Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 607  —  178. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Viktori Orra Valgarðssyni um æskulýðsmál.


     1.      Hvernig er háttað vinnu að æskulýðsstefnu íslenskra stjórnvalda, hvaða efnislegum breytingum hefur stefnan tekið frá því að drög að henni voru lögð fram í nóvember 2012 og hvenær má eiga von á því að stefnan öðlist formlega gildi?
    Stefnumótun Æskulýðsráðs var lögð fram og kynnt fyrir ráðherra um mitt ár 2014 og er gildistími hennar frá 2014–2018. Unnið var að stefnumótuninni frá árinu 2012 með víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Í kjölfarið vann ráðuneytið í samstarfi við Æskulýðsráð aðgerðaáætlun um framkvæmd stefnumótunarinnar.
    Stefnumótun Æskulýðsráðs og tillögur um aðgerðir hafa verið sendar til allra sveitarfélaga, æskulýðsfélaga og annarra sem vinna með börnum og ungmennum. Unnið er því eftir aðgerðaáætlun sem er byggð á stefnumótuninni frá 2014. Ráðuneytið mun í samstarfi við Æskulýðsráð nýta gildistíma stefnumótunar Æskulýðsráðs til að undirbúa stefnu ráðuneytisins í málaflokknum.

     2.      Hefur ráðherra fylgt eftir ábendingum sem beint var til ráðuneytisins í mars 2013 í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ráðstöfun framlaga til æskulýðsmála? Hefur ráðuneytið gert rekstrarsamninga við helstu æskulýðssamtök landsins og þá hvaða samtök?
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar koma fram ábendingar um að gera samninga við stærstu æskulýðssamtökin og afla viðeigandi og samræmdra fjárhags- og starfsemisupplýsinga. Ráðuneytið hefur frá árinu 2014 gert samninga við Bandalag íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Ungmennafélag Íslands um framlög á fjárlögum. Einnig hefur verið gerður samningur við heildarsamtök æskulýðsfélaga, Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvanginn um rekstrarframlög af safnliðum ráðuneytisins. Fram að þessu hafa allir samningar á sviði æskulýðsmála verið til eins árs í senn. Í hverjum samningi er kallað eftir samræmdum upplýsingum um ráðstöfun framlaga, greinargerð, starfsáætlun og endurskoðuðum ársreikningum. Samkvæmt samningi eru fundir haldnir a.m.k. árlega um framkvæmd samningsins. Með breyttu vinnulagi vegna laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, verður stefnt að samningum til lengri tíma en eins árs í senn og æskulýðssamtökunum ber að skila stefnuskjali þar sem markmið, aðgerðir og mælikvarðar eru samræmd með tilliti til stefnu ráðuneytisins í málaflokknum. Ráðuneytið hyggst með þessu ná fram enn betri eftirfylgni, skýrari tölfræði og að starfsemi æskulýðssamtakanna styðji enn frekar við markmið ráðuneytisins á málefnasviði 19.