Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 707  —  128. mál.




Frumvarp til laga


um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.

(Eftir 2. umræðu, 4. maí.)


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um:
     a.      farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni með bifreiðum sem eru skráðar fyrir níu farþega eða fleiri, sbr. þó 7.–10. gr., þ.m.t. réttindi farþega og réttindi og skyldur þeirra sem sinna flutningunum,
     b.      farmflutninga á landi í atvinnuskyni með vélknúnum ökutækjum eða samtengdum ökutækjum þar sem leyfð heildarþyngd fer yfir 3,5 tonn og leyfilegur hámarkshraði ökutækjanna er 45 km á klst. eða meiri.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að mæla fyrir um veitingu undanþágu frá ákvæðum þessara laga hvað varðar flutninga vegna eðlis þeirra vara sem fluttar eru eða vegna þess hversu stutta vegalengd er um að ræða.

2. gr.
Yfirstjórn, stjórnsýsla o.fl.

    Ráðherra fer með yfirstjórn farþegaflutninga, farmflutninga og almenningssamgangna samkvæmt lögum þessum.
    Samgöngustofa fer með framkvæmd laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla settra samkvæmt þeim.
    Vegagerðin fer með skipulag almenningssamgangna í landinu.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
     1.      Almenningssamgöngur: Hvers konar reglubundnir farþegaflutningar í skilningi 13. tölul.
     2.      Almennt rekstrarleyfi: Leyfi skv. 4. gr. sem þeir sem stunda farþegaflutninga og farmflutninga gegn endurgjaldi þurfa að hafa.
     3.      Biðstöð: Allir staðir, aðrir en miðstöð, á akstursleið reglubundinna farþegaflutninga þar sem höfð er viðkoma samkvæmt tímaáætlun og farþegum er hleypt inn eða út.
     4.      Einkaréttur: Heimild rekstraraðila til að starfrækja reglubundna farþegaflutninga á tiltekinni leið eða leiðakerfi eða á tilteknu svæði sem útilokar aðra slíka rekstraraðila.
     5.      Farmflutningar í atvinnuskyni: Flutningur á hvers kyns farmi gegn endurgjaldi þegar flutningsþjónusta er seld sérstaklega og flytjandi starfar við flutningsþjónustu. Sem dæmi má nefna farmflutningafyrirtæki og vörubifreiðastjóra sem starfa sem verktakar við flutning á farmi.
     6.      Farmflutningar í eigin þágu: Flutningur farms þegar ekki er innheimt sérstakt gjald fyrir flutninginn. Sem dæmi má nefna flutning iðnfyrirtækis á eigin hráefni eða aðföngum með merktum bifreiðum, svo sem flutning á gosdrykkjum, flutning með mjólkurbifreiðum og flutning verktaka sem starfa við annað en flutningsþjónustu þótt flutningurinn sé hluti af verki t.d. verktaka við byggingar.
     7.      Farþegaflutningar í atvinnuskyni: Flutningur fólks gegn endurgjaldi þar sem farþeginn er ekki tengdur rekstri fyrirtækisins sem sér um flutninginn.
     8.      Farþegaflutningar í eigin þágu: Flutningur fólks sem ekki er innheimt gjald fyrir. Sem dæmi má nefna flutning starfsfólks til og frá vinnustað eða á milli vinnustaða ef bifreiðin er í eigu vinnuveitanda og ökumaður er starfsmaður hans; einnig flutning sjúklinga og vistmanna heilbrigðisstofnana, enda sé bifreiðin í eigu stofnunarinnar og ökumaður starfsmaður hennar.
     9.      Flutningastjóri: Einstaklingur sem starfar hjá fyrirtæki, þ.m.t. eigin einstaklingsfyrirtæki, eða annar einstaklingur, þar sem kveðið er á um slíkt, sem fyrirtækið tilnefnir í samningi og stýrir flutningastarfsemi fyrirtækisins í reynd og að staðaldri.
     10.      Flytjandi: Einstaklingur eða lögaðili, þ.e. flutningsaðili, sem býður almenningi reglubundinn eða óreglubundinn farþegaflutning eða farmflutning samkvæmt lögum þessum.
     11.      Miðstöð: Miðstöð, mönnuð starfsfólki, með t.d. innritunarborði, biðsal eða miðasölu, þar sem höfð er viðkoma á tiltekinni akstursleið samkvæmt tímaáætlun og farþegum er hleypt inn eða út.
     12.      Óreglubundnir farþegaflutningar: Aðrir farþegaflutningar en þeir sem eru tilgreindir í 13. og 14. tölul. Með óreglubundnum flutningum er að jafnaði átt við flutning á hópi fólks sem orðið hefur til fyrir frumkvæði viðskiptavinar eða leyfishafans sjálfs. Slíkar ferðir geta verið með reglulegu millibili án þess að teljast reglubundnir flutningar.
     13.      Reglubundnir farþegaflutningar: Fastar ferðir á ákveðinni leið samkvæmt fyrirframbirtri áætlun þar sem farþegum er hleypt inn og út á leiðinni. Þjónustan er öllum opin, þ.e. almenningssamgöngur.
     14.      Sérstakir reglubundnir farþegaflutningar: Reglubundnir flutningar á fyrirframákveðnum hópi farþega þar sem aðrir farþegar eru útilokaðir.

