Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 784  —  234. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði samgangna (innleiðing alþjóðlegra skuldbindinga).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur, Gunnar Örn Indriðason, Björn Frey Björnsson og Valgerði Eggertsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Kristínu Helgu Markúsdóttur og Sigrúnu Henríettu Kristjánsdóttur frá Samgöngustofu og Karl Alvarsson og Hafdísi Perlu Hafsteinsdóttur frá Isavia. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Isavia og Samgöngustofu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fimm lagabálkum á sviði samgangna, siglingalögum, lögum um loftferðir, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, lögum um vaktstöð siglinga og lögum um rannsókn samgönguslysa. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að breytingarnar séu vegna innleiðingar reglna sem stafi af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði samgangna.
    Nefndinni bárust ekki athugasemdir við aðra þætti frumvarpsins en þann sem lýtur að lögum um loftferðir, en um þann þátt bárust nefndinni nokkrar athugasemdir frá Isavia, sem einkum lutu að hugtakabreytingu sem væri óþörf að mati félagsins, ákvæðum laga og reglugerða um trúnaðarfulltrúa gagnvart Samgöngustofu og afnám kröfu um aldurshámark flugumferðarstjóra. Nefndin hefur fengið greinargóðar skýringar frá fulltrúum ráðuneytisins og Samgöngustofu á þessum breytingum. Breytingu hugtaksins flugverndarfulltrúi í flugverndarstjóri er ætlað að færa orðalagið nær orðalagi frumtextans og skerpa á ábyrgðarstöðu viðkomandi aðila. Þá er núverandi framkvæmd um trúnaðarfulltrúa gagnvart Samgöngustofu, sem kveðið er á um í reglugerð, veitt tryggari lagastoð með breytingu frumvarpsins. Loks telur ráðuneytið nauðsynlegt að afnema skýlaust lagaboð um aldurshámark flugumferðarstjóra til að rétt megi standa að innleiðingu reglugerðar (ESB) 2015/340, en þessu mati er Isavia ósammála. Nefndinni þykir þó sýnt að með því að fella brott skilyrðið um aldurshámark sé löggjöfin færð nær því sem getur í reglugerðinni auk þess sem nefndinni þykir ómálefnalegt að halda aldurshámarksskilyrðinu inni, réttara sé að gera strangar hæfniskröfur til flugumferðarstjóra, óháð aldri.
    Að framangreindu virtu telur nefndin ekki þörf á að leggja til breytingar á frumvarpinu og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. maí 2017.

Valgerður Gunnarsdóttir,
form.
Pawel Bartoszek,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Ásmundur Friðriksson. Bryndís Haraldsdóttir. Einar Brynjólfsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Teitur Björn Einarsson.