Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 589  —  167. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um málsmeðferð hælisleitenda samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.


    Ráðuneytið óskaði eftir athugasemdum frá Útlendingastofnun við eftirfarandi fyrirspurnum er lúta að málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Að frátöldu svari við 7. tölul. fyrirspurnarinnar sem snertir afstöðu ráðherra voru athugasemdir Útlendingastofnunar og eftir atvikum kærunefndar útlendingamála og stoðdeildar ríkislögreglustjóra hafðar til hliðsjónar þegar svar ráðherra var unnið.

     1.      Hvernig ganga íslensk stjórnvöld úr skugga um að hælisleitandi sem sendur er til fyrsta móttökuríkis samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni eigi ekki á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð?
    Dyflinnarreglugerðin er hluti af sameiginlegu kerfi Evrópusambandsins vegna umsókna um alþjóðlega vernd (e. Common European Asylum System). Dyflinnarsamstarfið var í fyrstu byggt á samningi aðildarríkja Evrópusambandsins um ábyrgð á meðferð beiðna um alþjóðlega vernd sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990. Íslensk stjórnvöld samþykktu Dyflinnarreglugerðina 6. maí 2003, sbr. auglýsingu nr. 14/2003 sem birt var í Stjórnartíðindum. Árið 2013 tók svo gildi ný Dyflinnarreglugerð, nr. 604/2013/EB, en meginmarkmiðið með henni var að bæta réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þessi reglugerð hefur öðlast gildi hér á landi.
    Markmið Dyflinnarsamstarfsins er að skýrar reglur séu í gildi í aðildarríkjunum um meðferð á umsóknum um alþjóðlega vernd. Á það ekki síst við til að koma í veg fyrir að vafi leiki á um hvar umsókn skuli tekin til meðferðar. Tilgangurinn er að tryggja að umsókn um alþjóðlega vernd sé tekin til meðferðar í einu aðildarríkjanna og koma þar með í veg fyrir að umsækjandi sé sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Reglugerðin hefur að geyma viðmið um hvaða ríki ber ábyrgð á efnislegri umfjöllun á umsókn um alþjóðlega vernd. Um þau viðmið er fjallað í III. kafla hennar. Reglugerðin lýtur þannig eingöngu að því að ákveða hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun umsóknar en ekki að því hvernig meta beri umsóknina efnislega.
    Líkt og að framan greinir voru gerðar breytingar á viðmiðunum árið 2013. Tilgangurinn var m.a. sá að koma til móts við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og Mannréttindadómstóls Evrópu (MSE) en að auki var leitast við að tryggja betur réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Séu fyrir hendi slíkir gallar á móttöku eða málsmeðferð umsækjanda í því aðildarríki sem ábyrgðina ber að hætta sé á að viðkomandi verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. réttindaskrár Evrópusambandsins, sem er sambærileg 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, skal aðildarríkið þar sem umsækjandi er staddur taka umsóknina til meðferðar þótt það beri ekki ábyrgð á slíkri meðferð, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Á hinn bóginn er rétt að undirstrika að með aðild að Dyflinnarsamstarfinu hefur Ísland skuldbundið sig til að framfylgja og virða þær reglur sem í því felast. Mikilvægt er að hafa í huga að eingöngu ber að beita framangreindu ákvæði í þeim tilvikum sem hætta er á að umsækjandi verði fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Önnur framkvæmd gæti leitt til þess að verulega drægi úr virkni þess kerfis sem samstarfið er byggt á. Það er mikilvægt svo að jafnræðis sé gætt við málsmeðferð. Óskýr framkvæmd græfi undan trúverðuleika Dyflinnarsamstarfsins sem byggir á þeirri grundvallar forsendu að aðildarríkin fari öll eftir reglunni um öruggt þriðja ríki og að þangað sé heimilt og öruggt að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd.
    Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ber að kanna sérstaklega í öllum málum, sem falla undir gildissvið Dyflinnarreglugerðinnar, þær aðstæður sem bíða umsækjanda í viðtökuríki áður en tekin er ákvörðun um endursendingu. Framangreind sjónarmið endurspeglast ekki aðeins í reglugerðinni heldur einnig í 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu og framkvæmd Mannréttindadómstólsins svo dæmi séu tekin. Í framangreindum ákvæðum laga og alþjóðasamninga er að finna bann við því að vísa flóttamanni úr landi eða endursenda hann til ríkis þar sem lífi hans eða frelsi er ógnað, m.a. vegna kynþáttar hans, þjóðernis eða stjórnmálaskoðana. Þá skal ekkert aðildarríki vísa úr landi, endursenda eða framselja mann til annars ríkis ef verulegar ástæður eru til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum eða annarri vanvirðandi meðferð. Þegar lagt er mat á hvort slíkar aðstæður séu fyrir hendi ber þar til bærum yfirvöldum að hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, þar á meðal hvort í ríki því sem um ræðir viðgangist gróf, augljós eða stórfelld mannréttindabrot.
    Til þess að ganga úr skugga um að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi ekki á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð kannar Útlendingastofnun, í hverju máli fyrir sig, hvaða aðstæður bíða viðkomandi í viðtökuríki. Er þá einkum horft til þátta er lúta að húsnæði, aðbúnaði og þjónustu sem og þeim málsmeðferðarúrræðum sem í boði eru. Við rannsókn Útlendingastofnunar er stuðst við upplýsingar úr alþjóðlegum skýrslum um viðtökuríki, t.d. frá AIDA (Asylum Information Database), Human Rights Report (United States Department of State) og skýrslur og leiðbeiningar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (Refworld). Þá er viðtal Útlendingastofnunar og kærunefndar við umsækjanda hluti af rannsókn máls og hefur þann megintilgang að varpa ljósi á aðstæður umsækjanda í viðtökuríki, hafi hann dvalið þar áður, og þá málsmeðferð sem honum hefur þegar staðið til boða. Líkt og rakið er nánar í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar hefur Útlendingastofnun einnig samband við stjórnvöld í viðtökuríki, telji stofnunin tilefni til, í því skyni að fá frekari upplýsingar um málsmeðferðarúrræði eða þær aðstæður sem bíða umsækjanda við komuna til viðkomandi lands.
    Vert er að geta þess að frá árinu 2010 hafa hælisleitendur, sem koma frá Grikklandi eða sem Grikkland ber ábyrgð á samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, ekki verið sendir þangað frá Íslandi. Ákvörðun um þetta var tekin m.a. vegna Mannréttindadómstóls Evrópu og ákvörðunar annarra Norðurlanda sökum aðstæðna í Grikklandi. Þeirri ákvörðun hefur ekki verið breytt en mögulega þyrfti að endurskoða hana á næstunni. Þá eru aðstæður í Ungverjalandi einnig til sérstakrar skoðunar hjá Útlendingastofnun. Fram kemur í skýrslu innanríkisráðuneytisins frá 2015 að endursendingar til Ítalíu brjóti almennt ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins. Þá hefðu ítölsk stjórnvöld komið á góðri almennri framkvæmd í málefnum sérstaklega viðkvæmra einstaklinga. Niðurstaða skýrslunnar var þó sú að úrbóta væri enn þörf að einhverju leyti og að ítölsk yfirvöld tækjust nú á við margvíslegar áskoranir í málaflokknum. Því skyldi hvert mál athugað sérstaklega þegar viðkomandi teldist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Skýrsla ráðuneytisins hér um er á eftirfarandi vefslóð:
www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2015/Sky%CC%81rsla-um-endursendingar-haelisleitenda-til-I%CC%81tali%CC%81u_04.12.15---loka.pdf.
    Að öðru leyti eru öll mál skoðuð á einstaklingsgrundvelli og með tilliti til aðstæðna hvers og eins.

     2.      Hvernig er samskiptum íslenskra stjórnvalda við stjórnvöld í móttökuríki háttað þegar hælisleitandi er sendur til fyrsta móttökuríkis?
    Þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd kemur til landsins tekur lögregla af honum fingraför og leitar að samsvörun í Eurodac (evrópskum gagnagrunni með fingraförum þeirra sem sótt hafa um hæli eða farið ólöglega yfir ytri landamæri) til að sjá hvort viðkomandi hafi sótt um alþjóðlega vernd annars staðar eða komið ólöglega yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins. Hafi umsækjandi sótt um vernd annars staðar eða komið ólöglega yfir ytri landamæri aðildarríkja Dyflinnarreglugerðnnar sendir Útlendingastofnun beiðni um viðtöku til þess aðildarríkis, sbr. 18. gr. reglugerðarinnar. Það sama á við ef umsækjandi er með vegabréfsáritun eða heimild til dvalar í viðtökuríki, sbr. 12. og 21. gr. reglugerðarinnar.
    Viðtökuríkið hefur tiltekinn frest til að svara framangreindum beiðnum um viðtöku eða allt frá tveimur vikum og upp í tvo mánuði. Oft gerist það í beiðnum að spurningum er beint að viðtökuríki, t.d. um skilríki eða hvort umsækjandi hafi undirgengist aldursgreiningu, svo dæmi séu tekin. Slíkar beiðnir eru sendar í gegnum svokallað „DubliNet“ og er það gert með því að útbúa rafrænt pdf-skjal, undirritað og dulkóðað sem síðan er sent með tölvupósti.
    Þegar kemur að flutningi hefur stoðdeild ríkislögreglustjóra samband við yfirvöld í viðtökuríki sem sjá um að undirbúa móttöku umsækjanda. Þurfi að senda sérstakar upplýsingar um umsækjanda, t.d. um heilsufar eða annað sem skipt gæti máli, er það gert í gegnum DubliNet-kerfið.

     3.      Hvernig gæta íslensk stjórnvöld þess að hælisleitandi sem sendur er til fyrsta móttökuríkis hljóti þar húsaskjól og viðurværi?
    Eins og segir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er Dyflinnargerðin hluti af sameiginlegu kerfi Evrópusambandsins (CEAS, Common European Asylum System). Ísland er einungis aðili að Dyflinnarsamstarfinu, en aðrar meginstoðir CEAS eru tilskipun 2013/33/EB um lágmarkskröfur varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd, tilskipun 2013/32/EB frá 26. júní 2013 um lágmarkskröfur til málsmeðferðar í aðildarríkjum við veitingu og afturköllun á stöðu flóttamanns og tilskipun 2011/95/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða fólk sem að öðru leyti þarfnast alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar.
    Þessum tilskipunum er ætlað að tryggja að meðferð og móttaka hælisleitenda innan aðildarríkjanna sé sambærileg á milli ríkja og mælir í þeim tilgangi fyrir um lágmarksviðmið sem aðildarríkjunum ber að uppfylla. Í 33. gr. Dyflinnargerðarinnar er mælt fyrir um eftirlitskerfi, viðbúnað og krísustjórn þannig að aðildarríkjum er falið að vinna náið með European Asylum Support Office (EASO) til að koma í veg fyrir að móttökukerfi þeirra láti undan vegna mikils fjölda umsókna sem gæti leitt til þess að móttökukerfin stæðust ekki álag og kröfur sem til þeirra eru gerðar. Ísland á að geta treyst því að ríki sem hafa innleitt þessa tilskipun tryggi a.m.k. lágmarksréttindi hælisleitenda.
    Þá eru í þeim skýrslum, sem Útlendingastofnun notar við mat á því hvort öruggt sé að senda umsækjanda um vernd til viðtökuríkis, upplýsingar um hvaða úrræði standa umsækjendum til boða í viðkomandi ríki, t.d. varðandi málsmeðferð, húsnæði og annað viðurværi. Sé umsækjandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu, t.d. vegna heilsufars, eru upplýsingar um það sendar til viðtökuríkis sem fær þá svigrúm til þess að undirbúa komu umsækjanda.