II. KAFLI
Leyfisveitingar.

4. gr.
Almennt rekstrarleyfi.

    Hver sá sem stundar farþegaflutninga eða farmflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum þessum skal hafa til þess almennt rekstrarleyfi.
    Leyfi má veita einstaklingum eða lögaðilum, hvort sem eru fyrirtæki, félög eða stofnanir. Leyfishafi skal uppfylla skilyrði 1. mgr. 5. gr.
    Leyfisbréf og leyfismerki skulu gefin út af Samgöngustofu. Leyfishafi skal hafa leyfisbréfið sýnilegt í bifreið sinni og leyfismerki fest í vinstri kant framrúðu eða á númeraplötu bifreiðarinnar. Leyfi skal gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt.
    Ekkert leyfi þarf til flutnings í eigin þágu.
    Óheimilt er að stunda leyfisskyldan farþegaflutning eða farmflutning án tilskilins leyfis og er slíkt brot gegn ákvæðum laga þessara og refsivert, sbr. 30. gr.

5. gr.
Skilyrði leyfis.

    Til að öðlast leyfi skv. 4. gr. þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
     2.      Hafa viðeigandi starfshæfni eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
     3.      Hafa gott orðspor eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
     4.      Hafa starfsstöð hér á landi sem er virk og traust eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Skilyrðum skv. 1. mgr. verður leyfishafi að fullnægja allan leyfistímann.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um umsóknir um leyfi, skilyrði fyrir leyfum og framkvæmd leyfisveitinga.

6. gr.
Flutningastjóri.

    Ef leyfishafi er lögaðili skal hann tilnefna a.m.k. einn einstakling sem flutningastjóra. Flutningastjóri þarf að uppfylla skilyrði 2. og 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. og stýra flutningastarfsemi fyrirtækisins í reynd og að staðaldri, hafa raunveruleg tengsl við fyrirtækið og vera búsettur á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Samgöngustofa gefur út vottorð um starfshæfni flutningastjóra svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um tilnefningu flutningastjóra og hlutverk hans í reglugerð, sem og nánar um skilyrði þess að mega starfa sem flutningastjóri og undanþágur frá skyldu til að tilnefna flutningastjóra.

7. gr.
Einkaréttur.

