Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 590  —  292. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Hildi Knútsdóttur um fræbanka.


     1.      Er til fræbanki með fræjum þeirra nytjajurta sem ræktaðar eru hérlendis?
    Varðandi varðveislu fræs af nytjaplöntum þá á Ísland fullgilda aðild að NordGen (Nordiskt Genresurscenter) sem er norræn stofnun um varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði, þ.m.t. varðveislu nytjaplantna fyrir landbúnað og er stofnunin fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.
    Stofnunin rekur virkan fræbanka í höfuðstöðvum sínum í Alnarp á Skáni (active collection), varasafn í Årslev Danmörku (base collection) og öryggissafn í fræhvelfingunni á Svalbarða (safety collection).
    Sýni af öllum helstu nytjaplöntum á Íslandi og ættingjum þeirra eru geymd í fræbanka NordGen. Á Íslandi er auk þess varðveitt safn af tegundum sem fjölga verður með stiklingum, eins og rabbarbara (í Grasagarðinum í Reykjavík).

     2.      Telur ráðherra slíkan fræbanka nauðsynlegan til að tryggja fæðuöryggi Íslendinga gagnvart mögulegum náttúruhamförum, mögulegu hruni vistkerfa af völdum loftslagsbreytinga, landnámi nýrra tegunda sem hér munu þrífast með hlýnandi loftslagi eða möguleikanum á því að innflutningur á sáðfræi geti raskast af einhverjum orsökum?
    Aðaltilgangur varðveislu fræs í fræbanka NordGen er að sjá til þess að tegundir og yrki deyi ekki út og hverfi ef áföll verða, þ.m.t. náttúruhamfarir. Magn sem þar er varðveitt er ekki hugsað sem birgðir til beinnar notkunar í ræktun og þarf að fjölga fræi með ræktun ef til þess kemur að nýta þurfi birgðir NordGen.
    Fræbirgðir vegna hagvarna Íslands og aðgerðir tengdar þeim er víðtækt mál og þarf að huga að mun fleiru en fræbirgðum, ekki síst birgðum af kjarnfóðri sem reglulega er flutt inn. Innlent fóður er að mestu fjölærar grastegundir sem ekki þarf að sá árlega. Einærar tegundir eru bygg, grænfóðurtegundir og matjurtir. Fræ af nær öllum nytjategundum er ræktað erlendis þar sem fræþroskun er ekki örugg í ræktun hér. Fræ tapar spírunarhæfni við geymslu og ef hugmyndin er að safna fræi í fræbanka þarf að endurnýja birgðir nokkuð ört nema aðstæður til geymslu séu því vandaðri (sbr. NordGen). Innflutningsfyrirtæki eiga einhverjar fræbirgðir milli ára en sennilega er engin regla á því og ekki til yfirlit þar um.
    Það kann að koma til þess að skoða þurfi hvort tryggja þurfi hagvarnir Íslands enn frekar og þá sérstaklega með tilliti til matvælaframleiðslu. Það er mjög stórt og kostnaðarsamt mál þar sem skoða þarf marga þætti þessara mála í samhengi.