Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 545  —  171. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um heilbrigðisþjónustu veitta erlendum ferðamönnum.

    Vegna fyrirspurnar um veitta heilbrigðisþjónustu til erlendra ferðamanna á árunum 2009– 2016 var leitað svara hjá Landspítala og Sjúkrahúsi Akureyrar sem bæði þjóna sem landshlutasjúkrahús í þeim umdæmum þar sem þau eru staðsett auk þess að þjóna landinu öllu í sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu. Þá var leitað til heilbrigðisstofnana hvers heilbrigðisumdæmis, en þær eru Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Bókhaldskerfi flestra stofnananna eru þannig uppbyggð að erfitt reyndist að sækja í þau upplýsingar jafn sundurliðaðar og óskað er eftir í fyrirspurninni. Almennt er verklag stofnananna með þeim hætti að erlendum ferðamönnum eru gefnar gervikennitölur til að aðgreina þá frá einstaklingum sem búsettir eru hér landi og jafnframt eru sjúkratryggðir en erfitt reyndist að greina hópinn eftir því hvort einstaklingar kæmu frá Evrópska efnahagssvæðinu eða utan þess. Engu síður reyndu stofnanirnar að leggja mat á þetta, en stór hluti ferðamanna lenti í hópnum óskilgreint. Af þessum sökum er svarið ekki sundurliðað eftir búsetu þeirra innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá var ekki mögulegt hjá nokkrum stofnunum að sækja upplýsingar í bókhaldskerfum um heildargreiðslur erlendra ferðamanna. Eftirfarandi yfirlitstöflur gefa sundurliðað svar eftir stofnunum.

     1.      Hve margir erlendir ferðamenn leituðu heilbrigðisþjónustu hér á landi á tímabilinu 2009–2016? Svar óskast sundurliðað eftir ári og heilbrigðisumdæmi.
    Samkvæmt gögnum frá þeim níu heilbrigðisstofnunum sem leitað var svara hjá hefur ferðamönnum, sem veitt var þjónusta, fjölgað úr tæplega 6.000 árið 2009 í rúmlega 14.500 á síðasta ári eða sem nemur 146%.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hve hátt hlutfall af öllum komum á heilbrigðisstofnanir voru komur erlendra ferðamanna á umræddu tímabili? Svar óskast sundurliðað eftir ári og heilbrigðisumdæmi.
    Hlutfall erlendra ferðamanna af komum á heilbrigðisstofnanir var á árinu 2016 á bilinu 0,5–3,9% og vegur lang þyngst hjá Sjúkrahúsi Akureyrar. Hjá flestum heilbrigðisstofnunum hefur þróun hlutfallstalna verið í samræmi við þróun ferðaþjónustunnar á tímabilinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     3.      Hvernig er fyrirkomulagi greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er erlendum ferðamönnum háttað, annars vegar vegna þeirra sem koma frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar þeirra sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins?
    Ferðamenn sem koma frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins og eru sjúkratryggðir í samningsríki eiga rétt á nauðsynlegri aðstoð hjá þjónustuveitanda sem þörf verður fyrir af heilsufarsástæðum meðan á tímabundinni dvöl hérlendis stendur. Um greiðslur fer samkvæmt sömu reglum og gilda um sjúkratryggða einstaklinga hér á landi. Sjúkratryggingar Íslands annast endurkröfur vegna veittrar þjónustu hér á landi samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga um sjúkratryggingar. Sjúkratryggingar Íslands endurkrefja erlenda sjúkratryggingastofnun um útlagðan kostnað við aðstoðina.
    Ferðamenn sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins eiga rétt á neyðaraðstoð hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi hér á landi, þ.e. heilbrigðisþjónustu sem hinu opinbera er skylt að veita samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Fyrir aðstoðina greiða þeir fullt gjald eins og það er tilgreint nú í reglugerð nr. 50/2017. Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki þjónustaveitanda og hafa ekki milligöngu um endurkröfur í þessum tilvikum.

     4.      Hverjar voru heildargreiðslur erlendra ferðamanna fyrir veitta heilbrigðisþjónustu á umræddu tímabili? Svar óskast sundurliðað eftir ári, heilbrigðisumdæmi og eftir því hvort ferðamenn koma frá landi innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Heildargreiðslur erlendra ferðamanna námu hjá fyrrgreindum stofnunum á árinu 2016 rúmum 778 millj. kr. og höfðu aukist á tímabilinu um 76% en hafa ber í huga að ekki tókst að ná í gögn hjá tveimur stofnunum og sú þriðja hafði eingöngu yfir að ráða gögnum sem ná yfir hluta tímabilsins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.