    Vegagerðin getur veitt sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga einkarétt á að skipuleggja og sjá um reglubundna farþegaflutninga á tilteknum svæðum eða tilteknum leiðum eða leiðakerfum til að tryggja þjónustu sem varðar almannahagsmuni allt árið, m.a. tíðni ferða, öryggi og kostnað.
    Einkaréttur er einungis veittur ef sýnt er fram á að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
     1.      Þjónusta í reglubundnum farþegaflutningum á viðkomandi svæði og leiðum eða leiðakerfum sé nauðsynleg vegna almennrar efnahagslegrar þýðingar hennar og að hún verði ekki rekin á viðskiptagrundvelli svo að lágmarksþjónusta sé tryggð. Tryggt skal að samkeppni fái að halda sér á þeim svæðum og leiðum þar sem hún er þegar fyrir hendi.
     2.      Vegagerðin hafi látið fara fram kostnaðar- og samkeppnismat þar sem tekið hefur verið tillit til sannanlegrar nauðsynjar á opinberum fjárframlögum á viðkomandi svæði, leiðum eða leiðakerfum.
    Reglubundnum farþegaflutningum á grundvelli einkaréttar skv. 1. mgr. skal að jafnaði úthlutað með útboði í samræmi við ákvæði 16. gr.
    Öðrum en einkaréttarhafa er óheimilt, nema með samþykki hans, að stunda reglubundna farþegaflutninga á tilteknum leiðum eða leiðakerfum eða svæðum þar sem einkaréttur til reglubundinna farþegaflutninga hefur verið veittur.
    Vegagerðinni er heimilt að binda einkarétt skilyrðum sem nauðsynleg eru til að ná því markmiði sem greinir í 1. mgr.
    Þeir aðilar sem stunda reglubundna flutninga samkvæmt einkarétti skulu í einu og öllu uppfylla skilyrði þessara laga, þar á meðal hafa almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. og fullnægja gæða- og tæknikröfum Samgöngustofu. Ökutæki sem notuð eru í reglubundnum farþegaflutningum verða ekki bundin skilyrðum hvað varðar stærð með tilliti til fjölda farþega.

8. gr.
Sérstakir reglubundnir farþegaflutningar.

    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. er öðrum en einkaréttarhafa heimilt að stunda sérstaka reglubundna farþegaflutninga, enda hafi viðkomandi almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. Til sérstakra reglubundinna farþegaflutninga teljast flutningar starfsfólks til og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda enda falli þeir ekki undir 8. tölul. 3. gr., ferðaþjónusta fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks og akstur skólanemenda. Flytjandi þarf að uppfylla skilyrði laga þessara og þær gæða- og tæknikröfur sem Samgöngustofa setur.
    Ökutæki sem notuð eru í sérstökum reglubundnum farþegaflutningum verða ekki bundin skilyrðum hvað varðar stærð með tilliti til fjölda farþega.

9. gr.
Akstur sérútbúinna bifreiða.

    Samgöngustofa veitir leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða, t.d. til fjallaferða, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis er að það sé notað í tengslum við þjónustu við ferðamenn og að umsækjandi hafi almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr.

10. gr.
Ferðaþjónustuleyfi.

    Samgöngustofu er heimilt að veita sérstakt leyfi til farþegaflutninga í ferðaþjónustu, enda þótt notaðar séu bifreiðar sem rúma færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis er að það sé notað í tengslum við ferðaþjónustu og skal umsækjandi hafa rekstrarleyfi annaðhvort sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa. Þjónustan skal veitt samkvæmt gjaldi sem er birt eða auglýst fyrir fram, eigi skemur en sem hálfsdagsferð eða sem hluti af annarri viðurkenndri ferðaþjónustu, þ.m.t. flutningur farþega til og frá sérhæfðri afþreyingu sem er hluti af ferðaþjónustu.
    Ökutæki ferðaþjónustuleyfishafa skulu vera merkt rekstraraðila.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu ferðaþjónustuleyfis, svo sem um eiginleika ökutækja, nauðsynlegan búnað og sérstakar merkingar og um undanþágur frá skilyrði um merkingar ökutækja.

11. gr.
Farþegaflutningar og farmflutningar innan Evrópska efnahagssvæðisins, milli aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og milli Íslands og Færeyja.

    Flutningar milli ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða innan lands í þeim ríkjum eða milli Íslands og Færeyja eru háðir sérstöku leyfi, bandalagsleyfi, og, ef ökumaður er ríkisborgari í landi utan Evrópska efnahagssvæðisins, ökumannsvottorði.
    Þeir sem hafa almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. geta sótt um leyfi til Samgöngustofu til að stunda farþega- og farmflutninga skv. 1. mgr. Sama gildir um leyfi sem veitt eru á grundvelli samninga við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða utan efnahagssamnings Íslands og Færeyja.
    Samgöngustofa gefur út ökumannsvottorð hér á landi fyrir handhafa leyfis skv. 2. mgr. sem ráðið hefur til sín ökumann sem er hvorki ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu né hefur þar fasta búsetu.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um umsóknir um bandalagsleyfi, skilyrði fyrir leyfum og framkvæmd leyfisveitinga. Þá er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð á um rafræna skráningu upplýsinga um leyfishafa og framkvæmd slíkrar skráningar.

