Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 780  —  216. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna neytenda ef þeir hafa nægar tekjur til að standa undir verulegum sveiflum í greiðslubyrði lánanna. Með öðrum orðum stendur til að greiða fyrir aðgangi efnaðs fólks að lánum sem ekki standa öðrum til boða.
    Sterkur hvati er til að taka slík lán enda vextir víða erlendis mun lægri en hér. Með því að ávaxta féð hér á landi geta lántakendur fengið í sinn hlut umtalsverðan vaxtamun. Sá ávinningur er þó ekki kostnaðarlaus. Stýrivextir Seðlabanka Íslands hrífa síður ef efnafólk getur tekið gengistryggð lán á vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivextina. Á móti þurfa aðrir í samfélaginu að þola meira aðhald af hálfu peningastefnunnar og því greiða hærri vexti. Mikil erlend lántaka óvarinna lántaka getur einnig magnað upp gengissveiflur og aukið fjármálaóstöðugleika. Líkur eru til að margir þeirra leitist samtímis við að kaupa gjaldeyri til að lágmarka gengistap ef krónan tekur að lækka. Það ýkir lækkunina sem hækkar verð innflutts varnings og eykur því verðbólgu. Hún hækkar aftur verðtryggðar skuldir fólks.
    Brýnt er að Seðlabanki Íslands hafi heimildir til að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu, sér í lagi ef fram koma vísbendingar um að lánveitingarnar geti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Viðeigandi þjóðhagsvarúðartæki þurfa að vera til staðar til að hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða tímanlega. Minni hlutinn tekur undir áherslu Seðlabanka Íslands á að hann fái skýrt umboð til að beita því þjóðhagsvarúðartæki sem reglusetningin er.
    Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að Eftirlitsstofnun EFTA telji bann íslenskra laga við gengistryggingu ekki samrýmast meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Stofnunin hefur þó ekki krafist þess að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna lántaka. Ákvörðun um að ganga svo langt er pólitísk og verður ekki réttlætt með vísan til álits Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Í stuttu máli má því segja að í frumvarpinu endurspeglist pólitísk ákvörðun um að greiða fyrir aðgangi efnafólks að ódýrri erlendri fjármögnun sem ekki stendur öðrum til boða og er á kostnað annarra í samfélaginu. Minni hlutinn getur því ekki stutt framgang þess.

Alþingi, 12. maí 2017.

Katrín Jakobsdóttir,
frsm.
Lilja Alfreðsdóttir. Oktavía Hrund Jónsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.