Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 735  —  265. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson og Steinlaugu Högnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016, frá 18. mars 2016, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn þrjár gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB frá 26. febrúar 2014 um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 18. september 2016. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Markmiðið tilskipananna þriggja er að samræma skilyrði sem eiga við um þann búnað sem um ræðir hverju sinni. Þannig skal m.a. beita skilgreindu samræmismati til að tryggja samræmi við grunnkröfur og festa CE-merki á viðkomandi vörur og tæki.
    Tilskipun 2014/34/ESB skilgreinir grunnkröfur sem varða búnað og verndarkerfi sem ætluð eru til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar 94/9/EB sem hefur verið innleidd. Tilskipun 2014/35/ESB skilgreinir grunnkröfur þeirra raffanga sem undir hana falla og ætlað er að vernda heilbrigði og öryggi manna, húsdýra og eigna, auk þess að tryggja starfsemi innri markaðarins. Tilskipun 2014/30/ESB skilgreinir þær grunnkröfur sem búnaður skal uppfylla hvað varðar rafsegulsamhæfi en hugtakið er skilgreint sem geta búnaðar til að starfa eðlilega í rafsegulumhverfi sínu án þess að valda óviðunandi rafsegultruflunum á öðrum búnaði í því umhverfi. Tilskipun 2014/35/ESB og tilskipun 2014/30/ESB fela báðar í sér endurskoðun á eldri tilskipunum sem innleiddar hafa verið í íslenska löggjöf.
    Innleiðing tilskipana 2014/30/ESB og 2014/35/ESB kallar á breytingar á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Þá kallar innleiðing tilskipunar 2014/34/ESB á breytingar á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000. Tilskipanirnar voru allar innleiddar á síðasta þingi.
    Þrátt fyrir að framsetning tillögunnar teljist að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála gerir utanríkismálanefnd ákveðnar athugasemdir við meðferð málsins. Utanríkismálanefnd áréttar að reglur um þinglega meðferð EES-mála eiga lagastoð í lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og er þeim m.a. ætlað að tryggja að frágangur lagafrumvarpa sem innleiða reglur sem byggjast á ESB-gerðum sé með tilteknum og samræmdum hætti.
    Utanríkismálanefnd gerir athugasemd við að tilskipanirnar hafi verið innleiddar áður en stjórnskipulegum fyrirvara hafi verið aflétt með þingsályktun, sbr. tillögu þessa. Sú málsmeðferð er ekki í samræmi við 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála þar sem fram kemur að „hlutaðeigandi ráðuneyti undirbúa samhliða eða í framhaldi af framlagningu þingsályktunartillögu nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga og leggja tímanlega fyrir þingið“.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form., frsm.
Álfheiður Ingadóttir. Ásta Guðrún Helgadóttir.
Birgir Ármannsson. Bryndís Haraldsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Bjarnason.