    Eins og að framan greinir kannar Útlendingastofnun hvort gallar séu á málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í ábyrgu viðtökuríki eða á móttökuskilyrðum og hvort hætta sé á að umsækjandi verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Reynist hætta á slíku ber Íslandi að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar, þótt það beri ekki ábyrgð á málsmeðferðinni, sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

     4.      Hvernig bregðast íslensk stjórnvöld við ef hælisleitandi sem sendur er til fyrsta móttökuríkis er félaus, skilríkjalaus og á ekki í nein hús að venda í móttökuríkinu?
    Líkt og að framan er rakið í svari við 1. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar er umsækjandi ekki sendur til ábyrgs viðtökuríkis ef rökstudd ástæða er til að ætla að kerfisgallar séu á málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd eða á móttökuskilyrðum, þannig að hann endi félaus eða eigi ekki í nein hús að venda. Mál viðkomandi er þá tekið yfir af íslenskum stjórnvöldum. Sé umsækjandi skilríkjalaus útbýr Útlendingastofnun svokallaðan „laissez-passer“ við flutning, sem er byggður á þeim upplýsingum sem umsækjandi hefur gefið við komuna til landsins. Skilríkið hefur þann eina tilgang að viðkomandi geti ferðast til ábyrgs viðtökuríkis og miðast gildistíminn, yfirleitt tveir dagar, við það. Viðtökuríkið útbýr venjulega svokallað hælisleitendakort sem hefur þýðingu varðandi hælisumsóknina og þá þjónustu sem henni fylgir. Svipuð kort eru útbúin hjá Útlendingastofnun en fylgja umsækjanda ekki áfram, enda inniheldur kortið aðeins upplýsingar um málsnúmer og það nafn sem umsækjandi hefur gefið upp hér á landi.
    Í Dyflinnarmálum eru umsækjendur oftast skilríkjalausir þegar þeir koma hingað til lands, eigi þeir skilríki eru þau oft í vörslu ábyrgs viðtökuríkis. Einstaklingur er því raunverulega alltaf skilríkjalaus við komu, enda fylgir það hælisumsókn að þurfa að afhenda skilríki til yfirvalda. Séu umsækjendur með skilríki sem þeir hafa framvísað hér á landi afhendir lögregla skilríkin þeim sem tekur við umsækjanda í viðtökuríki.

     5.      Hefur það gerst að hælisleitandi sem sendur er til fyrsta móttökuríkis hafi verið skilinn þar eftir allslaus og án þess að eiga í nein hús að venda? Ef svo er, hvað skýrir slíkan verknað?
    Eins og fram hefur komið er umsækjandi ekki sendur til ábyrgs viðtökuríkis nema alþjóðlegar skýrslur og aðrar upplýsingar sem Útlendingastofnun hefur undir höndum bendi til þess að móttökuskilyrði í viðtökuríki séu fullnægjandi. Umsækjandi er fluttur til viðtökuríkis í fylgd lögreglu sem gengur úr skugga um að hann komist í hendur þar til bærrra stjórnvalda í móttökuríki. Stjórnsýslumáli lýkur hérlendis þegar umsækjandi er kominn í hendur yfirvalda í ábyrgu viðtökuríki. Útlendingastofnun hefur upplýsingar um að í einstaka tilvikum hafi umsækjendum verið afhentur listi yfir hótel eða gistiheimili sem þeim stendur til boða að nýta sér við komuna til viðtökuríkis. Í þeim tilvikum þurfa umsækjendur sjálfir að bera sig eftir gistingunni en heyrst hefur af tilfellum þar sem misskilnings hefur gætt og umsækjendur skilið það sem svo að þeir ættu ekki í nein hús að venda. Útlendingastofnun telur þó ekki að um kerfisbundið vandamál sé að ræða.

     6.      Hvaða lög og verklagsreglur liggja að baki framkvæmd á brottvísun hælisleitenda til fyrsta móttökuríkis og eru verklagsreglurnar aðgengilegar almenningi?
