Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 526  —  251. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um stærðarálag á veiðigjald.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hverjar yrðu tekjur ríkissjóðs ef sett yrði stærðarálag á veiðigjald eins og það er samkvæmt gildandi lögum og það hækkað um 50% frá og með 4.000 tonnum þorskígildis?

    Veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári 2016/2017 er nú áætlað um 6.100 millj. kr. en að frádregnum frítekjuafslætti og skuldaafslætti er það áætlað um 5.100 millj. kr. Veiðigjald er nú greitt af lönduðum afla eftir á og er því ekki vitað með fullri vissu hvert heildargjald fiskveiðiársins verður.
    Veiðigjald fiskveiðiárið 2015/2016 er álagt og innheimt og nam það samtals 8.515 millj. kr. en að frádregnum afslætti var gjaldið 6.932 millj. kr. Á því fiskveiðiári var veiðigjald á afkomuígildi botnfisks 13,94 kr., samsvarandi tala fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 er 11,09 kr.
    Afkomuígildi uppsjávarfisks á fiskveiðiárinu 2015/2016 var 24,36 kr. en samsvarandi tala fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 er 20,29 kr.
    Að teknu tilliti til þessara talna, svo og breytinga á aflamarki bæði á botnfisk- og uppsjávartegundum milli fiskveiðiáranna, hefur verið reynt að nálgast svar við spurningu þingmannsins.
    Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu 1 eru 22 fyrirtæki í útgerð sem ráða yfir meira en 4.000 þorskígildistonnum miðað við kvótaúthlutun í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs. Þau ráða samtals yfir um 72% af úthlutuðum fiskveiðiheimildum. Til samanburðar voru greiðendur veiðigjalda fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samtals 1085 að tölu. 2
    Hafa ber í huga að veiðigjald er lagt á landaðan afla og að ýmis afli er utan aflahlutdeildarkerfisins, þar munar lang mest um makrílinn, en veiðiheimildir í makríl (alls rúm 30 þús. þorskígildistonn árið 2016) liggja hjá stærstu útgerðunum, sem ráða yfir mestum aflaheimildum og koma því fram í listanum yfir 100 stærstu sem vísað er til hér að framan. Framangreint hlutfall, 72%, mundi því hækka um fáein prósentustig ef makríll væri tekinn með í reikninginn. Veiðiheimildir tengjast skipum en ekki lögaðilum samkvæmt lögum þannig að Fiskistofa er því miður ekki með niðurbrot á öllum veiðiheimildum eftir fyrirtækjum og á það við um makrílinn.
    Telja má að álagið sem um ræðir í fyrirspurninni legðist á um 22 fyrirtæki af rúmlega 1000 sem nú greiða veiðigjald. Makríllinn hækkar hlut stærstu útgerðanna í heildinni og því má ætla að 50% stærðarálagið félli á um 75% álagðs veiðigjalds.
    Áætlað álagt veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári er eins og áður sagði um 6.100 millj. kr. brúttó. Ef 75% af því gjaldi mundi hækka um 50% er hækkunin áætluð 2.280 millj. kr. Við þetta mat þarf að hafa í huga að sumar þessara stóru útgerða eiga ónýttan lækkunarrétt vegna vaxtaberandi skulda af aflahlutdeildarkaupum og mundi sá réttur væntanlega hækka um 180–220 millj. kr. vegna hærra álagðs veiðigjalds.
    Niðurstaðan er því sú að væntanlega mundi 50% hækkun á veiðigjöldum þeirra útgerða, sem hafa yfir 4.000 þorskígildistonnum að ráða, nema nálægt 2.000 millj. kr.
    Veiðigjald á fiskveiðiárinu 2016/2017 yrði þannig áætlað samtals um 8.380 millj. kr. en að frádregnum afslætti er það áætlað um 7.100 millj. kr.
1     www.fiskistofa.is/umfiskistofu/frettir/nr/1510
2     www.fiskistofa.is/fiskveidistjorn/veidigjold