Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 740  —  365. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 100/2016 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson og Steinlaugu Högnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 100/2016, frá 29. apríl 2016, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál), og til að fella inn í samninginn framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2119 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna framleiðslu á þiljum að meginhluta úr viði.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 29. október 2016. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2010/75/ESB um losun í iðnaði sameinar sjö eldri EES-gerðir um samþættar mengunarvarnir. Markmið hennar er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi. Meðal þeirra nýmæla sem felast í tilskipuninni eru ákvarðanir um bestu aðgengilegu tækni (BAT) sem fela í sér að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun setja fram, í samráði við aðildarríkin og hagsmunaaðila, viðmið varðandi tiltekna starfsemi.
    Framkvæmdarákvörðun 2015/2119 setur fram niðurstöður um bestu fáanlegu tækni fyrir framleiðslu á þiljum úr viði. Einungis framleiðsla á tilteknum plötum úr viði í verksmiðju sem afkastað getur meira en 600 m3 á sólarhring fellur undir gildissvið framkvæmdarákvörðunarinnar. Við kynningu gerðarinnar hjá nefndinni kom fram að ekki væri vitað til þess að neitt íslenskt fyrirtæki félli undir gildissvið framkvæmdarákvörðunarinnar.
    Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2119 kallar ein og sér ekki á lagabreytingar, en þar sem móðurgerðin sem ákvörðunin byggist á, tilskipun 2010/75/ESB, kallar á lagabreytingu og hefur enn ekki verið innleidd í landsrétt var ekki lagastoð fyrir hendi til að innleiða ákvörðunina. Sú lagastoð mun fást þegar tilskipun 2010/75/ESB verður innleidd með breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Ásta Guðrún Helgadóttir,
frsm.
Álfheiður Ingadóttir.
Birgir Ármannsson. Bryndís Haraldsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Bjarnason.