Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 628  —  459. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002 (eignarhald).


Flm.: Katrín Jakobsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 49. gr. b laganna kemur ný grein, er verður 49. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Eignaraðild aðila í lágskattaríki.

    Aðili sem telst heimilisfastur í lágskattaríki eða er beint eða óbeint í endanlegri eigu aðila sem telst heimilisfastur í lágskattaríki má ekki eiga hlut í fjármálafyrirtæki.
    Ríki eða lögsagnarumdæmi telst lágskattaríki þegar tekjuskattur af hagnaði aðila, sem um ræðir, er lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á hann hefði hann verið heimilisfastur á Íslandi. Ekki skal þó telja annað aðildarríki samnings um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar lágskattaríki.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt aðila hæfilegan frest til að selja hlut sem samræmist ekki ákvæði þessu. Hlutafjáreign sem samræmist ekki ákvæði þessu fylgir ekki atkvæðisréttur.

2. gr.

    Á eftir 24. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 49. gr. c um eignaraðild aðila í lágskattaríki.

3. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekið verði fyrir það með lögum að aðilar sem eru heimilisfastir í lágskattaríki eigi hlut í fjármálafyrirtæki. Skilgreiningin á lágskattaríki miðast við 2. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Aflandsfélög og skattaskjól hafa mikið verið til umræðu í íslensku samfélagi undanfarin missiri af eðlilegum orsökum. Þeir sem nýta sér aflandsfélög á lágskattasvæðum gera það yfirleitt til að greiða ekki af þeim eðlilegan skatt í heimalandinu eða til að leyna eignum sínum enda er að jafnaði ekki gerð krafa um gerð og birtingu ársreikninga í dæmigerðum skattaskjólum og er það hluti þeirrar miklu leyndar sem þar ríkir um fjármálastarfsemi.
    Þegar aflandsfélög á lágskattasvæðum eru orðin verulega stór hluti af fjármálakerfinu hefur það þau áhrif að eðlilegir skattar skila sér ekki til samneyslunnar, þeir skila sér ekki til reksturs velferðarkerfisins, menntakerfisins og annarra mikilvægra samfélagslegra verkefna. Þannig ógnar nýting aflandsfélaga velferðarríkinu. Aðrar afleiðingar eru þær að eignarhald verður ógagnsætt. Það þýðir í raun og veru að eignarhald mikilvægra fyrirtækja og félaga, á borð við banka og önnur fjármálafyrirtæki, er almenningi hulið sem dregur um leið úr eðlilegum áhrifum almennings á lykilstofnanir í samfélaginu.
    Skattaskjólum fjölgaði til muna og umfang þeirra jókst samfara auknu frelsi til fjármagnsflutninga og alheimsvæðingu fjármálamarkaða á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Jafnframt tóku alþjóðastofnanir og einstök ríki að berjast gegn þessari starfsemi og neikvæðum afleiðingum hennar. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, leiddi baráttuna framan af og markaði rit stofnunarinnar, Harmful Tax Competition: An Emerging Global Issue, sem út kom árið 1998, allnokkur tímamót á þessu sviði. Þar var leitast við að bregðast við þeirri stöðu sem alþjóðastarfsemin hafði leitt af sér fyrir skattheimtu aðildaríkjanna sem var orðin leiksoppur alþjóðlegrar samkeppni en hafði fram til þessa mótast af skilgreiningum og stefnumörkun stjórnvalda í hverju ríki. Meðal þess sem fjallað var um í fyrrnefndu riti voru skattaskjól og skilgreiningar á þeim, sbr. bls. 21–25, og skrá um slíka staði.
    Efnahags- og framfarastofnunin og ýmis ríkjasamtök henni tengd, svo sem G7-, G8- og G20-hóparnir, hafa skipulagt og tekið þátt í aðgerðum til að vinna gegn starfsemi skattaskjóla, einkum með því að stuðla að samningum um upplýsingagjöf við þau. Í þessu skyni varð til vettvangurinn Global Forum on Transparency and Exchange of Information for Tax Purposes innan OECD þar sem mótuð var stefna um aðgerðir gegn skattaskjólum og fylgst með framvindu ráðstafana sem miða að því að uppræta hin skaðlegu áhrif sem af þeim hljótast. 1
    Árið 2006 tóku Norðurlönd að vinna að samræmingu aðgerða sinna gegn skattaskjólum á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Eins og raunin er með ráðstafanir á vegum OECD felast aðgerðir norrænu ríkjanna einkum í gerð tvíhliða samninga við ríkin sem hýsa skattaskjólin um upplýsingagjöf varðandi eignir og skattskil. Alþjóðasamstarf Íslands í skattamálum á vettvangi OECD, norrænu ráðherranefndarinnar og ýmissa annarra aðila hefur leitt til þess að gerðir hafa verið fjölmargir samningar um upplýsingagjöf vegna skattamála á undanförnum árum.
    Ísland hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi OECD, bæði í svokölluðum JITSIC-hópi (Joint International Tax Shelter Information & Collaboration) og BEPS-verkefni (Base Erosion and Profit Shifting). Ísland er auk þess aðili ásamt öðrum norrænum ríkjum að gerð upplýsingaskiptasamninga og hafa yfir fjörutíu slíkir samningar verið gerðir á undanförnum árum við ríki sem hafa talist til svokallaðra skattaskjóla. Þá náðist samstaða á Alþingi haustið 2016 um ýmsar úrbætur á löggjöf til að berjast gegn skattsvikum og voru m.a. samþykkt ákvæði sem taka á svokallaðri þunnri eiginfjármögnun. Ekki var þó gengið svo langt að banna eignarhald íslenskra fyrirtækja á aflandssvæðum.
    Nú liggur fyrir að hægt er að rekja eignarhald eins þeirra aðila sem hyggjast kaupa hlut í Arion banka hf. til aflandssvæða og vekur það spurningar um hvort lög og reglur tryggja nægjanlega vel gagnsætt eignarhald og þar með heilbrigt fjármálakerfi. Hér er því lagt til að slíkt eignarhald í fjármálafyrirtækjum verði hreinlega bannað. Tiltekið er að þetta eigi við um aðila með heimilisfesti í lágskattaríki eða beint eða óbeint í endanlegri eigu aðila sem er heimilisfastur í lágskattaríki. Tilgangurinn er að tryggja gagnsætt eignarhald á fyrirtækjum sem eru þjóðhagslega mikilvæg og varða almenning og atvinnulíf í landinu en gagnsætt eignarhald hlýtur að vera undirstaða heilbrigðs fjármálakerfis.

1     Sbr. www.oecd.org/tax/transparency/.