Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 585  —  236. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (frestun réttaráhrifa o.fl.).


Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Frumvarp dómsmálaráðherra á þingskjali 328 miðar að tvenns konar breytingum á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Hin fyrri snýst um að festa í sessi efni bráðabirgðaákvæðis sem bætt var við lögin með 1. gr. laga nr. 124/2016, um breytingu á útlendingalögum, sem Alþingi samþykkti 22. desember 2016. Ákvæðið felur í sér að kæra á brottvísun útlendings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd frestar ekki réttaráhrifum hennar hafi Útlendingastofnun metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og einstaklingurinn kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki. Síðari breytingin stafar af því að í 2. mgr. 70. gr. laga nr. 80/2016 höfðu orðið þau mistök að hjúskapur og sambúð voru lögð að jöfnu sem skilyrði fyrir umsókn um dvalarleyfi hvað tímalengd varðar. Þar sem ljóst þykir að það hafi ekki vakað fyrir löggjafanum að víkja frá fyrri framkvæmd er lagt til að málsgreinin er varðar tímalengd eigi einungis við um sambúð.
    Minni hlutinn styður breytinguna sem 2. gr. frumvarpsins felur í sér en bendir á að nauðsynlegt sé að kanna hvort ákvæðið hafi haft áhrif á umsóknir einhverra einstaklinga og jafnvel leitt til brottvísunar ellegar að umsóknum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar sem staðið hefur styttra en ár, hafi verið hafnað. Hafi svo verið ber að sjálfsögðu að rétta hlut þeirra sem fyrir því urðu eins fljótt og auðið er.
    Minni hlutinn er andvígur efni 1. gr. frumvarpsins og leggst eindregið gegn samþykkt hennar. Röksemdir gegn efni greinarinnar og áhrifum hennar á umsækjendur um alþjóðlega vernd eru skilmerkilega raktar í umsögn Rauða krossins á Íslandi um frumvarpið og einnig í athugasemdum Lögmannafélags Íslands og samtakanna No Borders Iceland. Telur minni hlutinn að taka beri fullt tillit til athugasemda þessara aðila og ábendinga um ágalla 1. gr. frumvarpsins.
    Áréttað skal að hugmyndin um svokölluð „örugg ríki“ er í meira lagi vafasöm og engan veginn byggð á traustum grunni, sérstaklega ekki þegar kemur að málefnum ýmissa minnihlutahópa í þeim löndum sem um ræðir. Með því að beita skírskotuninni til „öruggra ríkja“ og nota hana til að senda fólk af landi brott án viðhlítandi málsmeðferðar er í raun verið að hafna því, á grundvelli ríkisfangs, að meta umsóknir stórra hópa umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það verður þannig vegabréf umsækjanda sem ræður úrslitum um það hvort hlýtt er á mál hans en ekki kringumstæður viðkomandi. Minni hlutinn andmælir eindregið bæði hugmyndinni um lista „öruggra ríkja“ eins og hún er útfærð og beitingu hennar í samhengi útlendingalaga. Breytingartillaga meiri hlutans um að í stað „öruggra ríkja“ skuli standa „öruggra upprunaríkja“ breytir engu um afstöðu minni hlutans til ákvæðisins.
    Í meðförum nefndarinnar á málinu komu fram þau sjónarmið að ákvæðinu um að áfrýjun frestaði ekki réttaráhrifum væri einungis beitt ef að umsækjandi er frá „öruggu ríki“ ásamt mati Útlendingastofnunar á því að umsóknin sé „bersýnilega tilhæfulaus“. Þó komu ekki fram fullnægjandi upplýsingar um hvaða matsatriði stofnunin notast við til þess að meta hvort umsóknir um alþjóðlega vernd séu „bersýnilega tilhæfulausar“. Að mati minni hlutans eru þessi lagaákvæði ekki fullnægjandi til þess að tryggja viðunandi réttarvernd umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ákvæðin skapa því hættu á því að íslensk stjórnvöld muni við framkvæmd þeirra geta brotið á grundvallarréttindum flóttamannaréttar, þ.e. banni við endursendingum.
    Minni hlutinn telur það afar mikilvægt að ákvarðanir stjórnvalds á borð við Útlendingastofnun séu kæranlegar þannig að slíkir aðilar öðlist ekki alvald í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd enda gengi það þvert gegn íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum og fæli að sjálfsögðu í sér hættu á að fólk sem hér hefur sótt um vernd yrði sent úr landi í kringumstæður sem geta reynst því háskalegar og voru ástæða flótta þess hingað. Áform þau um að fella niður eða skerða möguleika umsækjenda um alþjóðlega vernd til að vísa niðurstöðu til æðra stjórnvalds sem felast í 1. gr. frumvarpsins eru ávísun á ótæka málsmeðferð og geta einnig leitt til þess að mannréttindi verði brotin á umsækjendum.
    Samandregið telur minni hlutinn að aldrei megi taka ákvörðun sem varðar öryggi umsækjenda um alþjóðlega vernd með öðru móti en að hagir og staða hvers og eins séu metnir í hverju tilviki fyrir sig. Þá telur minni hlutinn að ekki megi víkja frá því grundvallaratriði að stjórnvaldsúrskurðir séu kæranlegir og að kæra fresti sjálfkrafa réttaráhrifum uns endanlegur úrskurður liggur fyrir.
    Minni hlutinn telur ekki fært að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir og leggur til eftirfarandi

BREYTINGU:

    1. gr. orðist svo:
    35. gr. laganna orðast svo:
    Ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skv. 36., 37. eða 39. gr. skuli yfirgefa landið kemur ekki til framkvæmda fyrr en ákvörðunin er endanleg á stjórnsýslustigi nema umsækjandi sjálfur óski þess að hverfa úr landi.

    Guðjón Brjánsson, áheyrnarfulltrúi Samfylkingarinnar, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 4. apríl 2017.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
frsm.
Gunnar Hrafn Jónsson. Andrés Ingi Jónsson.