III. KAFLI
Rekstrarleyfi og gjöld.

12. gr.
Gæða- og tæknikröfur.

    Bifreið sem notuð er til farþegaflutninga samkvæmt lögum þessum skal uppfylla gæða- og tæknikröfur Samgöngustofu og hana má eingöngu nota til slíkra flutninga meðan leyfið gildir, sbr. þó 9. gr. Þó er heimilt að flytja frakt í þar til gerðu rými, enda uppfylli bifreiðin að öðru leyti skilyrði farþegaflutningabifreiðar.
    Samgöngustofu er heimilt að gera sérkröfur vegna bifreiða sem eru notaðar til flutnings skólabarna.
    Framangreindar kröfur Samgöngustofu skulu staðfestar af ráðherra.

13. gr.
Útgáfa leyfa og eftirlit.

    Fyrir útgáfu leyfa og eftirlit með því að skilyrði þeirra séu uppfyllt, útgáfu vottorða og aðra umsýslu skal greiða gjöld til Samgöngustofu samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Nánar tiltekið skal greiða gjöld fyrir eftirfarandi:
     1.      Almennt rekstrarleyfi, sbr. 4. gr.
     2.      Leyfi til aksturs sérútbúinna bifreiða, sbr. 9. gr.
     3.      Bandalagsleyfi, sbr. 11. gr.
     4.      Ökumannsvottorð, sbr. 11. gr.
     5.      Kostnað vegna kvartana, sbr. 22. gr.
     6.      Annars konar vottorð eða umsýslu.
    Ráðherra staðfestir gjaldskrána sem skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöldunum er ætlað að standa straum af eftirfarandi:
     a.      launum og launatengdum gjöldum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
     b.      þjálfun og endurmenntun starfsfólks,
     c.      aðkeyptri sérfræðiþjónustu,
     d.      kostnaði við öflun og rekstur húsnæðis, starfsaðstöðu, búnaðar og tækja,
     e.      stjórnunar- og stoðþjónustu, svo sem akstri og flutningi.
    Gjöldin skulu ekki vera hærri en nemur raunkostnaði Samgöngustofu við veitingu þjónustunnar. Við ákvörðun fjárhæða er heimilt að taka mið af raunkostnaði við veitingu þjónustu sem telja má sambærilega.
    Á grundvelli þjónustusamnings er Samgöngustofu heimilt að fela öðrum að annast útgáfu leyfa og eftirlit samkvæmt lagagrein þessari. Í slíkum samningi skal kveðið á um að gagnaðila Samgöngustofu beri að innheimta gjöld skv. 1. mgr. vegna veitingar þjónustunnar. Um fjárhæð gjaldanna fer skv. 3. mgr. Ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga sem og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar gilda um þá stjórnsýslu sem verktaki tekur að sér að annast. Um þagnarskyldu hans og starfsmanna hans fer samkvæmt ákvæðum 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og skal brot á henni varða refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Ákvarðanir hans eru kæranlegar til ráðherra.

IV. KAFLI
Samningar um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga.

14. gr.
Almennar reglur.

    Ákveði Vegagerðin eða aðrir aðilar sem til þess hafa heimildir að veita rekstraraðila einkarétt eða styrk í skiptum fyrir að sinna skyldum um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga á vegum skal það gert innan ramma samninga um opinbera þjónustu.

15. gr.
Lögboðið efni samninga um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga á vegum.

    Í samningum um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga á vegum skal:
     a.      tilgreina með skýrum hætti þær skyldur um þjónustu sem rekstraraðila opinberrar þjónustu er skylt að uppfylla á viðkomandi svæði og afmarka skýrt eðli og umfang þess einkaréttar sem veittur er,
     b.      ákvarða skiptingu kostnaðar og tekna sem tengjast þjónustustarfseminni,
     c.      takmarka gildistíma og skal samningur um flutninga með hópbifreiðum að jafnaði ekki vera lengri en til fimm ára í senn og aldrei lengri en til tíu ára.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari skilyrði um inntak, form og annað það sem nauðsynlegt þykir varðandi efni samninga um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga á vegum.

16. gr.
Gerð samninga um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga á vegum.

