Ferill 392. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 785  —  392. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992 (lánshæfi aðfaranáms).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur, Daða Heiðar Kristinsson og Þórarin V. Sólmundarson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hjördísi Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Ragnar Auðun Árnason og Pétur Martein Urbancic Tómasson frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, David Erik Mollberg frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, Þóri Óskarsson frá Ríkisendurskoðun, Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur og Baldur Gíslason frá Skólameistarafélagi Íslands og Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur og Hlöðver Bergmundsson frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Umsagnir bárust frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Nemendafélagi Tækniskólans í Reykjavík, Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og stúdentaráði Háskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, sem varðar lánshæfi aðfaranáms. Aðfaranám er ætlað nemendum sem hyggja á háskólanám en hafa hætt reglubundnu námi í framhaldsskóla eða útskrifast með námslok á 3. hæfniþrepi og þurfa því að bæta við sig námi til að fullnægja inntökuskilyrðum háskóla. Aðfaranám er ekki ígildi náms til stúdentsprófs og veitir því að öllu jöfnu ekki rétt til náms í öðrum háskólum en þeim sem skipuleggja viðkomandi aðfaranám.
    Tilefni frumvarpsins er að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Lánasjóður íslenskra námsmanna – Lánshæfi náms og þróun útlána (júní 2011), eru ábendingar um að lánveitingar vegna aðfaranáms fari ekki aðeins í bága við 1. og 2. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, heldur sé brotin jafnræðisregla gagnvart þeim sem leggja stund á framhaldsskólanám til stúdentsprófs. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lagastoð undir námslán Lánasjóðsins til nemenda vegna aðfaranáms hér á landi. Með því að gera aðfaranám lánshæft er verið að auka tækifæri ákveðins hóps til náms.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að sjóðnum verði heimilt að veita námslán til aðfaranáms sé námið skipulagt af viðurkenndum háskóla á Íslandi. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að með því skilyrði væri aðfaranám sem stundað væri erlendis ekki lánshæft sem takmarkaði möguleika námsmanna að stunda nám sem einungis væri í boði utan landsteinanna. Þá var einnig bent á að það að veita ekki sams konar lán til námsmanna í aðfaranámi erlendis væri brot á jafnræði til náms. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að sömu reglur gildi varðandi nám sem skipulagt er af viðurkenndum háskólum hvort sem er hérlendis eða erlendis og leggur því til breytingu á frumvarpinu í þá veru.
    Í 1. gr. frumvarpsins er einnig áskilið samþykki ráðherra fyrir heimild sjóðsins til að veita námslán til aðfaranáms. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með orðunum „samþykki ráðherra“ sé vísað til 4. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006. Í 3. mgr. 3. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna er kveðið á um að stjórn sjóðsins setji nánari úthlutunarreglur um útfærslu á lögunum sem m.a. kveði á um lánshæfi náms og skulu þær lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra. Meiri hlutinn telur því rétt að áskilja samþykki ráðherra fyrir heimild til að veita námslán til aðfaranáms hvort sem er hérlendis eða erlendis.
    Í nýju ákvæði til bráðabirgða í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að þeir sem eru í aðfaranámi erlendis eigi áframhaldandi rétt til að ljúka námi sínu í óbreyttri fyrirgreiðslu lánasjóðsins. Í ljósi breytingartillögu meiri hlutans um að aðfaranám verði lánshæft, hvort sem það er stundað hérlendis eða erlendis, leggur meiri hlutinn til að ákvæðið falli brott.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið þess efnis að með frumvarpinu væri verið að festa í sessi þá skipan að almennt bóknám á framhaldsskólastigi sé lánshæft fyrir suma nemendur en ekki aðra. Jafnframt komu fram ábendingar um að eðlilegra væri að bjóða þetta nám innan framhaldsskólanna heldur en innan háskólastofnana. Meiri hlutinn áréttar að með frumvarpinu er ekki verið að leggja til breytingar á núverandi framkvæmd heldur að fá lagastoð fyrir henni. Meiri hlutinn beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að skoða þessi atriði sem og áhrif alþjóðavæðingar í námi við heildarendurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Orðin „á Íslandi“ í 1. gr. falli brott.
     2.      2. gr. falli brott.

Alþingi, 11. maí 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Nichole Leigh Mosty. Vilhjálmur Árnason.
Pawel Bartoszek. Valgerður Gunnarsdóttir.