Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 548  —  415. mál.
Flutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar


um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum.


Flm.: Katla Hólm Þórhildardóttir, Smári McCarthy, Halldóra Mogensen, Guðjón S. Brjánsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Logi Einarsson, Eygló Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla með það að markmiði að heimspeki verði skyldufag á báðum skólastigum innan fjögurra ára.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt af Þór Saari o.fl. á 140. (185. mál) og 141. löggjafarþingi (203. mál) og er nú endurflutt. Markmið tillögunnar er að efla kennslu í heimspeki og að kenndur verði að meðaltali einn áfangi á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einn áfangi á hverju skólaári á framhaldsskólastigi.
    Í skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna haustið 2008 kom fram að nauðsynlegt væri að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Heimspeki og siðfræði ættu að vera skyldufag á öllum skólastigum og þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð á því sviði. Mikilvægt er að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla jafnframt að gagnrýninni hugsun sem er ein meginforsenda þess að borgarar geti verið virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Með því að auka kennslu í heimspeki í grunn- og framhaldsskólum er lagður grundvöllur að því að styrkja skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir. Þar sem um allnokkra breytingu á aðalnámskrám er að ræða er talið æskilegt að gefa ráðherra allt að fjögur ár til að innleiða fagið í námskrár.
    Á 141. löggjafarþingi var samsvarandi þingmál sent til umsagnar og var tillögunni vel tekið. Í umsögnum var m.a. hvatt til þess að hugað yrði að möguleikum kennara á öllum skólastigum til endurmenntunar á sviði heimspeki og heimspekikennslu auk þess sem menntun í heimspeki yrði ríkur þáttur kennaramenntunar í framtíðinni. Þá var vísað til þess að heimspekikennsla í skólum styddi það markmið að efla gagnrýna hugsun og siðferði.