísland ljóstengt sem hluta af umsóknarferli vegna úthlutunar styrkja árið 2016 og 2017. Mikilvægt er að sveitarfélög sæki ekki um og fái jafnvel styrk frá sjóðnum án þess að hafa skýra hugmynd um líklegan heildarkostnað og fjármögnun þ.m.t. eigið framlag sveitarfélagsins. Fjarskiptasjóður gerir hvorki kröfu í úthlutunarskilmálum né styrktarsamningum um skil sveitarfélaga á endanlegri kostnaðarhlutdeild þeirra, hvað þá niður á einstaka tengingu. Rétt er að benda á að samkeppni er á milli sveitarfélaga um styrki frá sjóðnum. Opinberun áætlaðrar eða raunverulegrar kostnaðarhlutdeildar sveitarfélaga getur þannig unnið gegn hagsmunum þeirra í verkefninu og skaðað samningsstöðu gagnvart verktökum og fjarskiptafélögum.

          6.      Hver var tengikostnaður notenda í hverju sveitarfélagi fyrir sig á verðlagi yfirstandandi árs?
    Sveitarfélög ráða hver tengigjöld notenda eru. Fjarskiptasjóður gerir hvorki kröfu í úthlutunarskilmálum né styrktarsamningum um skil sveitarfélaga á endanlegum tengikostnaði notenda.

          7.      Eru einhverjir byggðakjarnar enn ekki tengdir ljósleiðara?
    Byggðakjarnar með yfir 50 íbúa og án ljósleiðaratengingar við landsnet fjarskipta eru Drangsnes og Kópasker.

          8.      Er áformað að gefa þeim sveitarfélögum sem á undanförnum árum hafa staðið fyrir lagningu ljósleiðara án stuðnings frá fjarskiptasjóði, og þar sem talið er að markaðsbrestur hafi ríkt, kost á að sækja um framlag úr sjóðnum þannig að jafnræðis verði gætt?
    Engin formleg skylda eða kvöð hvílir á ríkinu að stuðla að, styrkja eða sjá alfarið um uppbyggingu á ljósleiðarakerfum í dreifbýli. Slík uppbygging hefur verið og er enn valkvæð þrátt fyrir markmið stjórnvalda og átaksverkefnið Ísland ljóstengt. Alþjónusta í fjarskiptum er þegar tryggð með öðrum leiðum. Hvernig sveitarfélög hafa forgangsraðað fjármunum sínum í slíka uppbyggingu til þessa hefur ekki verið háð samþykki eða þátttöku ríkisins. Mörg sveitarfélög sem voru fyrst til þess að fara í slíkar framkvæmdir áttu fjármuni ásamt því að samnýta aðrar veituframkvæmdir á hagkvæman hátt. Skeiða- og Gnúpverjahreppur lagði sitt kerfi til að mynda fyrir myndarlegan fjárstuðning frá Landsvirkjun. Rétt er að hafa í huga að í ljósleiðarakerfum felast umtalsverð og jafnvel vaxandi verðmæti. Sveitarfélög sem hafa byggt og eiga enn sín ljósleiðarakerfi búa því að verðmætri eign sem hægt er að koma í verð vilji þau ná til baka a.m.k. hluta af fjárfestingunni. Samkeppni ríkir um kaup á ljósleiðarakerfum.
    Gagnrýnt hefur verið hvað stjórnvöld skammta naumt á hverju ári til átaksverkefnisins. Eftirspurn þeirra eftir fjármunum sjóðsins sem eiga eftir að ljósleiðaravæða í dreifbýli er meiri en framboð sjóðsins á fjármagni. Nú eru um og yfir 3.000 lögheimili og fyrirtæki án ljósleiðaratengingar í dreifbýli. Ljóst er að draga mun úr uppbyggingu í átaksverkefninu verði umtalsverðum hluta af fjármunum sjóðsins ráðstafað í styrk til þeirra sem þegar hafa lagt ljósleiðarakerfi. Hvort styrkja eigi uppbyggingu sveitarfélaga á ljósleiðarakerfum afturvirkt er sjálfstæð umræða.

          9.      Hvernig er eignarhaldi ljósleiðaranna háttað í hverju sveitarfélagi fyrir sig og hvernig verður eignarhaldinu háttað samkvæmt þeim samningum sem gerðir hafa verið um verkefnin?
    Allur gangur er á því hvernig eignarhaldi ljósleiðaranna er háttað. Fjarskiptasjóður veitir eingöngu styrki á grundvelli skilmála og samnings þar um. Fyrirkomulag eignarhalds ljósleiðaranna er undir hverju sveitarfélagi komið. Sjóðurinn gerir ekki kröfu um að vera upplýstur um eignarhald á hverjum tíma og hefur sjóðurinn þær upplýsingar ekki á reiðum höndum. Dæmi um þekkt fyrirkomulag eignarhalds hjá sveitarfélögum sem fengið hafa styrk:
               Sveitarfélag býður út lagningu, eignarhald og rekstur í alútboði. Fjarskiptafyrirtæki á þá kerfið frá upphafi.
               Sveitarfélag býður út lagningu og rekstur. Sveitarfélagið á þá kerfið oftast í gegnum eigið einkahlutafélag.
               Sveitarfélag býður út lagningu. Sveitarfélagið á þá kerfið oftast í gegnum eigið einkahlutafélag og rekur það.
               Sveitarfélag býður út lagningu í samvinnu við nágrannasveitarfélög. Sveitarfélagið leggur þá kerfið inn í einkahlutafélag sem sveitarfélögin eiga saman og reka sjálf eftir atvikum.
               Sveitarfélag kýs að eiga kerfið um tíma a.m.k. þar til uppbyggingu er lokið og reynsla komin á rekstur þess. Sveitarfélagið býður jafnvel út rekstur til tiltekinna ára án þess að útiloka sölu á kerfinu síðar eða sameiningu þess við nærliggjandi kerfi.
    Það er því ómögulegt að segja til um hvernig endanlegu eignarhaldi þessara kerfa verður háttað. Sjóðurinn gerir kröfu um hlutfallslega endurgreiðslu á veittum styrk, selji sveitarfélag kerfi sitt innan 10 ára. Það er gert til þess að koma í veg fyrir mögulega ofgreiðslu styrkja.

          10.      Hverjar voru virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs af verkefnum sem fengu framlög úr fjarskiptasjóði og hver voru framlög sjóðsins til sömu verkefna?
    Eins og fram hefur komið í svörum við öðrum liðum fyrirspurnarinnar ber sveitarfélögum ekki skylda til þess að upplýsa sjóðinn um skiptingu raunkostnaðar eða fjármögnunar. Fjarskiptasjóður er því ekki í aðstöðu til þess að veita þessar upplýsingar fyrir hönd umræddra sveitarfélaga. Framlög sjóðsins árin 2016 og 2017 koma fram í svörum við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.