    Sveitarstjórnum, byggðasamlögum eða landshlutasamtökum sveitarfélaga sem njóta einkaréttar skv. 7. gr. er heimilt að fela reglubundna farþegaflutninga rekstraraðila sem er alfarið í eigu og undir stjórn viðkomandi einkaréttarhafa. Ráðherra setur í reglugerð nánari skilyrði um þessa heimild.
    Sveitarstjórnir, byggðasamlög eða landshlutasamtök sveitarfélaga sem njóta einkaréttar skv. 7. gr., sem nýta ekki þá heimild sem getið er í 1. mgr., skulu bjóða út rekstur reglubundinna farþegaflutninga á viðkomandi svæði. Skulu útboð að jafnaði fara fram á fimm ára fresti en eigi sjaldnar en á tíu ára fresti. Fara skal um útboð samkvæmt ákvæði þessu eftir ákvæðum laga um opinber innkaup eftir því sem við á. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd og fyrirkomulag útboða.
    Heimilt er að víkja frá skilyrði 2. mgr. ef sú þjónusta sem verið er að semja um nær aðeins yfir afmarkaða heildarvegalengd eða meðaltalsársvirði þjónustunnar er undir tiltekinni lágmarksfjárhæð. Einnig er heimilt að víkja frá 1. og 2. mgr. ef röskun hefur orðið á þjónustu eða bráð hætta er á slíkri röskun. Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um frávik frá útboðsskyldu, þ.m.t. lágmarksfjárhæð.

V. KAFLI
Réttindi farþega.

17. gr.
Áskilnaður eða fyrirvari um ábyrgð.

    Flytjendur skulu gefa út farmiða til handa farþega nema önnur skjöl veiti rétt til flutnings. Upplýsingar um verð, ferðatilhögun og farkost skulu vera farþega aðgengilegar við bókun og kaup farmiða.
    Farþegar skulu njóta jafnræðis í hvívetna, þ.m.t. við verðlagningu þjónustu, nema þegar fargjöld eru greidd niður af félagslegum ástæðum.
    Ógildur er áskilnaður eða fyrirvari sem miðar að því að leysa flytjanda í farþegaflutningum undan ábyrgð eða kveður á um frekari ábyrgðartakmarkanir en greinir í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

18. gr.
Bætur til farþega.

    Farþegar eiga rétt á bótum vegna dauðsfalls, þ.m.t. fyrir sanngjörnum útfararkostnaði, líkamstjóns og taps eða skemmda á farangri af völdum slysa sem rekja má til notkunar á hópbifreið eða vegna annarra atvika sem flytjandi eða framkvæmdastjórn miðstöðvar ber ábyrgð á.
    Ef farþegi lætur lífið gildir þessi réttur um einstaklinga sem farþeginn hafði eða hefði haft lagalega skyldu til að hafa á framfæri sínu.
    Ráðherra kveður í reglugerð á um lágmarksfjárhæð bóta vegna farangurstjóns, líkamstjóns eða dauðsfalla í þeim tilvikum reglubundinna farþegaflutninga þar sem áætluð vegalengd ferðar er 250 km eða meira, sem og um önnur réttindi farþega þegar slys ber að höndum.

19. gr.
Réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga.

    Óheimilt er í reglubundnum farþegaflutningum að synja farþega á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar um:
     a.      bókun eða farmiða í ferð hér á landi,
     b.      að fara í hópbifreið hér á landi enda hafi farþegi gildan farmiða.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að synja farþega um bókun eða kaup á farmiða eða að fara í hópbifreið á grundvelli fötlunar eða hreyfihömlunar:
     a.      þar sem öryggiskröfur í lögum krefjast þess,
     b.      ef hönnun ökutækis eða samgöngumannvirkis, þ.m.t. biðstöðvar og miðstöðvar, gerir það að verkum að ógerlegt er af líkamlegum orsökum að hleypa fötluðum eða hreyfihömluðum einstaklingi inn eða út úr farartæki eða flytja hann á öruggan hátt.
    Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um skyldur flutningsaðila og réttindi farþega í þeim tilvikum sem um getur í 2. mgr., þ.m.t. réttinn til að hafa með sér fylgdarmann, endurgreiðslurétt og réttinn til að fá tilteknar upplýsingar, m.a. um aðgengisskilyrði, frá flutningsaðila. Jafnframt skal í reglugerð kveðið á um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga þegar kemur að aðstoð á miðstöðvum og um borð í hópbifreiðum, skilyrði þess að slík aðstoð sé veitt, þjálfun ökumanna og starfsfólks miðstöðva í tengslum við fötlun og annað það sem nauðsynlegt þykir til að tryggja eins og kostur er aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga að reglubundnum farþegaflutningum.

