Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 536  —  405. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136/1998, með síðari breytingum (samningar um framleiðslu vegabréfa).

Frá dómsmálaráðherra.


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þjóðskrá Íslands er heimilt að gera samninga um vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til allt að tíu ára.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til ákvæði sem lýtur að því að heimila Þjóðskrá Íslands að semja um vegabréf og framleiðslukerfi til allt að tíu ára.
    Frumvarpið er unnið í innanríkisráðuneytinu í samvinnu við Þjóðskrá Íslands.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þjóðskrá Íslands hefur um nokkurt skeið undirbúið útboð vegna innkaupa á vegabréfum og endurnýjunar framleiðslukerfis fyrir vegabréf. Núverandi framleiðslukerfi sem er í eigu Þjóðskrár Íslands er komið til ára sinna. Ef notast á við það er nauðsynlegt að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar til þess að breyta því vegna nýrra vegabréfabóka svo að tryggt sé að það standist m.a. öryggiskröfur. Það er mat Þjóðskrár Íslands, sem ráðuneytið fellst á, að mun hagkvæmara sé að semja um leigu á nýju kerfi til a.m.k. átta ára, að undangengnu útboði, en að breyta gamla kerfinu. Ráðuneytið og Þjóðskrá Íslands eru sammála um að sú leið muni hafa minnstan kostnað í för með sér, tryggi um leið góða þjónustu, takmarki áhættu við framleiðsluna og uppfylli öll öryggisskilyrði.
    Í 2. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sbr. 1. mgr., kemur fram að ríkisaðilum í A-hluta sé heimilt með samþykki Alþingis að semja um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en fimm ára. Þessari heimild hefur einkum verið beitt um leigusamninga sem ríkisaðilar í A-hluta gera við einkaaðila. Leigusamningur um vegabréfakerfi lýtur ströngum kröfum um tæknilegar útfærslur og öryggisþætti. Verulegur kostnaður (samningskostnaður) og tími fer í að undirbúa og framkvæma útboð. Því er það mat Þjóðskrár Íslands og ráðuneytisins að mun hagkvæmara sé að semja til lengri tíma en fimm ára. Með samþykki samkvæmt framangreindri 2. mgr. 40. gr. er átt við sérstaka lagaheimild til að semja til lengri tíma en fimm ára. Ekki dugir að Alþingi hafi samþykkt fjárheimild, svo sem liggur fyrir varðandi verkefni þetta. Því er það markmið með lagasetningu þessari að afla heimildar Alþingis til að semja til lengri tíma en fimm ára.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að við 2. gr. laga um vegabréf verði bætt nýrri málsgrein, sem verði 6. mgr., þar sem Þjóðskrá Íslands verði veitt heimild til að semja um vegabréf og framleiðslukerfi þeirra til lengri tíma en fimm ára, að hámarki þó til tíu ára.
    Verði frumvarpið samþykkt mun Þjóðskrá Íslands hlutast til um að kaup á nýjum vegabréfabókum og leiga á nýju framleiðslukerfi fari í útboð í samræmi við lög um opinber innkaup, nr. 120/2016.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá. Hins vegar er ljóst að íslensk vegabréf verða að standast alþjóðlegar kröfur en með frumvarpinu er Þjóðskrá Íslands gert kleift að uppfylla lagaskyldur og standast alþjóðlegar kröfur með sem hagkvæmustum hætti.

5. Samráð.
    Í ljósi eðlis þeirrar lagabreytingar sem hér er lögð til, þ.e. undanþágu frá 2. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, um að semja til lengri tíma en fimm ára, er það mat ráðuneytisins að ekki hafi verið tilefni til að birta frumvarpið á vef ráðuneytisins til umsagnar.

6. Mat á áhrifum.
    Vegabréf eru verðmæt vara hjá alþjóðlegum glæpasamtökum og ganga þau kaupum og sölum á svörtum markaði. Þannig eru þau notuð við ólöglega fólksflutninga í tengslum við mansal svo að dæmi séu nefnd. Rétt er að benda á að íslenskt vegabréf veitir aðila inngöngu inn á Schengen-svæðið. Því er brýnt að vegabréf séu eins örugg og hægt er og að erfitt sé að falsa þau. Verði þetta frumvarp samþykkt mun það veita Þjóðskrá Íslands heimild til að semja um ný vegabréf og leigu á nýju vegabréfakerfi á sem hagkvæmastan hátt til allt að tíu ára og um leið að tryggja svo frekast er unnt öryggi þessara mikilvægu skilríkja.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á tekjur né útgjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að ný málsgrein bætist við 2. gr. laga um vegabréf, nr. 136/1998, þar sem Þjóðskrá Íslands verði veitt heimild til að semja um ný vegabréf og framleiðslukerfi fyrir vegabréf til lengri tíma en fimm ára, þ.e. til allt að tíu ára, enda séu samningarnir í samræmi við þá stefnumörkun sem liggur til grundvallar fjármálaáætlun. Með því er verið að leggja til að Alþingi samþykki heimild til Þjóðskrár Íslands til að semja til lengri tíma en fimm ára í samræmi við 2. mgr. 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sbr. og 4. mgr. 40. gr. sömu laga. Í ákvæðinu felst heimild til að bjóða út innkaup á vegabréfabókum og leigu á framleiðslukerfi fyrir útgáfu vegabréfa á Evrópska efnahagssvæðinu. Núverandi framleiðslukerfi vegabréfa er komið til ára sinna og mjög kostnaðarsamt er að lagfæra gamla kerfið fyrir nýjar vegabréfabækur og þær kröfur sem gerðar eru til nýrra vegabréfa. Ráðuneytið og Þjóðskrá Íslands eru sammála um að hagkvæmara sé fyrir ríkissjóð að bjóða út innkaup á nýjum vegabréfum og leigu á nýju framleiðslukerfi til a.m.k. átta ára en fimm og hagkvæmara en að breyta núverandi kerfi enda ekki óhugsandi að núverandi kerfi þyrfti frekari lagfæringar við síðar meir.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.