Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 686  —  335. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um sérstakan húsnæðisstuðning.


     1.      Hversu mörg sveitarfélög hafa sett sér reglur um sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga?
    Tíu sveitarfélög hafa sett sér reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og birt þær í B-deild Stjórnartíðinda. Sveitarfélögin eru Reykjavík, Fjarðabyggð, Kópavogur, Hafnarfjörður, Akureyri, Skagaströnd, Mosfellsbær, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur og Blönduós.
    Þá hafa 26 sveitarfélög sett sér reglur um sérstakan húsnæðisstuðning sem birtar eru á heimasíðu þeirra: Garðabær, Seltjarnarnesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar, Borgarbyggð, Stykkishólmur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær, Ísafjarðarbær, Sveitarfélagið Skagafjörður, Norðurþing, Langanesbyggð, Dalvíkurbyggð, Fljótsdalshérað, Ásahreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Vestmannaeyjabær, Sveitarfélagið Ölfus, Árborg og Sveitarfélagið Hornafjörður.

     2.      Hvernig fylgist ráðuneytið með því að sveitarfélög setji sér reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og hvernig eru sveitarfélögin upplýst um leiðbeinandi reglur ráðueytisins þar um?
    Ráðuneytið hefur ekki sérstakt eftirlit með því að sveitarfélög setji sér reglur en bregst við ef bent er á að reglur skorti. Öllum sveitarfélögum voru send drög að leiðbeinandi reglum ráðuneytisins til umsagnar í nóvember 2016. Endanleg útgáfa reglnanna var svo birt á vef ráðuneytisins 30. desember 2016. Því til viðbótar sendi ráðherra öllum forsvarsmönnum sveitarfélaga og félagsmálastjórum ábendingu varðandi framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings þann 11. apríl sl. þar sem m.a. er vísað í leiðbeinandi reglur ráðuneytisins.

     3.      Eru einhver sveitarfélög með reglur sem stangast á við leiðbeinandi reglur ráðuneytisins um þennan stuðning og ef svo er, hvaða sveitarfélög eru það?
    Með 32. gr. laga nr. 75/2016, um húsnæðisbætur, var gerð breyting á 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Frá og með 1. janúar 2017 er öllum sveitarfélögum skylt að veita sérstakan húsnæðisstuðning. Gefnar hafa verið út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings skv. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum. Leiðbeinandi reglum er ætlað að vera sveitarstjórnum og fastanefndum þeirra til aðstoðar við undirbúning að setningu reglna og markmið þeirra er að auka samræmi í opinberum húsnæðisstuðningi. Ákvæði leiðbeinandi reglna ráðuneytisins eru þó ekki bindandi fyrir sveitarfélög en þau hafa ákveðið val um hvernig þau útfæra stuðninginn. Þannig er þeim ekki skylt að hafa efnislega sömu reglur og þær sem birtast í leiðbeiningum ráðuneytisins en þó þurfa þær að uppfylla ákveðin skilyrði sem leiða af lögunum.
    Þar sem nú er kveðið á um sérstakan húsnæðisstuðning í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, í stað laga um húsnæðisbætur, ber að túlka ákvæði um sérstakan húsnæðisstuðning með hliðsjón af markmiði og tilgangi laganna sem er m.a. að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa. Sú þjónusta sem er veitt á grundvelli laganna er alltaf veitt á grundvelli mats á þörf fyrir viðkomandi þjónustu, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðning þarf því að byggjast á heildarmati á aðstæðum umsækjanda. Ekki nægir að meta hlutlæg tekju- og eignaviðmið, heldur þarf líka að meta framfærslubyrði og félagslegar aðstæður. Það getur leitt til þess að meiri eða minni þörf sé á stuðningi en hlutlægu viðmiðin gefa til kynna. Ef þessir þættir eru ekki metnir verður vandséð að sveitarfélag hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni við töku ákvörðunar um sérstakan húsnæðisstuðning.
    Við skoðun á reglum sveitarfélaganna, sem sett hafa reglur um sérstakan húsnæðisstuðning, er ljóst að flest sveitarfélögin þrengja skyldubundið mat með setningu hlutlægra viðmiða í reglur sínar. Þeim er heimilt að þrengja það upp að vissu marki enda setja leiðbeinandi reglur ráðuneytisins einungis fram fjárhæðir, tekju- og eignaviðmið, prósentutölur, stigafjölda og þess háttar til viðmiðunar. Í 1. gr. leiðbeinandi reglnanna eru sett fram markmið sérstaks húsnæðisstuðnings. Þar segir að sérstökum húsnæðisstuðningi sveitarfélaga sé ætlað að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað sökum lágra tekna/ lítilla eigna, þungrar framfærslubyrði og félagslegra aðstæðna. Í reglum einhverra sveitarfélaga er sérstakur húsnæðisstuðningur sagður einungis ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem leigja á almennum markaði og eru ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa og þungrar framfærslubyrðar, en ekki er vikið að þeim sem ekki eru færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna. Samkvæmt þessu fer ekki fram heildarmat á aðstæðum umsækjanda. Með þessu er ekki fylgt markmiði og tilgangi laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. En líkt og fyrr segir þarf ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðning að byggjast á heildarmati á aðstæðum umsækjanda.
    Í leiðbeinandi reglum ráðuneytisins eru sett fram í 1. mgr. 5. gr. skilyrði fyrir því að umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning teljist gild og verði tekin til meðferðar. Þar eru nefnd nokkur skilyrði. Í fyrsta lagi að umsækjandi hafi fengið samþykkta umsókn um húsnæðisbætur á grundvelli laga nr. 75/2016, um húsnæðisbætur. Í öðru lagi að umsækjandi sé orðinn 18 ára á umsóknardegi og eigi lögheimili í sveitarfélaginu þegar sótt er um. Í þriðja lagi að samningur, eða tilboð um samning, liggi fyrir um afnot af íbúðarhúsnæði sem er staðsett í sveitarfélaginu. Í fjórða lagi að félagsleg staða umsækjanda og fjölskyldu hans sé metin samkvæmt viðmiðum 6. gr. og nái tilteknum stigafjölda og í fimmta lagi að samanlagðar eignir umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, á næstliðnu ári séu ekki hærri en samkvæmt viðmiðum 9. gr. Svo segir í 2. mgr. 5. gr. að séu skilyrði af þessum toga sett í reglum sveitarfélags beri jafnframt að tilgreina farveg fyrir beiðnir um undanþágur frá skilyrðum. Ástæður sem geta réttlætt undanþágur eru m.a. að umsækjandi sé í húsnæðisleit og því liggi ekki fyrir samningur. Skilyrði þessi geta því ekki verið fortakslaus enda á ákvörðun að byggjast á heildarmati á aðstæðum umsækjenda. Þá geta undanþágur frá skilyrðum sem gilda um húsnæðisbætur, sbr. 10. gr. laga þar að lútandi, einnig verið tilefni til undanþágu frá skilyrðum í reglum sveitarfélags. Ekki er heimilt að setja reglur um lágmarkslengd búsetu í sveitarfélagi sem skilyrði fyrir því að umsókn verði tekin til meðferðar.
    Í reglum sveitarfélaganna er vikið að skilyrðum sem umsækjandi skal uppfylla svo umsókn hans verði samþykkt og að auki verða þau í flestum tilvikum að vera uppfyllt á meðan umsækjandi fær greiddan sérstakan húsnæðisstuðning. Skilyrðin eru þau sömu og leiðbeinandi reglurnar mæla fyrir um nema hvað skilyrðið um að félagsleg staða umsækjanda og fjöskyldu hans sé metin samkvæmt viðmiðum, sbr. 6. gr. leiðbeinandi reglna, skortir í reglur nokkurra sveitarfélaga. Þessar reglur stangast á við leiðbeinandi reglur ráðuneytisins og byggja ekki á heildarmati á aðstæðum umsækjanda líkt og krafa er gerð um. Það er því ljóst að þessi sveitarfélög verða að lagfæra reglur sínar svo þær standist skilyrðið um heildarmat á aðstæðum umsækjanda.

     4.      Hversu margir fá sérstakan húsnæðisstuðning hjá sveitarfélögum? Liggur fyrir mat ráðuneytisins á því hversu margir fá ekki sérstakan húsnæðisstuðning vegna þess að reglur sveitarfélagsins víkja frá leiðbeinandi reglum ráðuneytisins?
    Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu en samráðsnefnd um húsnæðismál hyggst óska eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum um mitt ár 2017 þegar nokkur reynsla er komin á framkvæmd þess fyrirkomulags sem tók við um áramót.

     5.      Hversu oft hefur samráðsnefnd um húsnæðismál fundað um eftirfylgni samkomulags ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga um endurskoðaða verka- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna breytinga á fyrirkomulagi húsnæðisstuðnings við leigjendur og leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins um sérstakan húsnæðisstuðning og úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis sveitarfélaga?
    Samráðsnefndin um húsnæðismál hefur haldið alls sex fundi frá því að hún var skipuð í byrjun september 2016.