Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 795  —  307. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum (bílastæðagjöld).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hlutinn telur að huga beri að ýmsu þegar kemur að samþykkt þessa frumvarps. Fordæmalaus fjölgun ferðamanna til landsins hefur því miður ekki skilað sér nægilega í auknum tekjum til sveitarfélaga. Sá mikli virðisauki sem ferðaþjónustan hefur skapað hefur að mestu runnið til ríkisins. Afar brýnt er að tryggja sveitarfélögunum hlutdeild í virðisaukanum og nægar tekjur til að standa straum af uppbyggingu ferðamannastaða. Uppbygging innviða hefur setið á hakanum allt of lengi og ljóst er að veita þarf stóraukið fjármagn til hennar. Í þeim efnum má ekki líta svo á að á móti verði að koma sérstakar afmarkaðar tekjur þó vissulega sé nauðsynlegt að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna. Þjónustugjöld eins og bílastæðagjöld koma aldrei í staðinn fyrir almenn fjárframlög þar sem þeim má einungis verja til uppbyggingar og viðhalds þeirrar þjónustu sem veitt er.
    Gjaldtaka í ferðaþjónustu er umfangsmikið mál sem ber að skoða heildstætt. Ríkisstjórnin hefur þegar uppi áform um að færa hluta þeirra greina sem undir ferðaþjónustu heyra í hæsta þrep virðisaukaskatts. Það skortir skýra sýn og heildstæða stefnu um hvernig best er að haga gjaldtöku í ferðaþjónustunni. Þar þarf ekki síst að horfa til komugjalds. Mikilvægt er að sveitarfélögin fái réttlátan skerf af slíku gjaldi auk þess sem tryggja ber sveitarfélögunum eðlilega hlutdeild í gistináttagjaldi.
    Minni hlutinn varar við því að með samþykkt þessa frumvarps líti stjórnarmeirihlutinn svo á að fjárþörf sveitarfélaganna til uppbyggingar vegna stóraukins ferðamannastraums hafi verið mætt. Vegna eðlis þjónustugjalda er ljóst að tryggja þarf sveitarfélögunum meira fjármagn en hér er gert ráð fyrir.
    Frumvarpið kveður á um hvernig nýta megi það gjald sem innheimtist, nánar tiltekið til að „standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðureita, þ.m.t. launum varða, og kostnaði við uppbyggingu, viðhald og rekstur þjónustu sem veitt er í tengslum við notkun stöðureitar, svo sem salernisaðstöðu, og gerð og viðhaldi göngustíga og tenginga við önnur samgöngumannvirki.“ Hér er að mörgu að hyggja, svo sem því hvað átt er við með tengingu við önnur samgöngumannvirki. Þá vekur ákvæðið upp þær spurningar hvernig fjárhæð gjaldsins verður ákveðin. Mun það lækka þegar stofnkostnaður hefur verið greiddur niður og það stendur aðeins undir rekstrarkostnaði? Verður það lægra á bílastæðum sem þegar hafa verið lögð þar sem ekki er heimilt að láta þjónustugjöld standa undir kostnaði við uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað?
    Það skortir á skýrar línur í frumvarpinu um það hver sé raunverulegur vilji stjórnvalda í þessum efnum. Þá er óljóst hvort bílastæðagjöld eigi að nýta til aðgangsstýringar. Verður fólki meinaður aðgangur að svæðum ef bílastæðin við það eru full? Þar er á ferð mun umfangsmeiri umræða en tæpt er á í þessu frumvarpi og minni hlutinn kallar eftir því að ráðherra skýri betur stefnuna hvað það varðar.
    Mikilvægt er að til þess bærir aðilar með sérþekkingu hafi umsjón með stígagerð á náttúrusvæðum. Stígar og mannvirki á slíkum svæðum þurfa að falla vel að landslagi og því er eðlilegt að Skógræktin og Landgræðslan komi að slíkum verkum.
    Þrátt fyrir alla ágalla þessa frumvarps og skort á yfirsýn í stefnumálunum leggst minni hlutinn ekki gegn samþykkt frumvarpsins. Minni hlutinn leggur hins vegar til að samhliða samþykkt frumvarpsins verði skipaður starfshópur sem fari heildstætt yfir gjaldtöku í ferðaþjónustu, ekki síst með tilliti til þess að tryggja sveitarfélögum sanngjarna hlutdeild í virðisaukanum sem af henni hlýst.

Alþingi, 12. maí 2017.

Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.