20. gr.
Samningsskilmálar og tryggingavernd.

    Flytjendur sem selja eða annast farþegaflutninga á vegum skulu láta farþegum í té skriflega eða rafrænt á öllum samgöngumiðstöðvum og sölustöðum, þ.m.t. við símsölu og sölu á vef, upplýsingar um:
     a.      helstu ákvæði sem gilda um bótaábyrgð á farþegum og farangri þeirra, þ.m.t. mörk bótaábyrgðar á lífs- og líkamstjóni, eyðileggingu, tapi eða skemmdum á farangri, svo sem hjólastólum og öðrum ferlihjálpartækjum fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga, auk tafa á ferðaáætlun,
     b.      frest til að gera kröfu um bætur,
     c.      leiðir til að leggja fram tilkynningu varðandi tap eða tjón á farangri á öllum sölustöðum farmiða og bætur fyrir slíkt tjón,
     d.      fulla ábyrgð flytjanda á nauðsynlegum hjálpartækjum hreyfihamlaðra, t.d. hjólastólum.
    Nú býður flytjandi farþegum rýmri bótarétt en lög þessi kveða á um og skal þá þeim aukna rétti lýst skilmerkilega.

21. gr.
Réttindi farþega þegar ferð í reglubundnum farþegaflutningi er aflýst eða henni seinkar.

    Sjái flytjandi fram á að þurfa að aflýsa ferð eða að brottför seinki um meira en 120 mínútur eða ef um er að ræða yfirbókun skal farþega tafarlaust boðið að velja á milli þess:
     a.      að halda ferðinni áfram eða fá akstursleið breytt til lokaáfangastaðar án viðbótarkostnaðar og við sambærileg skilyrði og þau sem tilgreind eru í flutningssamningnum eins fljótt og unnt er,
     b.      að fá andvirði farmiðans endurgreitt og, ef við á, fá endurgjaldslaust far til baka til fyrsta brottfararstaðar eins fljótt og unnt er.
    Ef flytjandi býður farþega ekki að velja á milli þeirra kosta sem getur í 1. mgr. á farþeginn rétt á bótum sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Ef hópbifreið verður óökufær meðan á ferð stendur skal flytjandi annaðhvort bjóða upp á að ferðinni sé haldið áfram með öðru ökutæki frá þeim stað þar sem óökufæra ökutækið er statt eða útvega flutning frá þeim stað þar sem óökufæra ökutækið er statt til viðeigandi biðstöðvar eða miðstöðvar, þaðan sem mögulegt er að halda ferðinni áfram.
    Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um réttindi farþega vegna seinkunar eða niðurfellingar ferðar, þ.m.t. um skyldu flytjanda til upplýsingagjafar og aðstoðar og takmörkun bótaskyldu vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
    Ákvæði þetta á einungis við í reglubundnum farþegaflutningum þegar áætluð vegalengd ferðar er 250 km eða meira. Þá gildir ákvæðið ekki um farþega með opna farmiða, svo fremi brottfarartími sé ekki tilgreindur, að undanskildum farþegum með áskriftar- eða tímabilskort.

22. gr.
Kvartanir vegna brota á réttindum farþega.

    Telji farþegar eða aðrir sem hagsmuna eiga að gæta að flytjandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Samgöngustofu.
    Berist Samgöngustofu slík kvörtun skal hún m.a. leita álits viðkomandi flytjanda á kvörtuninni, ganga úr skugga um að upplýsingar sem þar eru veittar eigi við rök að styðjast og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan og markvissan hátt.
    Náist ekki samkomulag skv. 2. mgr. skal úr ágreiningi skorið með ákvörðun Samgöngustofu. Ákvörðun stofnunarinnar er heimilt að kæra til ráðherra. Um kæru gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.
    Gerist flutningsaðili sekur um ítrekuð brot gagnvart farþegum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra er Samgöngustofu heimilt að svipta viðkomandi aðila leyfi í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Samgöngustofu er heimilt að innheimta gjald vegna kostnaðar af kvörtunum sem berast frá neytendum á grundvelli þessarar greinar. Stofnuninni er heimilt að innheimta gjaldið af viðkomandi þjónustuveitanda sem kvartað er yfir í hlutfalli við fjölda ákvarðana sem af kvörtunum leiðir. Gjaldið og kostnaðargrunnur þess fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.
    Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um meðferð kvartana á grundvelli þessa ákvæðis og tímafresti.

