Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 703  —  126. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (tilkynningar um brot á fjármálamarkaði).

(Eftir 2. umræðu, 4. maí.)


I. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 60. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 60. gr. a og 60. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (60. gr. a.)

Tilkynningar starfsmanna um brot í starfsemi fjármálafyrirtækis.

    Fjármálafyrirtæki skal hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna þess um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfsemi fjármálafyrirtækisins. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.
    Einstaklingur sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum og tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
    Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.

    b. (60. gr. b.)

Vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi fjármálafyrirtækis.

    Þeir sem falið hefur verið að taka við tilkynningum skv. 60. gr. a og sjá um vinnslu þeirra eru bundnir þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem lúta þagnarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.
    Fjármálafyrirtæki skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot skv. 60. gr. a gegn því að hann sæti misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Ef fjármálafyrirtæki brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
    Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.

2. gr.

    Á eftir 35. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna koma tveir nýir töluliðir og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því:
     36.      60. gr. a um skyldu til að hafa ferla sem uppfylla skilyrði ákvæðisins.
     37.      1. mgr. 60. gr. b um þagnarskyldu vegna tilkynningar um brot í starfsemi fjármálafyrirtækis.

II. KAFLI
Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum.

3. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins um brot í starfsemi aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

    Fjármálaeftirlitið skal hafa ferla til þess að taka við og fylgja eftir tilkynningum um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Ferlar skv. 1. mgr. skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan Fjármálaeftirlitsins. Ferlar skulu tryggja að tilkynningar séu skráðar og ef upplýsingar sem fram koma í tilkynningu má rekja beint eða óbeint til þess sem tilkynnti skulu þær fara leynt, nema skylt sé að veita slíkar upplýsingar lögum samkvæmt til lögreglu eða á grundvelli dómsúrskurðar. Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

4. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna orðast svo: Þagnarskylda. Tilkynningar um brot í starfsemi aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Upplýsingaskipti. Samskipti við eftirlitsstjórnvöld og Seðlabanka Íslands.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.