Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 757  —  328. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um leyfi til olíuleitar.


     1.      Hversu mörg leyfi til olíuleitar eru í gildi hér á landi, hverjir eru handhafar leyfanna og hver er gildistími þeirra?
    Eitt sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis er í gildi í dag. Handhafar þess leyfis eru CNOOC Iceland ehf. (60%), Eykon Energy ehf. (15%) og Petoro Iceland efh. (25%). Gildistími leyfisins er tólf ár. Leyfið var veitt 22. janúar 2014 og gildir til 22. janúar 2026. Leyfistímabilið er áfangaskipt og lýkur fyrsta rannsóknaráfanganum í janúar 2018. Fyrir lok hans þarf leyfishafinn að skuldbinda sig til að framkvæma rannsóknir sem lýst er í 2. áfanga rannsóknaráætlunar leyfisins (þrívíðar endurkastsmælingar) eða að öðrum kosti gefa leyfið eftir. Að loknum öðrum áfanga, fyrir 22. janúar 2022, þarf leyfishafi að skuldbinda sig til að framkvæma rannsóknir samkvæmt 3. áfanga rannsóknaráætlunarinnar, sem er borun einnar rannsóknarholu.

     2.      Fylgja réttindi til borunar öllum leyfum eða einhverjum þeirra?
    Leyfishafi hefur ekki skuldbundið sig í sérleyfinu til að bora rannsóknarholu, en samkvæmt ákvæðum leyfisins þarf leyfishafi að gera það fyrir 22. janúar 2022. Slík framkvæmd yrði leyfisskyld og matsskyld samkvæmt íslenskum lögum og ekki er heimilt að bora í jarðlög undir hafsbotni nema að fengnu samþykki Orkustofnunar á búnaði, áætlun um borun og starfsfyrirkomulagi, sbr. 14. gr. kolvetnislaga, nr. 13/2001.

     3.      Er ráðgert að veita fleiri leyfi?
    Sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis er einungis hægt að veita í útboðum, sbr. ákvæði kolvetnislaga, nr. 13/2001. Þegar hafa tvö útboð farið fram en ekki hefur verið tekin ákvörðun um nýtt útboð að svo stöddu.

     4.      Hversu mikið mundi kosta að afturkalla leyfin?
    Samkvæmt mati Orkustofnunar, sem hefur umsjón með veitingu leyfa samkvæmt kolvetnislögum, nr. 13/2001, er kostnaður sem leyfishafar hafa þegar lagt í rannsóknir vegna olíuleitar á Drekasvæðinu gróft áætlaður af stærðargráðunni 4 milljarðar króna. Ekki hefur verið lagt mat á bótakröfur vegna afturköllun leyfa, ef til kæmi.