Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 604  —  278. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um nýjan hljóðvistarstaðal.


     1.      Hvernig var staðið að gerð og innleiðingu nýs staðals um hljóðvist, ÍST 45:2016?
    Staðallinn ÍST 45:2016 Hljóðvist – Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis var staðfestur í núverandi mynd og gefinn út af Staðlaráði Íslands að frumkvæði stjórnar Byggingarstaðlaráðs. Áður varðaði staðallinn einungis íbúðarhúsnæði en í útgáfunni frá 2016 var atvinnuhúsnæði bætt við. Byggingarstaðlaráð sá um endurskoðun á staðlinum og hafði m.a. samráð við Mannvirkjastofnun. Þá var frumvarp að staðlinum sent til stofnunarinnar til umsagnar áður en hann var sendur til almennrar umsagnar á meðal hagsmunaaðila. Allir staðlar eru auglýstir til umsagnar áður en þeir eru staðfestir sem staðlar af Staðlaráði Íslands. ÍST 45:2016 tók gildi 1. maí 2016.
    Samsvarandi staðlar eru í gildi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Við endurskoðun á ÍST 45 var annars vegar tekið mið af nýlegri endurskoðun norska staðalsins sem varðaði aðallega atvinnuhúsnæði og hins vegar af framkomnum ábendingum og óskum ýmissa hagsmunaaðila varðandi m.a. íbúðarhúsnæði.
    Staðlar eru til frjálsra afnota. Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum og er ekki á vegum stjórnvalda. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans í reglugerð.
    Vísað er til staðalsins ÍST 45:2016 í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

     2.      Voru kostnaðaráhrif nýs staðals, svo sem á byggingu húsnæðis, metin áður en staðallinn tók gildi og ef svo er, hver var niðurstaða þess mats?
    Kostnaðaráhrif staðla eru ekki metin áður en þeir eru staðfestir og gefnir út af Staðlaráði Íslands enda eru þeir samdir í samráði hagsmunaaðila og fara í almennt kynningar- og umsagnarferli. Við gerð staðla er markmiðið að ná sammæli um innihald þeirra. Því voru kostnaðaráhrif þeirra breytinga sem gerðar voru á staðlinum ÍST 45:2016 ekki metin.
    Þess skal getið að breytingarnar sem gerðar voru á staðlinum ÍST 45:2016 leiða almennt til lækkunar á byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis enda var það inntak þeirra ábendinga sem borist höfðu til Byggingarstaðlaráðs vegna staðalsins og komið var til móts við með endurskoðun hans.