Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 773  —  535. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótmæli gegn ofsóknum í garð samkynhneigðra í Tsjetsjeníu.


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir.


    Alþingi fordæmir harðlega ofsóknir gegn samkynhneigðum í Tsjetsjeníu.
    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að setja formlega fram hörð mótmæli íslenskra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Rússlandi vegna þeirra mannréttindabrota sem eiga sér stað í sjálfstjórnarlýðveldinu Tsjetsjeníu og hvetja rússnesk stjórnvöld til að beita áhrifum sínum til að stöðva ofsóknirnar.
    Jafnframt felur Alþingi utanríkisráðherra að leita samstöðu við önnur ríki um aukinn þrýsting gagnvart rússneskum stjórnvöldum vegna málsins.
    Þá felur Alþingi innanríkisráðuneytinu að leita leiða til að bjóða samkynhneigðum einstaklingum frá Tsjetsjeníu dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi.

Greinargerð.

    Í byrjun apríl greindi rússneska dagblaðið Novaya Gazeta frá því að tugum samkynhneigðra karlmanna hefði verið rænt í Tsjetsjeníu, sjálfsstjórnarlýðveldi í Rússlandi. Síðan þá hafa fregnir reglulega borist af því að samkynhneigðir karlmenn sæti þar grófu ofbeldi af hálfu yfirvalda. Fórnarlömb hafa stigið fram og sagt frá fangabúðum þar sem samkynhneigðir karlmenn hafa verið pyntaðir á hrottalegan hátt og jafnvel myrtir. Talið er að rúmlega hundrað samkynhneigðir menn séu nú í haldi yfirvalda.
    Þjóðarleiðtogar á borð við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hafa hvatt rússnesk stjórnvöld til þess að bregðast við. Antonio Tajani, forseti Evrópuþingsins, hefur í yfirlýsingu vegna umræddra mannréttindabrota í Tsjetsjeníu ítrekað að Evrópuþingið fordæmi hvers kyns ofsóknir og mismunun í garð samkynhneigðra. Þá hefur Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, ítrekað að það sé á ábyrgð rússneskra stjórnvalda að standa vörð um mannréttindi borgara sinna. Sameinuðu þjóðirnar, Amnesty International og Human Rights Watch, eru meðal þeirra samtaka sem lýst hafa yfir þungum áhyggjum af stöðu mála.
    Ramzan Kadyrov, forseti Tsjetsjeníu, hefur þvertekið fyrir umrædd mannréttindabrot. Þá hefur talsmaður tsjetsjenskra stjórnvalda, Alvi Karimov, látið hafa eftir sér að ekkert sé hæft í ásökunum þar sem samkynhneigð fyrirfinnist ekki í Tsjetsjeníu og ómögulegt sé að ofsækja þá sem ekki eru til staðar. Karimov hefur jafnframt sagt að laganna verðir mundu aldrei þurfa að hafa áhyggjur, væri einhverja samkynhneigða að finna í Tsjetsjeníu, þar sem ættingjar þeirra sæju sjálfir til þess að þeir hyrfu. Rússnesk yfirvöld segjast ekkert hafa séð sem bendi til þess að umrædd mannréttindabrot eigi sér stað í Tsjetsjeníu.
    Barátta fyrir mannréttindum hinsegin fólks á að vera eitt af forgangsmálum í utanríkisstefnu Íslands. Því er mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri allt sem í valdi þeirra stendur til að stöðva mannréttindabrot yfirvalda í Tsjetsjeníu.