Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 609  —  209. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um ábendingar til barnaverndarnefnda um ofbeldi gegn börnum.    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margar ábendingar bárust árlega til barnaverndarnefnda um ofbeldi gegn börnum síðustu tíu ár?

Tilkynningar um ofbeldi 2007–2016.
    Spurt er um fjölda ábendinga um ofbeldi gegn börnum. Í þessu svari er vísað til tilkynninga sem hafa borist barnaverndarnefndum á árabilinu 2007 til 2016. Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda tilkynninga á árunum 2007 til 2016 og hlutfall af heildarfjölda tilkynninga sem berast barnaverndarnefndum, skipt í þrjá flokka: Tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Á árinu 2009 hófst sérstök skráning á tilkynningum um heimilisofbeldi sem hluti af tilkynningum um tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi. Kyngreinanlegar upplýsingar liggja ekki fyrir fyrr en frá árinu 2012.
    Tilkynningar um ofbeldi voru 1.590 árið 2007 en 10 árum síðar voru þær 2.638. þær voru 18,9% allra tilkynninga árið 2007 en orðnar 28,3% tíu árum síðar.
    Á hinn bóginn er ekki um beina línulega fjölgun tilkynninga á milli ára, t.d. voru þær 2.025 árið 2011 en rúmlega 1.800 árið 2012, 2.252 árið 2013 og tæplega 2.000 árið 2014.
    Flestar tilkynningar um ofbeldi voru vegna tilfinningalegs/sálræns ofbeldis eða 1.642 á árinu 2016 og hafa ekki verið fleiri áður. Á tímabilinu 2007–2015 voru þær frá 571 tilkynninga árið 2008 upp í tæplega 1.300 tilkynningar árið 2015. Þessi fjölgun tilkynninga vegna tilfinningalegs/sálræns ofbeldis síðustu ár skýrist einkum af fjölgun tilkynninga vegna heimilisofbeldis, en skráning þeirra hófst á árinu 2009. Tilkynningar um heimilisofbeldi voru frá tæplega 267 tilkynningum upp í 441 tilkynningu á árunum 2009–2013. En frá árinu 2014 hefur þeim fjölgað úr 516 tilkynningum í 807.
    Fæstar tilkynningar um líkamlegt ofbeldi bárust árið 2012 eða 432 en árið 2016 voru þær 574 talsins.
    Tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi voru flestar á árinu 2013 eða 582 en þær voru 452 á árinu 2016. Þessar tilkynningar hafa verið á bilinu 430–470 flest árin.
    Heildarfjöldi tilkynninga um ofbeldi er ívið lægri en samanlagður fjöldi tilkynninga, þ.e. tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Þetta skýrist af því að í einstökum málum hefur verið tilkynnt um fleiri en eina tegund ofbeldis gegn barni.
    Fjölgun tilkynninga um ofbeldi gegn börnum er hugsanlega vísbending um aukna samfélagslega ábyrgð gagnvart velferð barna og aukið traust til barnaverndarstarfs, en ekki staðfesting á auknu ofbeldi gegn börnum.
    Rétt er að benda á að tölur fyrir árið 2016 eru fengnar með annarri aðferð en tölur fyrir árin 2007 til 2015. Fyrir árið 2016 eru tölur fengnar með samlagningu úr sískráningu, sem barnaverndarnefndir skila mánaðarlega til Barnaverndarstofu. Tölurnar fyrir árin 2007 til 2015 eru fengnar úr samtölublöðum/ársskýrslueyðublöðum sem nefndirnar skila með heildartölum fyrir hvert ár. Upplýsingarnar fyrir árið 2016 gætu því breyst lítillega þegar ársskýrslueyðublöðin berast Barnaverndarstofu, en þeim skal skila 1. maí ár hvert.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.