Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 643  —  465. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (viðvera endurskoðenda á aðalfundum).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Í stað orðanna „Í félögum, sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum“ í 3. málsl. 1. mgr. 107. gr. laganna kemur: Í lögaðilum sem er skylt að kjósa endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til meðferðar frumvörp um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, þar sem lagt er til að endurskoðendum lífeyrissjóða og hlutafélaga verði skylt að svara fyrirspurnum sjóðfélaga eða hluthafa um reikningsskil og fjárhagsleg málefni sjóðanna eða félaganna á ársfundum eða hluthafafundum (63. og 64. mál).
    Með tilliti til ábendinga Félags löggiltra endurskoðenda varðandi frumvörpin leggur nefndin til að gerð verði breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, í stað breytinga á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um hlutafélög. Í 3. málsl. 1. mgr. 107. gr. laga um ársreikninga segir nú að í félögum, sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, skuli endurskoðendur sitja aðalfundi. Nefndin leggur til að skyldan verði víkkuð út og látin ná til allra lögaðila sem er skylt að kjósa sér endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki, sbr. 96. og 98. gr. laganna. Skv. 2. mgr. 107. gr. laga um ársreikninga skulu endurskoðendur svara fyrirspurnum á aðalfundi um ársreikning þann sem til umfjöllunar er og þeir hafa áritað eða undirritað. Með breytingunni er tryggara að endurskoðandi verði viðstaddur aðalfund og geti því svarað fyrirspurnum um ársreikninginn.
    Nefndin leggur fram nýtt frumvarp í stað þess að leggja til breytingar á fyrrgreindum frumvörpum þar sem um breytingu á öðrum lögum er að ræða.