Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 561  —  428. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.


Flm.: Smári McCarthy, Gunnar Hrafn Jónsson, Gunnar I. Guðmundsson, Björn Leví Gunnarsson, Katla Hólm Þórhildardóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Einar Brynjólfsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa lagafrumvarp sem miði að því að stofnað verði embætti tæknistjóra ríkisins sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins, samþættingu vefkerfa og forritunarviðmóta og stöðlun þróunarferla og gæðastýringar við hugbúnaðargerð, hafi utanumhald um opin gögn, annist ráðgjöf um upplýsingaöryggismál og hafi umsjón með útboðum sem snúa að hugbúnaðarþróun og öðru því sem snýr að því að tryggja gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi.

Greinargerð.

Vandamál ósamhæfðrar tölvuvæðingar.
    Ör tölvuvæðing stjórnkerfisins á undanförnum árum hefur leitt til þess að flestar ríkisstofnanir hafa þróað ýmiss konar sérhæfð hugbúnaðarkerfi til að geta sinnt hlutverki sínu betur en ella. Umræddur hugbúnaður er í mjög mismunandi ásigkomulagi. Sumu hefur ekki verið haldið við, öðru viðhaldið í mýflugumynd, og enn annað er í stöðugri þróun. Hugbúnaðurinn er þróaður á mismunandi málum, í mismunandi aðgerðasöfnum, sumt er verulega úrelt eða viðhaldi þess hefur verið hætt hjá framleiðanda. Mikill hluti hugbúnaðarins hefur öryggisgalla sem ekki hefur verið bætt úr, og vafalaust eru margir óþekktir gallar. Nánast ekkert af hugbúnaðinum hefur gæðahandbók, sjálfvirka prófun eða áætlun fyrir lagfæringar á þekktum göllum. Ýmsar ríkisstofnanir hafa gert sér grein fyrir þessu vandamáli og hafa leitast við að laga það með ýmsu móti en umræddar stofnanir hafa litla burði til að sinna hugbúnaðarþróun, enda er það ekki þeirra hlutverk. Þá eru verkefni oft boðin út, en verktakar hafa þá gjarnan yfirburðasamningsstöðu gagnvart verkkaupum, því þótt stofnanir ríkisins viti vel hvaða sérhæfðu vandamál þau leitast við að leysa er sjaldan þekking innan húss til að tryggja góða tæknilega framkvæmd.
    Dæmi um tölvukerfi sem hafa á undanförnum misserum skapað vandamál vegna viðhaldsleysis, lélegs viðmóts eða skorts á gæðaprófun eru lyfjagagnagrunnur landlæknisembættisins og reikniverk Hagstofu Íslands fyrir útreikning á verðbólgu.

Tillaga að lausn.
    Með því að stofna embætti tæknistjóra ríkisins, sem hliðstæða stofnun við t.d. ríkisskattstjóra og landlækni, þ.e. sértæka fagstofnun sem fari með yfirumsjón málaflokks fyrir hönd ríkisins, mætti byrja að laga ýmis þau vandamál sem eru talin til að hér að franan með samstilltum aðgerðum til að skipuleggja þróun hugbúnaðar hjá ríkisstofnunum. Slík stofnun myndi búa til umhverfi þar sem stærðarhagkvæmni næðist. Þá myndi tækniþekking innan húss gera það að verkum að hægt væri að gera nákvæmari og betri samninga við verktaka, betra aðhald væri tryggt í samskiptum við verktaka og hægt væri að leysa tæknileg ágreiningsatriði hraðar og í meiri sátt.
    Slík stofnun myndi ekki endilega sjá um hugbúnaðarþróunina sem slíka enda væri hægt ýmist að bjóða hana út eða vinna hana innan húss hjá viðkomandi stofnun eftir atvikum. En stofnunin myndi geta aðstoðað við þarfagreiningu og gerð tæknilegrar kerfislýsingar, lagt til viðmótshönnunarviðmið, gagnasnið og fleiri tæknileg atriði, veitt aðstoð við að gera útboðsgögn (í samvinnu við Ríkiskaup eftir atvikum), og tryggt að í endanlegri lausn sé hugað að þvernýtum kröfum (e. cross-functional requirements) á borð við öryggi, opin gögn, opin gagnasnið, opin forritunarviðmót (e. API, application programming interface), einingaprófun, o.þ.h.
    Þá gæti embættið rekið frjálsan hugbúnaðargrunn fyrir hugbúnaðarkerfi ríkisins og nýtt samlegðarkrafta við sambærileg embætti erlendis.

Erlendar hliðstæður.
    Hliðstæðar stofnanir hafa orðið algengari á undanförnum árum. Í Bandaríkjunum hefur verið sett á stofn tækniteymi undir nafninu 18F 1 , og í Bretlandi eru Government Digital Services (GDS) 2 með yfirumsjón tækniþróunar. Í báðum tilfellum hafa þau fyrst og fremst gegnt leiðsagnar- og stefnumótunarhlutverki, en þó einnig þróað töluvert af hugbúnaði og sérlausnum innan húss.
    GDS hefur þannig til að mynda þróað kerfisþróunarstaðal fyrir stafrænar þjónustur (Digital Service Standard), hönnunarstaðal fyrir notandaviðmót (Government Service Design Manual), og fleira í þeim dúr. Þá hefur stofnunin búið til miðlæg kerfi fyrir auðkenningu og sendingu tilkynninga til viðskiptavina stofnanna.
    18F hefur einnig þróað ýmsa staðla, ásamt því að aðstoða alríkisstofnanir við að leysa flókin notandaviðmótsvandamál og gera gagnasöfn á borð við fjármálagögn, gögn um kosningaúrslit, og hagræn gögn aðgengilegri fyrir almenning.

Sparnaður og skilvirkni.
    Helsti kostur stofnunar af þessu tagi er mikill sparnaður, vegna þess að kostnaður við hugbúnaðarþróun og viðhald hugbúnaðar minnkar og einnig vegna þess að hægt er að draga verulega úr tvíverknaði. T.d. má gera ráð fyrir því að hundruð klukkutíma í hverju hugbúnaðarþróunarverkefni fari í hönnun og útfærslu notandaviðmóts, að hluta til vegna þess að enginn samræmdur viðmótsstaðall er til fyrir ríkisstofnanir. Með staðli og viðeigandi gagnasöfnum og forsniðum mætti stytta tímann sem fer í viðmótshönnun niður í tugi klukkutíma að jafnaði.

1     18f.gsa.gov
2     www.gov.uk/government/organisations/government-digital-service