Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 738  —  363. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson og Steinlaugu Högnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016, frá 23. september 2016, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (reglugerð um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu (ODR)).
     2.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1051 frá 1. júlí 2015 um fyrirkomulag framkvæmdar á starfsemi rafræns vettvangs til lausnar deilumálum á Netinu, fyrirkomulag rafræna kvörtunareyðublaðsins og fyrirkomulag samstarfs milli tengiliða sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (tilskipun um lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR)).
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 17. mars 2017. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Reglugerð (ESB) nr. 524/2013 er fyrst og fremst ætlað að stuðla að aukinni neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu. Reglugerðinni er ætlað að bregðast við skorti á leiðum til að leysa deilumál vegna sölu á vöru eða þjónustu á netinu. Reglugerðin setur á fót heildstæða löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu um lausn deilumála með rafrænni málsmeðferð. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal þannig setja á fót miðlægan gagnagrunn, sem m.a. verði aðgengilegur á íslensku, fyrir neytendur og seljendur. Ætlunin er að gagnagrunnurinn verði til þess að unnt sé að leysa deilumál sem upp koma vegna viðskipta á netinu, utan dómstóla, á einfaldan, skilvirkan, hraðvirkan og ódýran hátt. Neytendasamtökin munu gegna hlutverki landstengiliðs fyrir gagnagrunninn. Í því felst að samtökin veita stuðning við lausn deilumála og greiða fyrir samskiptum milli málsaðilanna og þar til bærs úrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla.
    Framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1051 felur í sér ítarlegar samskiptareglur, auk reglna um upplýsingagjöf, meðferð gagna o.fl. vegna samskipta neytenda, úrskurðarnefnda og landsstjórnvalda við miðlæga gagnagrunninn sem kveðið er á um í reglugerð (ESB) nr. 524/2013.
    Markmið tilskipunar 2013/11/ESB er að tryggja aðgengi að úrskurðaraðilum í deilumálum utan dómstóla. Þannig mælir tilskipunin fyrir um almennar reglur um lausn deilumála utan réttar. Tilskipunin skyldar seljendur vöru og þjónustu, sem heyra undir tilskipunina, að gerast aðilar að einföldum og skilvirkum úrræðum fyrir neytendur til að leysa ágreining sem upp getur komið í viðskiptum. Jafnframt er lögð sú skylda á ríki á Evrópska efnahagssvæðinu að tryggja að hægt sé að vísa deilumálum til úrskurðaraðila utan dómstóla. Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa gegnir hlutverki slíks úrskurðaraðila hér á landi en einnig eru starfandi sértækar kærunefndir sem fást við kvartanir vegna tiltekinnar tegundar þjónustu. Þá skulu úrskurðarnefndir halda úti vefsetri með greiðum aðgangi að upplýsingum um þá málsmeðferð sem lögð er til.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, lögum nr. 42/2000, um þjónustukaup, og lögum nr. 48/2003, um neytendakaup.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
frsm.
Álfheiður Ingadóttir.
Ásta Guðrún Helgadóttir. Birgir Ármannsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Bjarnason.