VI. KAFLI
Eftirlit, niðurfelling leyfis, svipting leyfis, viðurlög o.fl.

23. gr.
Stjórnsýslueftirlit.

    Samgöngustofa hefur eftirlit með því að starfsemi flytjenda sé í samræmi við lög, reglugerðir eða reglur sem um starfsemina gilda.

24. gr.
Tilkynningar um brot.

    Tilkynna skal til lögreglu eða Samgöngustofu um brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Tilkynningar má setja fram hvort sem er munnlega eða skriflega og þær skulu innihalda, eftir því sem við á, greinargóða lýsingu og skýringar á meintu broti, upplýsingar um þá starfsemi sem stunduð er, ökutæki sem notuð eru við starfsemina og aðila sem hana stunda.

25. gr.
Upplýsingagjöf til stjórnvalda.

    Samgöngustofa getur hvenær sem er krafið einstaklinga og fyrirtæki sem undir lög þessi heyra um allar þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem nauðsynlegar eru til eftirlits með því að skilyrði leyfis samkvæmt lögum þessum séu uppfyllt. Samgöngustofa getur m.a. krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem hún metur nauðsynleg.
    Samgöngustofu er heimilt, að undangenginni skriflegri áskorun um að verða við upplýsingabeiðni skv. 1. mgr., að leggja dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar innan hæfilegs frests. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Sektirnar geta numið frá 10.000 til 100.000 kr. á dag. Skal við ákvörðun dagsekta líta til eðlis og alvarleika aðstæðna hverju sinni.
    Aðila er heimilt að kæra ákvörðun Samgöngustofu um beitingu dagsekta skv. 2. mgr. til ráðuneytisins innan 14 daga frá því að honum var tilkynnt um ákvörðunina. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er. Ákvarðanir Samgöngustofu um dagsektir eru aðfararhæfar og renna sektir í ríkissjóð.

26. gr.
Tímabundin niðurfelling og afturköllun almenns rekstrarleyfis.

    Telji Samgöngustofa staðfest að handhafi almenns rekstrarleyfis uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 5. gr. eða að hann hafi með öðrum hætti gerst brotlegur við lög þessi og reglugerðir settar á grundvelli þeirra skal Samgöngustofa tilkynna leyfishafa það með sannanlegum hætti og gefa viðkomandi færi á að setja fram skýringar og gögn þeim til stuðnings.
    Liggi fyrir að leyfishafi uppfylli ekki lengur skilyrði 1. mgr. 5. gr. er Samgöngustofu heimilt að krefjast úrbóta innan hæfilegs frests og, telji stofnunin þess þörf, fella leyfið niður tímabundið. Sinni leyfishafi ekki úrbótum innan hæfilegs frests skal leyfi afturkallað.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari reglur um tímabundna niðurfellingu og afturköllun leyfis skv. 1. og 2. mgr.

27. gr.
Svipting leyfis.

    Svipta skal leyfishafa leyfi samkvæmt lögum þessum ef hann hefur ítrekað gerst brotlegur við lög þessi, brot er stórfellt, það framið af ásetningi eða þess eðlis að ekki verður úr bætt. Jafnframt er unnt að svipta leyfishafa leyfi ef hann hefur sannanlega gerst sekur um vítavert hátterni og telja verður með hliðsjón af eðli brotsins varhugavert að hann njóti leyfis áfram.
    Séu ríkar ástæður til að ætla að skilyrði fyrir sviptingu leyfis séu fyrir hendi og að töf á sviptingu geti haft almannahættu í för með sér er Samgöngustofu heimilt að svipta leyfishafa leyfi þegar í stað til bráðabirgða þar til endanleg ákvörðun í málinu hefur verið tekin.

28. gr.
Yfirlýsing um að flutningastjóri sé óhæfur.

