Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 792  —  267. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja.


     1.      Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að tryggja orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja?
    Á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis er unnið að skipan starfshóps sem falið verður að koma með tillögur að breytingu á raforkulögum þar sem orkuöryggi á heildsölumarkaði raforku er tryggt og skýrð ábyrgð og hlutverk aðila á þeim markaði. Í þessu skyni þarf að skoða samspil aðila á markaði, kortleggja heildsölumarkaðinn og vankanta á honum. Með heildsölumarkaði raforku er átt við raforkusölu til heimila og minni fyrirtækja (um 20% af raforkumarkaðnum). Starfshópurinn hefur störf á næstu vikum og skoðar hvernig hægt sé að betrumbæta fyrirkomulag þess heildsölumarkaðar sem sett var upp með raforkulögum 2003 með hliðsjón af þeirri stöðu sem nú er uppi. Einnig verður komið inn á mikilvægi orkuöryggis heimila og fyrirtækja í heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland, en undirbúningur slíkrar stefnumótunar er hafinn af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Ráðgert er að niðurstöður og tillögur um framangreint liggi fyrir um mitt ár 2018.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því að samkvæmt raforkulögum virðist enginn bera ábyrgð á neytendamarkaðinum? Til hvaða ráðstafana mun ráðherra grípa og hvenær má gera ráð fyrir að úrbæturnar verði komnar til framkvæmda?
    Samkvæmt framangreindu verður starfshópi á vegum ráðuneytisins falið að koma með tillögur að breytingu á raforkulögum þar sem ábyrgð og hlutverk aðila á markaði eru skýrð, m.a. hver beri ábyrgð á afhendingu raforku á heildsölumarkað og hvert hlutverk eftirlitsstofnana sé í því samhengi. Ráðgert er að í framhaldi af vinnu starfshópsins verði frumvarp þess efnis, um breytingu á raforkulögum, lagt fram á Alþingi á haustþingi 2018.

     3.      Hverjar eru skyldur orkuframleiðenda gagnvart heildsölumarkaðinum samkvæmt lögum og hvað telur ráðherra að gera þurfi til að tryggja bestu neytendavernd á honum, m.a. til að koma í veg fyrir að verð til heimilanna hækki?
    Í 2. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, er fjallað um raforkuvinnslu og í 7. gr. laganna er fjallað um starfsemi og skyldur vinnslufyrirtækja. Ekki er í raforkulögum, eða öðrum lögum, fjallað um skyldur orkuframleiðenda gagnvart heildsölumarkaðinum eða einstökum viðskiptavinum, þ.e. samkvæmt núgildandi raforkulögum bera orkuframleiðendur ekki sérstakar skyldur gagnvart heildsölumarkaði raforku. Framangreindum starfshóp, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar, verður m.a. falið að kortleggja heildsölumarkað raforku, vankanta sem eru á honum og hvernig unnt sé að tryggja orkuöryggi til lengri tíma og neytendavernd, m.a. með lagaákvæðum um hlutverk og skyldur aðila á markaði.

     4.      Hvernig hyggst ráðherra auka orkuöryggi á almenna markaðinum með því að tryggja nægt framboð á orku? Hvaðan mun sú orka koma?
    
Vísað er í svar við 1.–3. lið fyrirspurnarinnar varðandi starfshóp um orkuöryggi á almennum raforkumarkaði (heildsölumarkaði raforku) og vinnu við breytingar á raforkulögum til að auka orkuöryggi á þeim markaði. Lögum samkvæmt er það ekki í höndum ráðherra að tryggja nægt framboð raforku eða ákvarða hvaðan ný orkuöflun eigi að koma. Vísað er til þess að samkvæmt lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, skal eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun). Í þeirri áætlun er mótuð stefna um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Rammaáætlun er þannig það stjórntæki sem ætlað er að gefa yfirlit yfir hugsanlega nýja virkjunarkosti.

     5.      Til hvaða ráðstafana mun ráðherra grípa til að auka arðsemi af orkusölu til stórnotenda en gæta þess um leið að orkuverð til heimilanna sé ætíð það lægsta í Evrópu?
    Orkusölusamningar milli orkuvinnslufyrirtækja og stórnotenda eru viðskiptasamningar sem gerðir eru á viðskiptalegum forsendum án aðkomu stjórnvalda og eru háðir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Ráðherra hefur ekki heimildir að lögum til að koma með neinum hætti, beinum eða óbeinum, að gerð slíkra raforkusölusamninga. Raforkumarkaður á Íslandi er samkeppnismarkaður, sbr. raforkulög, nr. 65/2003, og hefur ráðherra því ekki heimildir að lögum til að hlutast til um ákvörðun raforkuverðs orkusölufyrirtækja til einstakra viðskiptavina sinna. Ákvörðun um orkuverð vegna sölu á raforku er í höndum vinnslufyrirtækjanna. Lögum samkvæmt hafa Orkustofnun og Samkeppniseftirlitið eftirlit með aðilum á raforkumarkaði, m.a. varðandi virka samkeppni á þeim markaði.

     6.      Hverjar eru ástæður þess að unnt virðist að auka raforkusölu til stórnotenda með því að minnka orkuframboð til heimilanna og þar með hækka verð til þeirra? Hvernig samrýmist þessi möguleiki stefnumörkun ráðherra í neytendaverndarmálum?

    Ákvarðanir um raforkusölu og gerð raforkusölusamninga eru í höndum orkusölufyrirtækja í landinu sem starfa á samkeppnismarkaði og eru þær teknar á viðskiptalegum forsendum án aðkomu stjórnvalda, sbr. framangreint. Starfshópi ráðherra um orkuöryggi á heildsölumarkaði verður falið að endurskoða fyrirkomulag á heildsölumarkaði raforku og skýra hlutverk og ábyrgð aðila á þeim markaði, sérstaklega gagnvart raforkusölu til heimila og minni fyrirtækja.