Ferill 486. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 756  —  486. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ómari Ásbirni Óskarssyni um innflutning á kjöti frá Grænlandi.


     1.      Hvers vegna var nýlega synjað tollafgreiðslu á 1,7 tonni af hreindýrakjöti frá Grænlandi?
    Varan sem um ræðir var flutt til landsins frá Grænlandi 27. nóvember 2016. Við nánari skoðun á vörunni kom í ljós að hún var ekki merkt með tilskildu samþykkisnúmeri starfsstöðvar. Engar merkingar voru aðrar en ógreinilegur og ólæsilegur stimpill á kjötinu og því var leyfi til innflutnings hafnað, sbr. eftirfarandi umfjöllun.
    Um innflutning matvæla frá Grænlandi gilda m.a. lög um matvæli, nr. 93/1995, (matvælalög) og reglugerð nr. 1044/2011 um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan EES, sem er sett með stoð m.a. í matvælalögum og lögum um dýrasjúkdóma, nr. 25/1993. Tilgangur matvælalaga kemur fram í 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Á öllum stigum framleiðslu og dreifingar skal vera möguleiki á að rekja feril matvæla. Hreindýrakjöt fellur undir lögin sem matvæli skv. 4. gr. laganna. Matvæli skulu vera merkt og auðkennd á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga í samræmi við framangreindar kröfur.
    Evrópusambandið hefur sett ítarlegar reglur um frágang og merkingu matvæla sem flytja á inn á markað í aðildarríkjunum, sem búið er að innleiða í íslenskan rétt. Eitt skilyrðanna er að á merkingu afurða komi fram samþykkisnúmer starfsstöðvar, svo hægt sé að staðfesta að viðkomandi starfsstöð hafi gilt vinnslu- eða starfsleyfi og þar af leiðandi tryggja tiltekið heilbrigðisástand starfsstöðvarinnar þegar varan yfirgefur hana.
    Krafa um auðkennismerkingar á matvælum er ófrávíkjanleg skv. 13. gr. a laga nr. 93/1995, sbr. 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002 um rekjanleika matvæla, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 102/2010. Með tilliti til gagna málsins var auðkennisnúmer ekki auðgreinanlegt á kjötinu sem um ræðir þegar það barst til landsins og var innflutningur þess því óheimill.

     2.      Telur ráðherra þörf á aðgerðum til að koma í veg fyrir að innflutningur á kjöti frá Grænlandi mæti hindrunum í framtíðinni og ef svo er, þá hvaða aðgerðum?
    Ekki er talin þörf á aðgerðum í því skyni að koma í veg fyrir hindranir á innflutningi í framtíðinni. Í því tilviki sem um ræðir voru ófrávíkjanlegar kröfur um merkingar matvæla ekki uppfylltar og því synjað um innflutning. Innflutningur í atvinnuskyni verður almennt heimilaður svo fremi sem allar kröfur viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða eru uppfylltar.
Rétt er að benda á að farþegum frá Grænlandi er heimilt að koma með til einkaneyslu allt að 10 kg af villibráð í farangri til landsins án skoðunar á landamærastöð, að fengnu leyfi Matvælastofnunar.