Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 742  —  374. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (rafræn undirritun sakbornings).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Skúla Þór Gunnsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og Jónas Inga Pétursson og Thelmu Clausen frá ríkislögreglustjóra. Umsögn barst frá félagi yfirlögregluþjóna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sem auka skilvirkni við afgreiðslu smærri mála hjá lögreglu með því að einfalda framkvæmd og auka þannig afköst og hraða við meðferð mála. Með frumvarpinu er lagt til að lögreglu verði heimilt að láta sakborning undirrita skýrslu rafrænt á vettvangi sem og að afhenda megi lögregluskýrslu með rafrænum hætti. Að auki er lagt til að ráðherra fái heimild til að kveða nánar á um framkvæmd rafrænnar undirritunar og afhendingar skýrslu í reglugerð.
    Á fundi nefndarinnar var farið yfir núverandi verklag í smærri málum, þ.e. í málum þar sem viðurlögin eru sekt og sakborningur gengst við broti, og hvernig fyrirhuguð breyting muni hafa áhrif til einföldunar á það. Gert er ráð fyrir að lögreglumenn notist við spjaldtölvur við afgreiðslu þessara mála. Nefndin tekur undir sjónarmið um að umrædd lagabreyting auki skilvirkni og sé til einföldunar.
    Nefndin fjallaði einnig um öryggi fjarskipta og persónuverndarsjónarmið. Fram kom að fjarskiptin væru dulkóðuð. Öryggisúttekt hefur verið gerð en nefndin telur mikilvægt að haft verði einnig samráð við Persónuvernd. Lögð er áhersla á að slíkt verklag uppfylli öryggis- og persónuverndarsjónarmið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 9. maí 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Pawel Bartoszek,
frsm.
Nichole Leigh Mosty.
Vilhjálmur Árnason. Björn Leví Gunnarsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Valgerður Gunnarsdóttir. Andrés Ingi Jónsson. Eygló Harðardóttir.