Ferill 281. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 603  —  281. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um förgun jarðvegsefna vegna byggingarframkvæmda.


     1.      Hvaða reglur gilda um förgun jarðvegsefna sem falla til við byggingarframkvæmdir?
    Uppgrafinn jarðvegur sem er ómengaður og notaður í byggingarstarfsemi á staðnum þar sem hann var grafinn upp fellur ekki undir lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. mgr. 2. gr. Mengaður jarðvegur sem grafinn er upp fellur hins vegar almennt undir gildissvið laganna. Þar sem mengaður jarðvegur fellur undir gildissvið laga um meðhöndlun úrgangs gilda almenn ákvæði laganna um þann jarðvegsúrgang eins og gilda um annan úrgang, svo sem um að allur úrgangur skuli færður til viðeigandi meðhöndlunar, um að óheimilt sé að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát og um starfsleyfisskyldu þeirrar starfsemi sem felst í meðhöndlun úrgangs. Ekki eru í gildi sérstakar reglur um meðhöndlun jarðvegsúrgangs en öllu jafna telst ómengaður jarðvegur vera svokallaður óvirkur úrgangur, en það er sá flokkur úrgangs sem minnst mengunarhætta fylgir (óvirkur úrgangur, almennur úrgangur, spilliefni). Sú flokkun stjórnar miklu um hversu ítarlegar kröfur eru gerðar um förgun jarðvegs, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs.

     2.      Hversu margir förgunarstaðir fyrir slík jarðvegsefni eru á höfuðborgarsvæðinu?
    Á höfuðborgarsvæðinu er einn förgunarstaður sem hefur heimild til að taka við jarðvegsúrgangi, þ.e. urðunarstaður Sorpu bs. í Álfsnesi. Hins vegar eru staðir sem hafa heimild til að nýta jarðvegsúrgang til landmótunar, svo sem til að fylla upp í gamlar námur eða önnur sár í landinu. Landmótun úr úrgangi telst vera endurnýting, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Nánast allur jarðvegur og annað jarðefni (steinar, möl og sandur). sem Umhverfisstofnun berast upplýsingar um í gegnum skráningar rekstraraðila á öllu landinu, fara í endurnýtingu. Árið 2015 voru rúmlega 391 þúsund tonn notuð sem fyllingarefni eða á annan sambærilegan hátt í endurnýtingu á meðan 71 tonn var urðað (þar af voru 17 tonn af menguðum jarðvegi).

     3.      Hafa umhverfisáhrif af akstri vegna förgunar slíks jarðvegs verið metin?
    Ráðuneytinu og Umhverfisstofnun er ekki kunnugt um að það hafi verið gert.

     4.      Telur ráðherra að endurnýta mætti jarðveg sem fellur til við byggingarframkvæmdir í auknum mæli og draga þannig úr neikvæðum umhverfisáhrifum af förgun hans og ef svo er, hvernig?
    Eins og kemur fram í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar er nánast allur jarðvegur og annað jarðefni sem Umhverfisstofnun berast upplýsingar um endurnýttur. Árið 2015 var aðeins 0,018% af jarðvegi urðaður og lítur ráðuneytið því ekki á þetta sem aðkallandi verkefni.

     5.      Telur ráðherra að draga mætti úr kostnaði vegna förgunar slíks jarðvegs og ef svo er, hvernig?
    Eins fram kemur í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar er nánast allur jarðvegur og annað jarðefni sem Umhverfisstofnun berast upplýsingar um endurnýttur. Getur því ekki verið um mikinn kostnað að ræða við förgun þess jarðvegs sem þó til fellur.