    Ef flutningastjóri hefur ekki lengur gott orðspor, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 5. gr., skal Samgöngustofa lýsa hann óhæfan til að stjórna flutningastarfsemi á grundvelli laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.

29. gr.
Vettvangseftirlit.

    Lögreglu er heimilt hvenær sem er að stöðva ökutæki, sem falla undir lög þessi, til að kanna hvernig flutning sé um að ræða, þar á meðal hvort flutningurinn sé leyfisskyldur, hvort brotið sé gegn einkarétti skv. 7. gr. eða hvort flutningur sé að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga þessara. Ef um leyfisskyldan flutning er að ræða sem fram fer án tilskilins leyfis er lögreglu heimilt að fyrirskipa kyrrsetningu ökutækis.
    Ökumanni og rekstraraðila er skylt að verða við fyrirmælum lögreglu í tengslum við framkvæmd eftirlits.
    Rekstraraðili ber ábyrgð á fólki og farangri sem hann flytur þegar för ökutækis er stöðvuð samkvæmt þessari grein og ber ábyrgð á að standa straum af þeim kostnaði sem af áframhaldandi flutningi hlýst.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlits á vettvangi í reglugerð.

30. gr.
Sektir.

    Það varðar sektum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      1. mgr. 4. gr. um almennt rekstrarleyfi.
     2.      2. mgr. 5. gr. um skilyrði rekstrarleyfis á leyfistíma.
     3.      4. mgr. 7. gr. um einkarétt.
     4.      9. gr. um leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða.
     5.      10. gr. um ferðaþjónustuleyfi.
     6.      11. gr. um bandalagsleyfi.
     7.      1. mgr. 12. gr. eða reglugerðum um gæða- og tæknikröfur.
     8.      19. gr. eða reglugerð um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga.
     9.      21. gr. eða reglugerð um réttindi farþega þegar ferð er aflýst eða henni seinkar.
     10.      1. mgr. 25. gr. um skyldu til að veita upplýsingar.
    Flytjandi ber hlutlæga refsiábyrgð á brotum starfsmanna sinna á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Röng upplýsingagjöf til lögreglu eða til Samgöngustofu skv. 25. gr. varðar refsingu skv. 146. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

31. gr.
Málsmeðferð.

    Brot gegn lögum þessum geta sætt rannsókn lögreglu hvort heldur sem er að frumkvæði lögreglu eða að undangenginni kæru Samgöngustofu.
    Með kæru Samgöngustofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Samgöngustofu um að kæra mál til lögreglu.
    Samgöngustofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem kærð eru.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Samgöngustofu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og nauðsynleg eru til að Samgöngustofa geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

32. gr.
Rafræn landsskrá.

    Samgöngustofa heldur rafræna landsskrá yfir rekstraraðila sem stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Í rafrænni landsskrá skulu m.a. koma fram upplýsingar um heiti fyrirtækis og rekstrarform, nöfn flutningastjóra, tegund starfsleyfa og fjölda ökutækja sem þau taka til, upplýsingar um hvort rekstraraðili eða flutningastjóri hafi gerst sekur um alvarleg brot á lögum þessum eða þeim reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra eða þurft að sæta stjórnsýsluviðurlögum þeim sem kveðið er á um í 26.–28. gr.
    Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um rafræna landsskrá, framkvæmd slíkrar skráningar og heimildir Samgöngustofu til að veita upplýsingar úr skránni.

33. gr.
Stjórnsýsluákvarðanir og málskot.

    Stjórnsýsluákvörðunum Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum má skjóta til ráðherra. Um málsmeðferð við ákvarðanatöku og meðferð kærumála fer samkvæmt stjórnsýslulögum

34. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

35. gr.
Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi taka gildi 1. júní 2017. Jafnframt falla úr gildi lög um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, með síðari breytingum.
    Leyfi til farmflutninga og farþegaflutninga sem gefin hafa verið út samkvæmt lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, halda gildi sínu samkvæmt lögum þessum þar til gildistími þeirra er útrunninn eða leyfi fellur niður samkvæmt ákvæðum laga þessara.
    Einkaleyfissamningar sem gerðir hafa verið á grundvelli 7. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, halda gildi sínu þar til gildistíma þeirra lýkur nema um annað sé samið.