    Reglur um brottvísun og frávísun útlendings er einkum að finna í XII. kafla útlendingalaga, bæði hvað varðar brottvísunina sjálfa og reglur um takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Hafa ber í huga að ákveðin réttaráhrif fylgja bæði brottvísun og frávísun. Brottvísun hefur þau réttaráhrif að útlendingi sem dvelst hérlendis skal vísað úr landi til heimalands eða annars ríkis þar sem hann getur sýnt fram á löglega heimild til dvalar og honum bönnuð endurkoma í tiltekinn tíma eða að fullu og öllu til Íslands og alls Schengen-svæðisins.
    Það skal tekið fram að brottvísun sem felur í sér endurkomubann á Schengen-svæðið er ekki beitt í málum sem falla undir Dyflinnarreglugerðina. Í þeim tilvikum þegar útlendingur hefur ekki rétt til dvalar hér á landi og ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er viðkomandi endursendur til þess ríkis sem ber ábyrgð á umsókn viðkomandi um vernd.
    Framkvæmd flutnings til ábyrgs viðtökuríkis er í höndum stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Þegar til framkvæmdar á ákvörðun kemur mætir lögregla á dvalarstað viðkomandi. Allt verklag miðar að því að fyllstu mannúðar og öryggis sé gætt. Ef um börn er að ræða er haft samband við barnaverndaryfirvöld í því bæjarfélagi sem um ræðir og þeim tilkynnt um aðgerðir. Ríkislögreglustjóri gaf út verklagsreglur 8. febrúar 2006 um frávísanir og brottvísanir erlendra ríkisborgara. Eru reglurnar aðgengilegar öllum lögregluþjónum á innra neti lögreglunnar. Á vefsíðu Útlendingastofnunar má einnig finna verklag um fylgd úr landi eftir synjun en því verklagi er beitt, eftir því sem við á, í Dyflinnarmálum. 1
    Með tilkomu nýrra útlendingalaga er nauðsynlegt að endurskoða framangreindar verklagsreglur og er vinna við það þegar hafin hjá ráðuneytinu og ríkislögreglustjóra. Þá hafa einnig verið til skoðunar hjá ráðuneytinu verkferlar varðandi flutning úr landi í þeim tilvikum þegar um fjölskyldur með börn er að ræða. Þá liggja fyrir drög að samningi við Mannréttindaskrifstofu Íslands um eftirlit með framkvæmd flutnings en starfsfólk hefur þegar farið í allnokkrar ferðir á vegum Landamærastofnunar Evrópu sem óháður eftirlitsaðili.

     7.      Telur ráðherra að framkvæmd við brottvísun hælisleitenda og flutning þeirra til fyrsta móttökuríkis samræmist alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirgengist og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna?
    Ráðherra telur Dyflinnarreglugerðina ekki brjóta í bága við þær alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, þar á meðal flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Það er jafnframt afstaða ráðherra að við framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar, þ.m.t. mat og málsmeðferð stjórnvalda, þ.e. Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og ríkislögreglustjóra, þurfi að taka mið af, auk ákvæða reglugerðarinnar, ákvæðum íslenskra laga, þeim alþjóðasamningum sem við eiga, sem og fordæmum íslenskra dómstóla og Mannréttindadómstóls Evrópu. Fær ráðherra ekki annað séð en að svo sé án þess að einstaka mál hafi verið skoðuð sérstaklega og að einstaklingar almennt njóti viðeigandi og réttlátrar málsmeðferðar hér á landi.
    Ísland á aðild að ýmsum mannréttindasamningum sem gerðir hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og Evrópuráðsins. Þessir samningar hafa m.a. áhrif á réttarstöðu útlendinga en þar er að finna ákvæði sem mæla fyrir um tiltekin réttindi þeirra. Þeir þjóðréttarsamningar sem koma helst til álita eru á vettvangi SÞ. Alþjóðasamningur um stöðu flóttamanna (flóttamannasamningurinn), alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis, alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Á vettvangi Evrópuráðsins kemur mannréttindasáttmáli Evrópu helst til skoðunar. Þjóðréttarsamningar á sviði mannréttinda eru venjulega ekki bundnir við ríkisborgara eða þá sem búsettir eru í viðkomandi aðildarríki og eiga því einnig við um útlendinga sem þar dveljast.
    Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur m.a. að geyma ákvæði um heimild til að vísa útlendingi úr landi en í 4. gr. samningsviðauka nr. 4 er lagt bann við því að hópar útlendinga séu gerðir landrækir. Í þessu felst að meta verður hvert mál sjálfstætt og því verður útlendingi ekki vísað úr landi af þeirri ástæðu einni að hann sé hluti af ákveðnum hópi útlendinga. Í 1. gr. samningsviðauka nr. 7 eru réttarfarsreglur um brottvísun útlendinga en þar segir að útlendingi, sem löglega er búsettur á landsvæði ríkis, skuli ekki vísað þaðan nema eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög. Einnig skal útlendingi vera heimilt að bera fram ástæður gegn brottvísun sinni, fá mál sitt tekið upp að nýju og fá erindi sitt flutt í þessu skyni fyrir réttu stjórnvaldi eða þeim sem það stjórnvald tilnefnir. Heimilt er þó að vísa útlendingi brott áður en hann neytir þessara réttinda þegar slík brottvísun er nauðsynleg vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis. Þrátt fyrir að MSE viðurkenni framangreinda heimild ríkja til þess að vísa útlendingi úr landi ber ríkjum m.a. að tryggja að endursending umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis brjóti ekki í bága við ákvæði sáttmálans. Í þessu samhengi koma ákvæði 3. gr. og 8. gr. helst til álita. 3. gr. sáttmálans verndar einstaklinga fyrir pyndingum, svo og ómannlegri og vanvirðandi meðferð og 8. gr. felur í sér rétt sérhvers manns til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu og heimilis. Þess ber að geta að samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins brýtur aðildarríki gegn 3. gr. sáttmálans ef það endursendir einstakling til ríkis þar sem ætla má að til staðar sé raunveruleg hætta á því að hann verði fyrir meðferð sem brýtur gegn ákvæðinu. Sé slík hætta fyrir hendi er aðildarríkjum óheimilt að endursenda viðkomandi.
    Í samningi SÞ gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er vikið að réttindum útlendinga. Skv. 3. gr. samningsins skal ekkert aðildarríki vísa úr landi, endursenda eða framselja mann til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum. Þegar ákveðið er hvort slíkar aðstæður séu fyrir hendi skulu þar til bær yfirvöld hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, þar á meðal hvort í ríki því sem um ræðir viðgangist gróf, augljós eða stórfelld mannréttindabrot.
    Breytingarnar sem gerðar voru á Dyflinnarreglugerðinni árið 2013 á þeim viðmiðum sem reglugerðin hafði að geyma voru til að koma til móts við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og Mannréttindadómstóls Evrópu, sem vísað hefur til þess að endursending hælisleitenda til einstakra ríkja geti verið í andstöðu við ákvæði þjóðréttarsamninga vegna aðstæðna í viðkomandi móttökuríki. Breytingin laut m.a. að því að séu til staðar slíkir gallar á móttöku eða málsmeðferð umsækjenda í því aðildarríki sem ber ábyrgð á umsókn að hætta sé á að umsækjandi verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð skal aðildarríkið þar sem umsækjandi er staddur taka umsóknina til meðferðar. Framangreind grundvallarregla endurspeglast í núgildandi 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, en í 1. mgr. ákvæðisins eru rakin þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo að stjórnvöld megi hafna því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, þar á meðal að umsækjanda hafi verið veitt alþjóðleg vernd eða annars konar vernd í öðru ríki. Er þá gerð krafa um að um virka vernd sé að ræða í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna (e. „effective protection“). Í öðru lagi er í a-lið ákvæðisins að finna regluna um fyrsta griðland. Er þar kveðið á um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og getur veitt honum vernd. Í ákvæðinu koma fram skilyrði þess að ákvæðið eigi við, þar á meðal að stjórnvöld hafi gengið úr skugga um að verði umsækjandi sendur til ríkisins þurfi hann ekki að óttast ofsóknir eða að verða sendur áfram til heimalands síns í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement) eða þar sem hætta er á ómannúðlegri eða vansæmandi meðferð.
