Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 513  —  384. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um sameiningu Útlendingastofnunar og Þjóðskrár Íslands.


Flm.: Smári McCarthy, Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar I. Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að hefja undirbúning þess að sameina starfsemi Útlendingastofnunar og Þjóðskrár Íslands undir merkjum Þjóðskrár. Ráðherra skipi í þessu skyni starfshóp sem meti áhrif breytingarinnar, þ.m.t. á ríkissjóð, greini hvaða lagabreytinga og annarra aðgerða sé þörf og leggi drög að nauðsynlegum lagafrumvörpum að höfðu samráði við helstu fag- og hagsmunaaðila. Stefnt verði að því að undirbúningi verði lokið eigi síðar en í september 2018 og að sameiningin taki gildi 1. janúar 2019. Ráðherra flytji Alþingi munnlega skýrslu um gang verkefnisins á þriggja mánaða fresti frá samþykkt þingsályktunar þessarar.

Greinargerð.

    Markmið tillögunnar er að minnka yfirbyggingu, einfalda regluverk og auka skilvirkni stjórnsýslunnar í málefnum erlendra ríkisborgara hér á landi. Umsjón með málefnum erlendra ríkisborgara, svo sem dvalarleyfisumsóknum, búsetuskráningu o.fl., skiptist nú á milli Útlendingastofnunar og Þjóðskrár Íslands eftir því hvort einstaklingur er borgari ríkis innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins. Að mati flutningsmanna er slík tvískipting ónauðsynleg, óskilvirk og kostnaðarsöm.
    Sameining Útlendingastofnunar og Þjóðskrár yrði til þess að útlendingar sem koma til landsins gætu allir leitað þjónustu hjá sömu stofnun sem yrði mikilvægt skref til einföldunar þess kerfis sem meðhöndlar málaflokkinn og hefur sætt mikilli gagnrýni. Í skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands, Greining á þjónustu við flóttafólk, sem kom út 27. febrúar sl., er að finna greiningu á lagalegri og stjórnsýslulegri aðgreiningu málefna útlendinga. Í skýrslunni er m.a. lagt til að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd.
    Í fjárlögum fyrir árið 2016 var gert ráð fyrir 254,1 millj. kr. úr ríkissjóði til rekstrar Útlendingastofnunar, en 403,4 millj. kr. fyrir árið 2017. Þegar sértekjur og gjöld eru talin með er heildarrekstrarkostnaður Þjóðskrár áætlaður 1.791,9 millj. kr. á árinu 2017, þar af greiðast 972 millj. kr. úr ríkissjóði. Óhjákvæmilegt er að sameiningu stofnana fylgi ákveðinn upphafskostnaður en gera má ráð fyrir að rekstrarkostnaður sameinaðrar stofnunar verði til langs tíma lægri en kostnaður vegna rekstrar tveggja aðgreindra stofnana, m.a. þar sem stjórnendum fækkar og möguleikar opnast til aukinnar skilvirkni á borð við samnýtingu starfsafls, aðstæðna og aðfanga. Samkvæmt tillögu þessari er gert ráð fyrir að starfshópur á vegum ráðherra meti til hlítar þau kostnaðaráhrif sem sameining Útlendingastofnunar og Þjóðskrár hefði á ríkissjóð.