Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 776  —  451. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um heilbrigðisumdæmi og fjármálaáætlun.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 byggða á ítarlegri stefnumótun og traustum og skýrum forsendum um þá þjónustu sem skuli veita í hverju heilbrigðisumdæmi og þar með heilbrigðiskerfinu í heild? Ef svo er, hvaða gögn liggja því til grundvallar og hvar eru þau aðgengileg?

    Ráðherra telur að sú stefna sem fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sé byggð á traustum grunni og endurspegli áherslur sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkistjórnarinnar og stefnumótunarvinnu sem fram hefur farið á undanförnum árum á sviði heilbrigðisþjónustu.
    Við undirbúning fjármálaáætlunar fyrir árin 2018–2022 var tekið mið af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, ákvörðun Alþingis um byggingu Landspítala, stefnum og drögum að stefnu ýmissa málaflokka á heilbrigðissviði, sem unnin hafa verið á undanförnum árum.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er lögð áhersla á að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga, hraða uppbyggingu Landspítalans eins og kostur er, auka aðgengi að sérfræðiþjónustu í dreifðum byggðum, styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað, efla geðheilbrigðisþjónustu og stytta biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar endurspeglast í fjármálaáætlun 2018–2020. Einnig var tekið mið af þingsályktun Alþingis um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára og framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila til ársins 2020. Þá var eftir atvikum tekið mið af stefnumótunarvinnu sem farið hefur fram á ýmsum sviðum heilbrigðismála á undanförnum árum og fjölmargir hafa komið að. Bæði hefur verið um að ræða greiningu á ýmsum þáttum heilbrigðismála og tillögur. Hluti þeirrar stefnumótunar hefur orðið að stefnu sem hefur verið samþykkt af Alþingi eða af ráðherra eins og fram kemur hér að framan. Fyrir Alþingi liggja nú drög að lyfjastefnu.
    Hluti stefnumótunarinnar hefur hins vegar verið fólginn í tillögum starfshópa eða sérfræðinga á mismunandi sviðum þótt þær tillögur hafi ekki fengið formlega stöðu sem stefna ráðherra. Má þar m.a. nefna tillögur að aðgerðum í heilbrigðisþjónustu við aldraða, skýrslu starfshóps um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu, skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítala og fleira.
    Í aðdraganda vinnu við fjármálaáætlun 2018–2022 voru einnig haldnir samráðsfundir með forstöðumönnum heilbrigðisstofnana um þau málefnasvið sem viðkomandi stofnanir sinna. M.a. var óskað eftir að þeir legðu mat á hvað væri brýnast að gera á næstu árum og hver væru helstu viðfangsefnin. Ein heilbrigðisstofnun veitir heilbrigðisþjónustu í hverju heilbrigðisumdæmi að frátöldu heilbrigðisumdæmi Norðurlands og Höfuðborgarsvæðisins, þar sem eru tvær heilbrigðisstofnanir. Þeir sem komu að þessum fundum hafa því glögga yfirsýn yfir veikleika heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmum og hvert beri að stefna.
    Nálgast má upplýsingar um hluta þeirra gagna sem notuð hafa verið við undirbúning fjármálaáætlunar á vefnum. 1

1    Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar:
www.forsaetisraduneyti.is/verkefni/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/
    Boston Consulting Group: www.velferdarraduneyti.is/rit-og-skyrslur-vel/nr/33074
    Skýrsla um rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítala:
www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/skyrsla-um-rekstrarhagkvaemni-og-stodu-landspitala
    Þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára:
www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/althingi-samthykkir-stefnu-og-adgerdaaaetlun-i-gedheilbrigdismalum
    Stefnumótun í heilbrigðisþjónustu við aldraða:
www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nidurstodur-uttektar-a-oldrunarthjonustu
    Frétt um framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarheimila:
www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/35445
    Svar við 5. lið fyrirspurnar frá Svandísi Svavarsdóttur á 145. löggjafarþingi um byggingu hjúkrunarheimila: www.althingi.is/altext/145/s/1534.html
    Lyfjastefna til ársins 2022 – þingsályktunartillaga:
www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=372