Ferill 294. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 587  —  294. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Hildi Knútsdóttur um fæðuöryggi.


     1.      Hefur mat á fæðuöryggi þjóðarinnar og ógnir við það verið þáttur í mótun aðgerða til að stuðla að þjóðaröryggi eða efla almannavarnir og öryggismál landsmanna og hvað getur einkum sett fæðuöryggi í uppnám?
    Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum er mörkuð af almannavarna- og öryggismálaráði. Forsætisráðherra gegnir formennsku í ráðinu en að öðru leyti heyra málefni almannavarna undir innanríkisráðuneytið, sbr. 12. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 1/2017, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ráðið er fyrst og fremst samstarfsvettvangur stjórnvalda og stofnana um mótun og framkvæmd stefnu í almannavarna- og öryggismálum, en samvinnu í ráðinu er hins vegar ekki ætlað að hafa áhrif á skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta samkvæmt samnefndum forsetaúrskurði.
    Í stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017 er m.a. vikið að matvæla- og fæðuöryggi hér á landi og tilgreindar mögulegar ógnir í því sambandi, svo sem náttúruhamfarir, lokun á innflutning matvæla o.fl. Í stefnunni eru jafnframt skilgreindar aðgerðir sem stjórnvöld hyggjast ráðast í næstu þrjú árin í því skyni að tryggja matvæla- og fæðuöryggi. Markmiðið með aðgerðunum er að nægar birgðir séu til af heilnæmum mat og ómenguðu neysluvatni í a.m.k. sex mánuði hér á landi. Samkvæmt stefnunni er það á ábyrgð atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd en verkefnastjórn er í höndum Matvælastofnunar. Stjórnarmálefni þessu tengd heyra í stórum dráttum undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti samkvæmt fyrrgreindum forsetaúrskurði, nánar tiltekið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu starfa milli ráðherra, svo sem málefni matvælaöryggis og matvælaframleiðslu, sjávarútvegur, landbúnaður o.s.frv.
    Alþingi samþykkti á síðasta ári lög nr. 98/2016, um þjóðaröryggisráð, sem m.a. er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Samkvæmt þingsályktunartillögu 13. apríl 2016 mun áðurgreind stefna stjórnarvalda í almannavarna- og öryggismálum verða hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, en þar verður m.a. tekið mið af ógnum sem tengjast fæðu- og matvælaöryggi.

     2.      Til hversu langs tíma eru að jafnaði til birgðir af matvælum hjá matvöruverslunum og birgjum þeirra?
    Í fyrrnefndri stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum er m.a. kveðið á um að halda skuli yfirlit um birgðastöðu matvæla hér á landi. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti geri viðbragðs- og neyðaráætlun vegna matvælaskorts, m.a. í samráði við helstu birgja. Aðgerðir stjórnvalda í þessu sambandi taka mið af því, eins og áður greinir, að nægar birgðir séu til af heilnæmum mat og ómenguðu neysluvatni í a.m.k. sex mánuði. Upplýsingar um stöðu einstakra aðgerða í stefnunni má nálgast í stöðuskýrslu almannavarna- og öryggismálaráðs, sem gefin var út 30. september 2016, en að öðru leyti er vísað á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á almannavörnum almennt til nánari upplýsinga.

     3.      Hvaða áætlanir liggja fyrir um að útvega matvæli fyrir almenning og dreifa þeim ef ekki er unnt að nálgast þau eftir venjulegum leiðum?
    Áðurgreindar viðbragðs- og neyðaráætlanir skulu m.a. taka mið af dreifingu matvæla í kjölfar atburða sem ógnað geta fæðuöryggi hér á landi, svo og hvernig halda megi matvælaframleiðslu gangandi við þær aðstæður. Að öðru leyti vísast til svars við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar hvað varðar stöðu einstakra aðgerða í stefnunni og ábyrgðar á málefnasviðinu.

     4.      Telur ráðherra að nægilega vel sé séð fyrir fæðuöryggi og að áætlanir um viðbrögð við öryggisbresti á þessu sviði séu traustar og viðeigandi?
    Eins og framangreind svör bera með sér vinnur atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti að tilgreindum verkefnum í því skyni að treysta fæðuöryggi í samræmi við stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum ríkisins. Sú vinna verður að endingu hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ráðherra hefur fulla trú á því að sú vinna leiði til heildstæðrar stefnumörkunar og viðbragðsáætlana í fæðuöryggismálum hér á landi.