    Við endursendingar á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins ber aðildarríkjum því ávallt að leggja sjálfstætt mat á hvort meðferð hælisumsókna og móttaka og aðbúnaður hælisleitenda í móttökuríki sé í samræmi við ákvæði þjóðréttarskuldbindinga, þar á meðal flóttamannasamninginn og mannréttindasáttmála Evrópu, og þá að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna hverju sinni. Eru þær aðstæður skoðaðar í hverju máli fyrr sig og sjálfstætt mat lagt á þær hjá Útlendingastofnun og eftir atvikum hjá kærunefnd útlendingamála. Þó nokkrir fordæmisgefandi dómar hafa einnig verið kveðnir upp af íslenskum dómstólum.

     8.      Hefur það áhrif á ákvarðanatöku um brottvísun og flutning til fyrsta móttökuríkis hvort um hinsegin hælisleitanda er að ræða og hvernig meta íslensk stjórnvöld stöðu slíkra hælisleitenda með tilliti til þess að þeim er víða hætta búin?
    Líkt og að framan er rakið kannar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála alltaf og í öllum málum, sem falla undir gildissvið Dyflinnarreglugerðarinnar, þær aðstæður sem bíða umsækjanda í viðtökuríki.
    Þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd ber fyrir sig að hann þurfi á vernd að halda vegna þess að hann sé hinsegin skoða bæði Útlendingastofnun og eftir atvikum kærunefnd útlendingamála aðstæður og stöðu hinsegin fólks í viðtökuríki. Meðal þess sem litið er til er löggjöf viðkomandi ríkis og hvort hún kveði á um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar. Þá er skoðað hvort lögregla og önnur yfirvöld í viðtökuríki geti veitt einstaklingnum raunhæfa vernd gegn mismunun eða öðru áreiti vegna kynhneigðar. Þær skýrslur sem Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafa m.a. lagt til grundvallar við mat sitt eru skýrslur bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttindamála (Human Rights Reports: www.state.gov/j/drl/rls/hrrpt). Þá eru aðstæður hinsegin einstaklinga í hæliskerfi viðtökuríkis skoðaðar, m.a. hvað varðar búsetu og þjónustu. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafa við það mat sitt m.a. stuðst við skýrslur sem ECRE (European Council on Refugees and Exiles) hefur gefið út og eru aðgengilegar á eftirfarandi vefslóð: www.asylumineurope.org. Í skýrslunum er að finna umfjöllun um viðkvæma einstaklinga í málsmeðferð. Þá styðjast Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála alla jafna við skýrslur frá hinum ýmsu mannréttindasamtökum við töku ákvarðana í Dyflinnarmálum, svo sem skýrslur Amnesty International og Human Rights Watch.
    Í hverju máli fer fram mat á því hvort einstaklingur teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Meðal þeirra þátta sem geta haft áhrif á slíkt mat er kynhneigð. Þá eru persónulegar aðstæður einstaklings alltaf lagðar til grundvallar, þar á meðal hvaða áhrif það hefur haft fyrir einstaklinginn að vera hinsegin og hvort hann hafi sætt ofbeldi vegna þess.
    Telji Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála aðstæður í viðtökuríki óviðunandi er umsækjandi ekki sendur til viðkomandi ríkis og mál hans verður þá tekið til efnismeðferðar á Íslandi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þess ber einnig að geta að viðkomandi hefur alltaf rétt til að bera mál sitt undir íslenska dómstóla telji hann að réttur hans sé ekki virtur eða að hnökrar séu á málsmeðferð, m.a. hvað rannsókn Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála snertir. Þá geta einstaklingar kært ríki til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir meint brot á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og eftir atvikum lagt fram beiðni til dómstólsins um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna Mannréttindadómstóls Evrópu. Í því felst beiðni um að framkvæmd ákvörðunar um að vísa einstaklingi úr landi sé frestað þar til Mannréttindadómstóllinn hefur lokið skoðun sinni á málinu.
1     utl.is/index.php/fylgd-ur-landi-eftir-synjun