Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 793  —  447. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um upprunaábyrgð raforku.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til ábendingar í skýrslunni Upprunaábyrgðir í íslensku samhengi , frá mars 2016, um að hætt sé við að uppruni íslenskrar orku sé í reynd tvínýttur í viðskiptum, þ.e. bæði hér á landi og erlendis, sem fer gegn skuldbindingum EES-samningsins og ákvæðum íslenskra og erlendra laga og hvernig telur ráðherra að bæta eigi úr þessu?
    Í skýrslunni Upprunaábyrgðir í íslensku samhengi, sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, kemur fram að innleiðing regluverks um upprunábyrgðir hér á landi er í megindráttum í samræmi við evrópska regluverkið sem liggur til grundvallar, sbr. lög nr. 30/2008, um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Í skýrslunni er á það bent að sala upprunaábyrgða úr landi geti skaðað ímynd Íslands, þ.e. þá ímynd að orkuframleiðsla landsins sé hrein og endurnýjanleg (og þar með orkunotkun). Þetta stafar af því að þegar upprunaábyrgðir vegna framleiðslu á endurnýjanlegri orku eru seldar frá Íslandi til Evrópu þarf við framsetningu gagna vegna raforkusölu á Íslandi að taka inn í útreikninga hér á landi samsvarandi magn af raforku sem seld er í Evrópu. Er það gert til að koma í veg fyrir tvítalningu. Fyrir vikið verður t.d. kjarnorka og jarðefnaeldsneyti hluti af framsetningu á uppruna raforku á Íslandi.
    Afstaða ráðherra til framangreindrar skýrslu, og ábendinga hennar, er að brýnt sé að staðinn sé vörður um þá ímynd og staðreynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orka. Formleg orkustefna Íslands liggur ekki fyrir en í gegnum tíðina hefur hún fyrst og fremst gengið út á mikilvægi aukin hlutfalls endurnýjanlegra orkugjafa. Markmið stjórnvalda er að tryggja ímynd Íslands og að framsetning á raforkusölu hér á landi sé með þeim hætti að hér sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg raforka. Sala orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum úr landi, með framangreindum afleiðingum, samræmist því almennt séð ekki vel því markmiði.
    Lög nr. 30/2008 voru sett til að innleiða ákveðið regluverk um upprunaábyrgðir frá Evrópusambandinu og skapa skilyrði fyrir viðskipti með upprunaábyrgðir á raforku. Það er síðan í höndum orkusölufyrirtækjanna að ákveða hvort þau nýta sér regluverkið og selja upprunaábyrgðir raforku. Þannig er það hvorki í höndum stjórnvalda að banna slíkt með lögum né ákveða slíka sölu.
    Til að ná markmiðum um ímynd Íslands í orkumálum er æskilegt að horfa til ábyrgðar þeirra orkufyrirtækjum sem selja upprunaábyrgðir úr landi og fá til liðs við þá stefnu stjórnvalda að tryggja ímynd Íslands um hreina orkuframleiðslu.
    Benda má á að frá því að framangreind skýrsla kom út hefur Landsvirkjun tilkynnt um þá ákvörðun sína að láta upprunaábyrgðir fylgja raforkusölu frá fyrirtækinu inn á heildsölumarkaði raforku, þ.e. til almennings og minni fyrirtækja. Landsvirkjun er það orkufyrirtæki sem mest hefur selt af upprunaábyrgðum á undanförnum árum, bæði til innlendra aðila og erlendra. Með ákvörðun fyrirtækisins hefur því að miklu leyti það vandamál verið leyst að innlendir aðilar, fyrir utan stóriðju, hafa nú upprunavottorð um að sú raforka sem þeir nota sé að öllu leyti af endurnýjanlegum uppruna. Jafnframt má geta þess að fyrir liggur ákvörðun sama efnis frá Orkusölunni.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til ábendingar í fyrrnefndri skýrslu um að þörf sé á skýrari ákvæðum um upplýsingagjöf orkunotenda og eftirlitsúrræði stjórnvalda og hvernig telur ráðherra rétt að bregðast við?
Á     vegum ráðuneytisins og Orkustofnunar er unnið að því að fara yfir þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni um að þörf sé á skýrari ákvæðum um upplýsingagjöf orkunotenda og eftirlitsúrræði stjórnvalda. Verið er að leggja mat á hvort þær ábendingar kalli á breytingar á lögum nr. 30/2008 eða reglugerð sem sett hefur verið með stoð í þeim.

     3.      Telur ráðherra þátttöku í evrópska upprunaábyrgðakerfinu fyrir raforku hagstæða fyrir íslensk fyrirtæki og almenning með tillit til þess að hún felur í sér að ímynd óhreinnar orku (kola, kjarnorku, jarðolíu) færist hingað að verulegu leyti?
    Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hefur verið lagt mat á kostnað íslenskra raforkunotenda vegna upprunaábyrgða raforku og áhrif viðskiptakerfis með upprunaábyrgðir á ímynd íslenskra fyrirtækja og framleiðslu þeirra og ímynd Íslands sem framleiðanda hreinnar orku eða er slík matsgerð áformuð?
    Umfram það sem fram kemur í framangreindri skýrslu hefur ekki verið lagt mat á kostnað íslenskra raforkunotenda vegna upprunaábyrgða raforku og áhrif viðskiptakerfis með upprunaábyrgðir á ímynd íslenskra fyrirtækja og framleiðslu þeirra og ímynd Íslands sem framleiðanda hreinnar orku. Sem stendur er slík matsgerð ekki áformuð.

     5.      Telur ráðherra að við rök eigi að styðjast þær áhyggjur matvælaframleiðenda að viðskipti með upprunaábyrgðir raforku geti valdið því að ekki verði unnt að fá vottun á lífræna framleiðslu og ef svo er, hvernig telur ráðherra að eigi að bregðast við?
    Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar.