Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 488  —  359. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun menntunarmála fanga.


Flm.: Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra að fara yfir og endurgera samninga við Fjölbrautaskóla Suðurlands um yfirumsjón með framkvæmd og skipulagi menntunar fanga í öllum fangelsum landsins þar sem slík starfsemi getur farið fram með það að markmiði að bæta úr skorti og ágöllum sem kunna að vera á gildandi samningum.
    Mennta- og menningarmálaráðherra skipi starfshóp til sex mánaða sem geri úttekt á núverandi fyrirkomulagi og leggi fram tillögur til endurbóta og nýskipunar á skipulagi og framkvæmd menntunarmála fanga, m.a. með tilliti til námskrár, kennsluaðstöðu, kennsluhátta og kennsluefnis. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar ráðuneyta, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fangelsismálastofnunar og Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Ráðherra skipi formann starfshópsins, láti hópnum í té nauðsynlega aðstöðu og greiði kostnað við starf hans.

Greinargerð.

    Tvær ástæður eru veigamestar fyrir þeirri ákvörðun flutningsmanna þessa þingmáls að leggja það fram nú. Er önnur sú að í júní 2016 var nýtt og löngu tímabært fangelsi tekið í notkun á Hólmsheiði í Reykjavík með betri aðstöðu til náms en föngum hefur áður staðið til boða en hin er gildistaka nýrra laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, sbr. einkum 26. gr. laganna þar sem eru ýmis nýmæli sem efla og auka námsmöguleika fanga og þá eru í lögunum skýr ákvæði um að nám í fangelsum er á ábyrgð menntamálayfirvalda.
    Í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrár er öllum tryggður lögvarinn réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Njóta fangar þessa réttar að sjálfsögðu eins og aðrir.
    Fangar hafa alllengi haft tækifæri til að stunda nám meðan á afplánun stendur og hefur þeim staðið ýmislegt til boða á þessu sviði undanfarin ár og áratugi þótt vissulega hefði mátt gera betur í þeim efnum. Í lok ársins 2007 kom út á vegum menntamálaráðuneytisins skýrsla um menntunarmál fanga: Stefnumótun í menntunarmálum fanga á Íslandi. Tillögur nefndar sem skipuð var af menntamálaráðherra, sem, eins og heiti hennar gefur til kynna, innihélt ýmsar tillögur um tilhögun og framkvæmd náms meðan á afplánun stendur.
    Meðal þess sem lagt var til var að gerður yrði samningur milli menntamálaráðuneytisins og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi (FSu) um að skólinn tæki að sér að annast menntun fanga, þar á meðal náms- og starfsráðgjöf. Slíkur samningur var gerður og FSu hefur annast kennslu í fangelsunum á Litla-Hrauni og Sogni í Ölfusi og náms- og starfsráðgjafi á vegum skólans hefur yfirumsjón með náms- og starfsráðgjöf í öllum fangelsum landsins, sbr. svar mennta- og menningarmálaráðherra á þskj. 722 á 145. löggjafarþingi. Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur þannig gegnt miklu og mikilvægu hlutverki í menntun fanga á síðustu árum.
    Aðsókn fanga að námi á vegum FSu hefur farið vaxandi. Skólaárið 2013–2014 voru 64 nemendur innritaðir í nám á haustönn og 65 á vorönn 1 og 71 nemandi innritaðist í nám á haustönn 2015 úr áðurnefndum tveimur fangelsum samkvæmt upplýsingum frá kennslustjóra FSu í fangelsum, þar af fimm í háskólanám. Fangar í öðrum fangelsum landsins, svo sem á Kvíabryggju og á Akureyri, stunda einnig nám en eru talsvert miklu færri en nemar úr hópi fanga á starfssvæði FSu.
    Lítill ágreiningur mun vera uppi um að nám á meðan á afplánun stendur geti gegnt þýðingarmiklu hlutverki í endurhæfingu fanga og styrkt möguleika þeirra til atvinnu og betra lífs þegar fangavistinni lýkur. Nám getur því verið afar þýðingarmikill hluti afplánunar og lykill að farsæld þegar fangavist lýkur. Mikilvægt er að vel takist til um þennan þátt og þar sem nú hafa orðið umtalsverðar breytingar á starfsemi fangelsa með tilkomu hins nýja fangelsis á Hólmsheiði og ákvæði og áherslur í nýjum lögum um afplánun styrkja þátt menntunar í fangelsum er fullt tilefni til að taka þessi mál til gagngerrar athugunar eins og hér er lagt til.

1     Bragi Guðmundsson og Trausti Þorsteinsson: Fjölbrautaskóli Suðurlands. Úttekt á starfsemi unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Gát sf. 2015, bls. 30–31.