Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 796  —  543. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um greiningu á tækniþróun.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa starfshóp sem vinni greiningu á tækniþróun á komandi árum, möguleika Íslands á því sviði og áhrifum hennar á samfélag og efnahag og leggi fram ábendingar um viðbrögð, m.a. á sviði löggjafar, menntunar, rannsókna og atvinnuþróunar. Hópinn skipi fulltrúar háskólasamfélagsins, vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og Alþingis.

Greinargerð.

    Tækniþróun hefur orðið með slíkum hraða á undanförnum árum að fáir treysta sér til þess að spá fyrir um afleiðingar og áhrif hennar. Talað hefur verið um tæknibyltingu sem muni verða mun hraðari en áður hefur þekkst þar sem saman muni renna nanótækni, líftækni, upplýsingatækni og vitsmunavísindi. Ólíklegt er hins vegar að löggjöf, regluverk og almennt skipulag samfélagsins þróist á sama hraða. Á næstu árum og áratugum getum við átt von á verulegum breytingum á vinnumarkaði, efnahagslífi og samfélagi þar sem sjálfvirkni og gervigreind verða nýtt til æ fleiri verkefna. Alþingi hefur þegar samþykkt eina ályktun, nr. 45/145, sem lýtur að notkun sjálfvirkni í hernaði og eru þessi mál þegar farin að hafa aukið vægi í alþjóðastarfi.
    Gervigreind mun verða beitt í auknum mæli, ekki aðeins í iðnaði, landbúnaði og öðrum slíkum geirum, heldur einnig við ýmsa sérfræðivinnu, til dæmis í hernaði, í áhættugreiningu á fjármálamarkaði, við margs konar greiningarvinnu á ólíkum sviðum og svo mætti lengi telja. Sjálfakandi bílar eru í stöðugri þróun hjá fjölda fyrirtækja.
    Gervigreind er í auknum mæli beitt á netinu til að hafa áhrif á hegðun manna og safna upplýsingum um fólk. Ýmiss konar stafræn tækni er þegar í boði til að fylgjast með hegðun og heilsu fólks og flestir kjósa sjálfir að nýta sér slíka tækni og samþykkja að henni sé beitt. Ljóst má vera að hana er líka hægt að nýta á annan hátt, t.d. af vinnuveitendum sem vilja hafa eftirlit með starfsmönnum, jafnvel án þeirra vitundar.
    Því er spáð að gervigreind muni í auknum mæli fara inn á tilfinningasvið. Til dæmis eru fjölmörg fyrirtæki að þróa umönnunarvélmenni og aðra sjálfvirka tækni sem ætlað er að mynda tengsl við sjúklinga eða aldraða eftir því hvar þau verða sett til starfa.
    Þessi öra þróun skapar möguleika en vekur um leið spurningar um ýmsa þætti:
          Hvernig eigi að standa vörð um mannlega reisn og mannréttindi á 21. öld.
          Hvernig eigi að vernda persónuupplýsingar, tryggja frelsi frá eftirliti og tryggja rétt fólks til einkalífs.
          Hvernig eigi að tryggja eignarrétt þar sem óljóst má vera hver eigi upplýsingar sem safnað er um einstaklinga á vegum t.d. stjórnvalda eða stórfyrirtækja.
          Hvernig eigi að mæta breytingum á vinnumarkaði, samsetningu starfa og þróun sem getur þjónað markmiðum um styttri vinnuviku og meiri lífsgæði – eða orðið til ýta stórum hópum út af vinnumarkaði sem þar af leiðandi munu ekki hafa viðunandi framfærslu.
    Þessi mál hafa m.a. verið til umræðu á vettvangi Evrópuráðsins þar sem áhersla hefur verið á að nálgast þau út frá sjónarhóli mannréttinda. Þar hefur verið bent á að byggja megi á grunngerð Oviedo-samningsins um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar við hagnýtingu á líffræði og læknisfræði sem fagnar nú 20 ára afmæli.
    Vegna hraða og fjölda þeirra breytinga sem eru framundan næstu árin og áratugina – hraða sem flestir sérfræðingar eru sammála um að muni verða meiri en sést hefur í fyrri tækni- og vísindabyltingum – er mikilvægt að byrja strax að undirbúa atvinnulíf, mennta- og heilbrigðiskerfi, stjórnvöld og íslenskt samfélag í heild.
    Augljóslega eiga þessi mál ekki undir neitt eitt ráðuneyti. Því er það lagt til í þessari tillögu að forsætisráðuneytið skipi starfshóp þar sem sitji sérfræðingar í gervigreind/sjálfvirkni úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu, ásamt fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins, verkalýðshreyfingunni, Siðfræðistofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Alþingi. Hópurinn ljúki störfum og skili skýrslu 1. október 2018 þar sem leitast verði við að greina hvaða siðferðislegu álitamál blasi við í þessum breytta heimi, hvort gera þurfi lagabreytingar, hvaða nýju áherslur þurfi að setja í menntun og rannsóknum og hvernig megi undirbúa vinnumarkað betur til að mæta þessum breytingum.