Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 586  —  126. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (tilkynningar um brot á fjármálamarkaði).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Minni hluti nefndarinnar leggst gegn breytingartillögu meiri hlutans. Reynslan sýnir að afhjúpendur taka á sig verulega áhættu þegar þeir upplýsa um brot og geta m.a. átt á hættu að missa atvinnu sína og verða fyrir öðru fjárhagslegu tjóni. Vissulega er til bóta að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gætt sé trúnaðar um þá sem tilkynna um brot og að þeir njóti verndar gegn misrétti. Í framkvæmd er þó útilokað að girða með öllu fyrir að nöfn þeirra leki út og að þeir sæti hefndaraðgerðum eða öðru misrétti. Nafnlausar tilkynningar geta verið eina aðferð fólks til að upplýsa um brot án þess að leggja sig sjálft í hættu.
    Nefndin fékk starfsmenn Persónuverndar á sinn fund sem bentu á að nafnlausar tilkynningar gætu gert rannsókn mála erfiðari og leitt til þess að röngum tilkynningum væri beitt til að koma höggi á aðra innan fyrirtækis. Minni hlutinn bendir á móti á að líkur eru á að tilkynningum fækki ef ekki eru aðgengilegar leiðir til að koma nafnlausum tilkynningum á framfæri sem aftur dregur úr líkum á því að upp komist um brot. Ótvíræð gögn um brot tala sínu máli þótt þeim sé komið til skila nafnlaust. Tilraunir til að koma höggi á menn með því að afhenda rangar upplýsingar eru aftur á móti ólíklegar til að skila árangri. Þá verður ekki litið fram hjá því að ef ekki er skýr heimild til að tilkynna nafnlaust um brot innan fyrirtækja gætu nafnlausar ábendingar fremur ratað til fjölmiðla, sem er varla í þágu viðkomandi fyrirtækja.
    Meiri hluti nefndarinnar bendir á að brottfall vísana í nafnlausar tilkynningar feli ekki í sér bann við nafnlausum tilkynningum. Brottfallið getur aftur á móti leitt til þeirrar rangtúlkunar að fjármálafyrirtækjum verði óheimilt að greiða fyrir nafnlausum tilkynningum, svo sem með vefgáttum fyrir nafnlausar tilkynningar. Það er ekki að ástæðulausu sem önnur Evrópuríki á borð við Danmörku og Þýskaland hafa sérstök ákvæði um ferla fyrir nafnlausar tilkynningar.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 30. mars 2017.

Smári McCarthy.